Ekki missa af þessu
Sendimaðurinn og sigurvegararnir. Hjörvar Steinn, Jacob og Bragi.

Bragi og Hjörvar efstir á Grænlandsmóti Hróksins og Kalak

Heiðursgesturinn Jacob Isbosethsen leikur fyrsta leikinn fyrir Hjörvar Stein. Hrafn svaraði fyrir Sveinbjörn Jónsson.

Stórmeistararnir Bragi Þorfinnsson og Hjörvar Steinn Grétarsson urðu efstir og jafnir á Grænlandsmótinu í skák, á hátíð Hróksins og Kalak, sem haldin var til heiðurs Jacob Isbosethsen, nýskipuðum ræðismanni Grænlands á Íslandi. Jón Torfason lenti í 3. sæti en keppendur voru alls sautján. Samhliða skákmótinu efndi hin unga og bráðefnilega Sjana Rut Jóhannsdóttir til sannkallaðrar tónlistarveislu, og boðið var upp á ljúffengar veitingar.

Hátíðin var haldin í Pakkhúsi Hróksins við Reykjavíkurhöfn, og bauð Hrafn Jökulsson gesti velkomna fyrir hönd Hróksins og Kalak. Hann bauð Jacob hjartanlega velkominn til starfa á Íslandi, og sagði mikil tímamót og fagnaðarefni að okkar næstu nágrannar hefðu opnað sendiskrifstofu í Reykjavík, enda sköpuðust þannig tækifæri til að auka samvinnu og efla vináttu grannþjóðanna enn frekar. Jacob, sem þrátt fyrir ungan aldur hefur mikla reynslu af störfum á erlendum vettvangi í þágu Grænlands, tók næstur til máls og sagði um stórt skref að ræða fyrir Grænlendinga. Hann kvaðst hlakka til þeirra fjölmörgu verkefna sem framundan væru, og þakkaði fyrir starf Hróksins og Kalak, vinafélags Íslands og Grænlands, á liðnum árum.

Elisabeth Nielsen starfaði lengi sem hjúkrunarfræðingur á Grænlandi og Kristjana G. Motzfeldt bjó þar í 25 ár.

Hrafn færði Jacob að gjöf hina glæsilegu bók Guðmundar Páls Ólafssonar, Ströndin í náttúru Íslands, og Jacob lék síðan fyrsta leikinn á Grænlandsmótinu fyrir Hjörvar Stein gegn Sveinbirni Jónssyni. Tefldar voru átta umferðir, og ljóst frá upphafi að stórmeistararnir tveir myndu keppa um sigurinn. Þeir mættust í æsispennandi skák í fjórðu umferð, sem lauk með jafntefli eftir miklar sviptingar og tímahrak. Þeir komu svo hnífjafnir í mark, með 7,5 vinning en gamla kempan Jón Torfason náði þriðja sætinu með 5,5 vinning. Aðrir keppendur voru Guðfinnur Rósinkranz Kjartansson, Sveinbjörn Jónsson, Hjálmar Hrafn Sigurvaldason, Arnljótur Sigurðsson, Kristján Stefánsson, Oddgeir Ágúst Ottesen, Hörður Jónasson, Ingi Tandri Traustason, Jón Steinn Elíasson, Jóhann Valdimarsson, Tómas Ponzi, Jóhann Helgi Hreinsson, Arnar Logi Kjartansson og Niels Jensen. Forlagið og Sagafilm lögðu til vinninga, auk þess sem Niels hreppti stórvirki Ragnars Axelssonar, Jökull, í happdrætti keppenda.

Sjana Rut heillaði hina fjölmörgu gesti og keppendur á hátíðinni tónlist sinni og söng.

Fjölmargir gestir lögðu leið sína á hátíðina, jafnt Grænlandsvinir og Grænlendingar sem búsettir eru á Íslandi. Sjana Rut spilaði og söng, og vann sannarlega hug og hjörtu allra viðstaddra. Þá kom hinn þekkti grænlenski tónlistarmaður Miki Jacobsen fram og flutti seyðandi tóna. Boðið var upp á vöfflur og heitt súkkulaði, og að auki gómsætar kökur frá Bakarameistaranum sem skreyttar voru með grænlenska fánanum og myndum frá Grænlandi.

Margt er á döfinni í Grænlandsstarfi Hróksins og Kalak, og mun fyrsti leiðangur ársins halda til Kulusuk í lok mánaðarins. Þá verður efnt til ýmissa viðburða á næstunni í Pakkhúsi Hróksins, en þar er jafnframt safnað góðum fatnaði og gjöfum fyrir grænlensk börn.

Lokastaðan á Grænlandsmótinu: http://chess-results.com/tnr411398.aspx?lan=1&art=1

Umræður

ummæli

Um KALAK

KALAK -- Vinafélag Íslands og Grænlands   Pósthólf 8164 128 Reykjavík Netfang: kalak@kalak.is   Upplýsingar um starf KALAK: Stefán Herbertsson formaður, sími 898 6311, og Hrafn Jökulsson stjórnarmaður í KALAK, sími 763 1797   Viltu styðja starf KALAK? Bankareikningur: 0322-26-2082 Kennitala: 430394-2239
x

Við mælum með

Vel heppnuð hátíð Hróksins og Kalaks laugardaginn 6. júní

Það var vel heppnaður dagur í pakkhúsinu í dag, laugardaginn 6. júní, þar sem mætti ...