Aðalfundur Kalak verður haldinn í sal Norræna félagsins, Óðinsgötu 7, Reykjavík, klukkan 20:00, fimmtudaginn 28. apríl.
Starf vetrarins i stuttu máli er að eins og undanfarin ár stóð Kalak fyrir komu hóps ellefu ára barna frá þorpunum á austurströnd Grænlands. Að þessu sinni komu 29 börn auk 5 fararstjóra, en hópurinn var leiddur, sem fyrr, af skólastjóranum í Kulusuk, Lars Peter Stirling. Hópurinn dvaldi í Kópavogi og stundaði samfélagstíma með íslenskum börnum en stundaði einnig sundnám tvisvar á dag. Engar sundlaugar eru á austurströnd Grænlands. Ekki þarf að orðlengja hve mikilvægar þessar heimsóknir eru fyrir börnin sem síðar eiga eftir að stunda saman nám í 10. bekk í Tasiilaq. Flest hafa aldrei farið erlendis og sum aldrei frá sínu litla þorpi. Félagar úr skákfélaginu Hróknum tefldu við börnin auk þess sem þau fóru í heimsókn að Bessastöðum. Einnig að Gullfossi og Geysi, í húsdýragarðinn, bíó og út að borða. Ný upplifun á hverjum degi!
9. mars sl var haldið mynda/fyrirlestrakvöld í sal Norræna félagsins þar sem Ragnar Hauksson fjallaði á afar fræðandi hátt m sögu vestur-Grænlands í máli og myndum. Á síðasta ári tók hann austurhlutann fyrir.
Eins og undanfarin ár héldu fjórir skáktrúboðar til Ittoqqortoormiit þann 13. apríl sl. á vegum Hróksins. Ferðir þessar hafa verið undirbúnar í góðu samstarfi við Kalak undanfarin ár en frá árinu 2003 hefur Hrókurinn sent leiðangra að austurströndinni, undir forystu Hrafns Jökulssonar. Öll þorp hafa verið heimsótt og gefin fleiri hundruð skáksett. Fimmta páskaferðin í röð var semsagt að Scoresbysundi og tókst hún frábærlega. Leiðangursmenn voru Ingibjörg Edda Birgisdóttir, fyrrum íslandsmeistari kvenna i skák, Tim Vollmer ljósmyndari, Hrund Þórsdóttir blaðamaður og Arnar Valgeirsson sem leitt hefur leiðangra Hróksins undanfarin ár. Meira um ferðina síðar en í ferðum þessum er reglulega bloggað á Grænlandssíðu Hróksins:
http://godurgranni.blog.is/blog/godurgranni/