Hrókurinn í samstarfi við Kalak sendir tvo röska félaga til skákkennslu í Scoresbysundi.
Fáir bæir eru jafn einangraðir og hann. Á 66° breiddar er eini ferðamöguleikinn að taka þyrlu til einmannalegasta alþjóða flugvallar heims í Constable pynt og flugvél þaðan. 800 km eru í næsta bæ sem er Kulusuk og miklu styttra til Ísafjarðar!
Vestmannaeyingurinn Sverrir Unnarsson frá TV og Hróksmaðurinn Arnar Valgeirsson frá Skákfélagi Vinjar völdust sem sendiboðar að þessu sinni. Verða þeir í viku í þessum magnaða bæ, með sína 500 íbúa og ótrúlegan fjölda hunda, yfir páskana. Skólinn verður bara opinn á daginn og börnin koma þangað, enda fara þau ekki langt í páskafríinu og taka skákinni fagnandi.
Frá því að Hrafn Jökulsson safnaði her skáktrúboða í ferð til Qaqortoq árið 2003, hefur Hrókurinn staðið fyrir reglulegum ferðum til okkar góðu granna í vestri. Eftir þá fyrstu ferð hefur félagið einbeitt sér að austurströndinni þar sem félagslegar aðstæður eru síðri en annarsstaðar og einangrun meiri.
Skákin hefur slegið í gegn og eiga flest börn og unglingar í þorpunum austanmegin skáksett og hafa notið kennslu undanfarin ár. Á níunda tug þátttakenda hafa verið á Grænlandsmótum í Tasiilaq þegar Hróksmenn hafa verið þar á haustin og yfir 100 börn tóku þátt í jólamóti í grunnskólanum þar um árið.
Lesa »