Aðalfundur Kalak verður haldin í Volcano House,
Tryggvagötu 11, Reykjavík, þriðjudaginn 23. apríl
kl. 20:00.
Segja má að síðasta ár hafi verið viðburðaríkt hjá Kalak. Í ágústmánuði tók Kalak þátt í vestnorrænu hátíðinni „Nýjar Slóðir“ með Norræna Húsinu og skipulagði komu grænlenskra listamanna sem sýndu listir sínar við einn nokkurra gáma sem staðsettir voru í Hljómskálagarðinum.
Í september komu sem undanfarin ár börn frá þorpunum á austur-Grænlandi, í þetta skiptið voru þau 29. Börnin syntu í Salalaug tvisvar á dag og þess á milli sóttu þau tíma með jafnöldrum í tveimur skólum. Þetta er langstærsta verkefnið sem að Kalak tekst á við árlega. Börnin fóru í skoðunarferðir, bíó, skautahöllina og Fjölskyldu – og Húsdýragarðinn. Þessi heimsókn ellefu ára barna tókst mjög vel og sem fyrr bjuggu þau í Kópavogi og uppgötvuðu ótrúlega margt nýtt. Mörgum þeirra fannst hápunkturinn vera heimsókn að Bessastöðum, en Ólafur Ragnar Grímsson hefur boðið öllum þeim börnum heim sem hingað hafa komið undanfarin sjö ár.
Hinn 30. janúar hélt Ragnar Hauksson mjög áhugaverðan myndafyrirlestur um óbyggðir austur-Grænlands í Norræna Húsinu. Fyrirlesturinn var mjög vel sóttur og Ragnar stóð sig frábærlega sem fyrr, en hann hefur undanfarin ár haldið fyrirlestra um ferðir sínar á Grænlandi ofl.
Nú í mars tók Kalak ásamt „Vinum Grænlands“ þátt í undirbúningi styrktartónleika í Hörpunni og stóð fyrir söfnun fyrir nýju tónlistarhúsi í Kulusuk í stað þess sem að brann nýlega. Tónleikarnir tókust frábærlega og voru vel sóttir en þar komu fram fjölmargir tónlistarmenn sem allir gáfu vinnu sína. Söfnuðust þar töluverðir fjármunir sem og hljóðfæri . Helstu bakhjarlar tónleikana voru Flugfélag Íslands, Guide to Iceland, Skákakademían og Tónastöðin. Ríkistjórn Íslands ákvað að leggja málinu lið með framlagi upp á fimm milljónir króna. Söfnunarreikningurinn er enn opinn : 0322-26-002082. Kt.4303942239
Skáktrúboðar Hróksins og Kalak, félagarnir Arnar Valgeirsson, Hrafn Jökulsson, Jón Birgir Einarsson og Robert Lagerman, héldu enn sem fyrr nú um páskana til Ittoqqortoormiit og kynntu þar skákgyðjuna. Haldin voru fjöltefli og stórmót og í verðlaun voru páskaegg og ýmsir aðrir glaðingar frá íslenskum fyrirtækjum sem börnin kunnu vel að meta. Sermersooq kommune styrkti ferðina fjárhagslega. Þetta eru sjöundu páskarnir í röð sem að þeir félagar standa að þessu frábæra framtaki, en Hrókurinn hóf ferðir sínar til Grænlands 2003.
Hrafn Jökulsson mun sýna nokkrar myndir og ræða um þessa ferð í lok aðalfundarins.
Kalak er nú komið á facebook. Sendið vinabeiðni á
http://www.facebook.com/kaktusnovember