Laugardaginn 21. júlí milli 14 og 16 bjóða Hrókurinn og Kalak, vinafélag Íslands og Grænlands, í opið hús í Pakkhúsi Hróksins, Geirsgötu 11 við Reykjavíkurhöfn.
Sagt verður frá hátíðum á Austur-Grænlandi 2.-7. ágúst og í Kullorsuaq á Vestur-Grænlandi í september. Þá eru til sýnis ljósmyndir og listmunir, jafnt frá Grænlandi, og úr sögu Hróksins.
Hátíðin á laugardag er til að fagna 15 ára starfi Hróksliða á Grænlandi. Félagið hélt fyrsta skákmótið í sögu Grænlands árið 2003 og hefur síðan skipulagt hátt í 70 ferðir og hátíðir hjá okkar góðu grönnum á Grænlandi, og tekið þátt í fjölmörgum samfélagsverkefnum, með kjörorð Hróksins að leiðarljósi: Við erum ein fjölskylda.
Allir eru hjartanlega velkomnir, og veitingar eru í boði hússins.