Þvert yfir Grænlandsjökul 1912-1913
Þjóðminjasafnið í Reykjavík
Veggur, 10. nóvember- 13. janúar 2013
Á sýningunni Þvert yfir Grænlandsjökul 1912-1913 gefur að líta myndir sem teknar voru í leiðangri sem farinn var yfir þveran Grænlandsjökul á árunum 1912-1913.
Leiðangursmenn voru fjórir;
J.P. Koch landmælingamaður og leiðangursstjóri, Dr. Wegener þýskur veðurfræðingur sem setti fram landrekskenninguna, Lars Larsen háseti og Vigfús Sigurðsson póstur og trésmiður. Sextán hestar voru með í för auk hundsins Glóa.
Tilgangurinn með leiðangrinum var að kanna stórt íslaust landsvæði inni á Grænlandsjökli, kortleggja þetta land og rannsaka lífríki þess, auk þess sem framkvæma skyldi margvíslegar
jökla-og veðurfræðilegar mælingar á hájökli Grænlands. Margar vísindalegar niðurstöður leiðangursins eru í fullu gildi enn í dag og viðurkennt er að með honum hafi verið lagður grunnur að jöklarannsóknum á norðurslóðum.
Koch og Wegener báru ábyrgð á vísindastörfunum. Erfiðisvinnan hvíldi fremur á Larsen og Vigfúsi. Verklagni Vigfúsar reyndist ómetanleg þegar gera þurfti við, betrumbæta eða smíða ný tól í stað þeirra sem voru týnd eða ónýt.
Vigfús Grænlandsfari fékk tæplega 100 ljósmyndir á glerplötum að ferð lokinni. Veturinn 1914 ferðaðist hann vítt og breitt um Ísland, oftast fótgangandi, hélt fyrirlestra og sýndi skuggamyndir úr Grænlandsferðinni.
Myndirnar á sýningunni eru úr safni hans.
http://www.thjodminjasafn.is/syningar/sersyningar/syningar-i-gangi/