Ekki missa af þessu

Aðalfundur Kalak, 2013

Aðalfundur Kalak, Volcano House, þriðjudaginn 23. apríl, 2013.

Aðalfundur Kalak, Vinafélags Íslands og Grænlands, var haldinn í Volcano House, Tryggvagötu í Reykjavík, þriðjudaginn 23. apríl sl. kl. 20:00.

Mættir eru um 20 manns.

Halldór Björnsson, formaður, setur fundinn og stingur upp á Hannesi Stefánssyni sem fundarstjóra og er það samþykkt. Arnar Valgeirsson er fundarritari.

Hannes gefur Halldóri orðið og fer hann með skýrslu formanns þar sem hann fer yfir hverju Kalak hefur staðið fyrir síðan síðasti aðalfundur var. Þar kom meðal annars fram að Kalak tók þátt í vestnorrænu hátíðinni „Nýjar slóðir“ með Norræna húsinu í október sl. og skipulagði komu grænlenskra listamanna. Til þess fékkst styrkur frá samstarfssjóði Nuuk, Reykjavíkur og Þórshafnar.

Í september sl. komu, sjöunda árið í röð, börn á tólfta ári frá litlu þorpum austurstrandarinnar til að læra að synda. Bjuggu þau í Kópavogi og syntu í Salalaug tvisvar á dag og stunduðu skóla með íslenskum jafnöldrum. Þetta er langstærsta verkefni Kalak og upplifa börnin ótrúlega margt á þessum tveimur vikum, fara í skoðunarferðir, heimsókn að Bessastöðum, bíó, Fjölskyldu- og Húsdýragarðinn og myndast góður vinskapur þeirra á milli, sem og milli grænlensku og íslensku barnanna.

Ragnar Hauksson, leiðsögumaður, hélt áhugaverðan myndafyrirlestur um óbyggðir Austur-Grænlands í Norræna húsinu í janúar. Ragnar hefur áður haldið fyrirlestra fyrir Kalak og metþátttaka var að þessu sinni, tæplega 60 manns.

Í marsmánuði tók Kalak þátt í undirbúningi styrktartónleika í Hörpunni. Var þetta í samstarfi við „Vini Grænlands“ og var tilefnið söfnun fyrir nýju tónlistarhúsi í Kulusuk sem brann til kaldra kola. Stofnaður var söfnunarsími og sjálfir tónleikarnir tókust frábærlega, enda margir þekktustu tónlistarmanna landsins sem voru með. Helstu bakhjarlar tónleikanna voru: Flugfélag Íslands, Guide to Iceland, Skákakademían og Tónastöðin. Við þetta tilefni færði fyrirtækið Guide to Iceland Kalak söfnunarsíðu á netinu þar sem sérstakur söfnunarreikningur hefur verið stofnaður.

Þá tók Kalak, í samstarfi við Hrókinn, þátt í ferð fjögurra leiðangursmanna til Ittoqqortoormiit við Scoresbysund þar sem skákkennsla og mótahald var yfir páskana í sex daga. Þetta voru sjöundu páskarnir í röð sem Hrókurinn sendir leiðangur í þetta einangraða þorp og hefur Kalak tekið virkan þátt í undirbúningi ferðanna.

Þá er Kalak ekki bara með netsíðuna kalak.is heldur einnig komið á facebook og á þar marga vini.

Þá fer Skúli Pálsson, gjaldkeri , yfir efnahags- og rekstrarreikning félagsins.

Þar kemur fram að um sl. áramót á félagið 2.027.000 kr. á reikningi samanborið við 2.164.000 árinu áður. Skúli fer yfir innkomu og útgjöld og útskýrir lið fyrir lið og tekur fram að kostnaður vegna komu „sundkrakkanna“ byggist á styrkjum frá opinberum aðilum og Sermersooq kommune – vegna fararstjóra-. Þá er styrkur vegna skákferða, sem og útgjöld, með í yfirliti en liðsmenn Hróksins hafa alfarið séð um að fá þá styrki en Kalak heldur utan um peningana.

Í stuttu máli er innkoman þannig að 244 þús. koma í félagsgjöld, styrkir vegna skákstarfsins voru 883 þúsund, 61 þús kom inn vegna sölu jólakorta og styrkir vegna komu grænlensku barnanna námu 1.798 þús. Tekið var fram að þeir voru ríflega 3 milljónir árinu áður, en þá kom t.a.m.  tvöfaldur styrkur frá Sermersooq kommune, vegna tafa og vegna þess var til peningur vegna starfsins.

