Hrókurinn og Kalak bjóða til fagnaðarfundar í Pakkhúsi Hróksins, við Reykjavíkurhöfn, á laugardag milli klukkan 14 og 16. Boðið verður upp á kaffi og meðlæti, og gestir geta skoðað ljósmyndasýningu Max Furstenberg og Mána Hrafnssonar frá ferðum Hróksliða til Kulusuk og Ittoqqortoormiit fyrr á árinu.
Jafnframt verður hægt að kynna sér starfsemi Kalak, vinafélags Íslands og Grænlands, listamenn troða upp, og að sjálfsögðu verður hægt að grípa í tafl. Næsta stórverkefni Hróksins og Kalak er hin árlega Air Iceland Connect hátíð í Nuuk, höfuðborg Grænlands.
Tilvalið er fyrir kjósendur að koma við í Pakkhúsi Hróksins, sem er staðsett í vöruskemmu Brims við Geirsgötu 11.
Allir eru hjartanlega velkomnir og veitingar eru í boði hússins.