Útgjöld voru 94.000 vegna fréttabréfa og funda, 689 þús vegna skákferða, 46.000 vegna heimasíðu Kalak, annar kostnaður, td vegna innheimtu félagsgjalda var 49 þús, leiga á pósthólfi 7600 kr. og kostnaður vegna sundkennslu 2.260.000 kr. Vaxtatekjur voru 26.000.

Hagnaður ársins var því neikvæður um 136. þúsund krónur. Umræður urðu um árleg félagsgjöld, en þau voru 2000 kr. og 1500 fyrir eldri borgara sl. ár og hafa verið um nokkurt skeið. Skúli tók fram að framlög vegna tveggja kostnaðarsömustu liðanna og langstærstu verkefnanna, sundrakka og skákar stæðu undir þeim en önnur innkoma færi í að setja upp viðburði. Um tveir af hverjum þremur félagsmönnum hafa greitt árgjald, sem er innheimt í heimabanka. Virðist það haldast þó félagsmenn séu teknir af lista sem ekki hafa greitt í einhver ár. Stungið var upp á að hækka félagsgjöldin í 3000 kr og 2500 fyrir eldri borgara. Önnur uppástunga hljómaði upp á 2500 kr og voru uppi skoðanir á málinu en hækkun í 3000/2500 kr. var samþykkt. Gefur það vonandi kost á að setja upp fyrirlestra sem og myndasýningar í auknum mæli.

Þá var kosið til stjórnar en sitjandi stjórn bauð sig fram og ekkert mótframboð kom. Var hún endurkjörin með lófaklappi en stjórnina skipa: Halldór Björnsson formaður, Skúli Pálsson gjaldkeri, Arnar Valgeirsson ritari, Elísabeth Nielsdóttir og Róbert Lagerman.

Varastjórn var skipuð þeim Hannesi Stefánssyni, Benedikte Thorsteinsson og Stefáni Herbertssyni. Hrafn Jökulsson kemur inn í varastjórn í stað Stefáns sem lítið hefur getað beitt sér undanfarin misseri, en hann er fyrrum formaður félagsins.

Hrafn Jökulsson sýndi myndir frá ferð Hróksins og Kalak til Ittoqqortoormiit og ræddi söfnuna vegna tónlistarhússins í Kulusuk. Sá viðburður tókst með afbrigðum vel og með framlagi ríkisstjórnarinnar upp á 5 milljónir króna hafa safnast töluvert yfir 10 milljónir auk þess sem tugir hljóðfæra af öllum stærðum og gerðum hafa safnast en Tónastöðin heldur utan um þau. Ráðamenn í Hörpu gáfu afnot af Eldborgarsal, en það er aðeins í annað sinn sem ekki þarf að greiða fyrir tónleikahald þar. Þá mun Flugfélag Íslands leggja fram eina flugvél, hlaðna tónlistarbúnaði og Grænlandsvinum, nú í maimánuði, til að afhenda íslenska framlagið með viðhöfn. Hrafn var á því að Íslendingar væru að átta sig á því að samstarf við okkar næstu granna væri mikilvægt og umfjöllun hefur verið töluverð og jákvæð síðustu mánuði. Mætti með átaki fjölga verulega í félaginu sem nú telur tæplega 200 manns.

Almennar umræður voru að lokum og svaraði Róbert Lagerman spurningum varðandi skákstarfið. Var hann á því að þetta væri börnunum mikilvægt auk þess að þau sýndu miklar framfarir ár frá ári. Þá ræddi Valdimar Halldórsson m.a. að á næstunni muni Ísland eignast ræðismann í Nuuk sem væri gríðarlega mikilvægt fyrir samstarf þjóðanna, sem og fyrir Kalak.

Umræður um ýmis skemmtileg mál urðu í lokin, undir liðnum “önnur mál” og hugsanlega verður eitthvað skemmtilegt gert, hvort heldur sem er hér á landi eða á Grænlandi, nema hvort tveggja verði.

Umræður

ummæli

Um KALAK

KALAK -- Vinafélag Íslands og Grænlands   Pósthólf 8164 128 Reykjavík Netfang: kalak@kalak.is   Upplýsingar um starf KALAK: Stefán Herbertsson formaður, sími 898 6311, og Hrafn Jökulsson stjórnarmaður í KALAK, sími 763 1797   Viltu styðja starf KALAK? Bankareikningur: 0322-26-2082 Kennitala: 430394-2239
x

Við mælum með

Páskarnir við Scoresbysund

Um páskana verður haldin mikil skákhátíð í Ittoqqortoormiit, sem er eitt afskektasta þorp Grænlands. Að ...