Ekki missa af þessu

Frá aðalfundi Kalak

Aðalfundur Kalak var haldinn í húsi Norræna félagsins að Óðinsgötu 7, að kvöldi 28. apríl sl.

Hannes Stefánsson var settur fundarstjóri og Arnar Valgeirsson ritari. Halldór Björnsson, formaður félagsins, fór yfir helstu mál Kalak þar sem hæst bar stærsta verkefni félagsins, koma “sundkrakkanna”, þ.e. barna á ellefta ári frá öllum litlu þorpum austurstrandarinnar. Þau dvelja í tvær vikur í septembermánuði, stunda samfélagstíma með jafnöldrum í skólum þar og læra að synda tvisvar á dag. Verkefnið hefur verið styrkt af Alþingi undanfarin ár en verður ekki í ár. Mun því samt verða áframhaldið. Mikilvægi þessa fyrir börnin er óumdeilt, börnin kynnast innbyrðis áður en þau halda til náms í Tasiilaq, kynnast ýmsu í fyrsta sinn á ævinni auk þess auðvitað að læra að synda. Með sjálfboðnu starfi og velvilja bæði einstæklinga og fyrirtækja hefur verið hægt að halda kostnaði við komu u.þ.b. 30 barna auk fararstjóra í algjöru lágmarki.

Kalak hefur aðstoðað skákfélagið Hrókinn undanfarin ár varðandi skákkennslu barna á austurströndinni og 2010 fóru tveir “skáktrúboðar” til Ittoqqortoormiit við Scoresbysund. Nú fyrir páskana fóru fjórir sendiboðar á sama stað og var undirbúningur í góðu samstarfi við Kalak.

9. mars var haldið mynda/fyrirlestrakvöld í sal Norræna félagsins þar sem Ragnar Hauksson fjallaði á einkar fræðandi og skemmtilegan hátt um sögu vestur-Grænlands en á sl. ári fór hann yfir sögu austurhlutans. Stefnt er á frekara samstarf með Ragnari varðandi uppákomur.

Skúli Pálsson, gjaldkeri, fór yfir stöðu fjármála og efnahagsreikning. Staðan er viðunandi enda hafa fjármálin verið tekin föstum tökum undanfarin ár eftir hallarekstur. Langstærsta verkefnið er koma barnanna á haustin og verður þeim boðið í haust. Það er ljóst að verði verkefninu haldið áfram þurfa að koma til verulegir styrkir. Ákveðið var að ársgjald yrði það sama og áður, 2000 kr og 1500 fyrir eldri borgara. Um tveir þriðju félagsmanna greiða ársgjaldið og hefur svo verið undanfarin ár.

Miklar og hressandi umræður spruttu upp um stöðu austurhluta Grænlands, sem klárlega er verr settur en vesturhlutinn. Einnig komu fram ýmsar hugmyndir varðandi fjáraflanir og mun stjórn skoða öll þau mál í framhaldinu. Stjórnin var endurkjörin eins og hún lagði sig en hún er svo skipuð: Halldór Björnsson formaður, Skúli Pálsson gjaldkeri, Arnar Valgreirsson ritari, meðstjórnendur þau Stefán Þór Herbertsson og Sörine Kaspersen. Varastjórn skipa: Róbert Lagerman, Benedikte Thorstensen og Hannes Stefánsson.

Skúli Pálsson skýrði frá sunverkefninu í máli og myndum að aflokinni formlegri dagskrá. Arnar Valgeirsson sýndi þá myndir frá nýafstaðinni ferð Hróksfélaga til Ittoqqortoormiit sem var afar vel heppnuð. Með í för, auk Arnars, voru Ingibjörg Edda Birgisdóttir, skákkennari, Tim Vollmer ljósmyndari og Hrund Þórsdóttir blaðamaður. Ferðinni verða gerð skil í Morgunblaðinu um nk. helgi auk þess sem greinar munu birtast í næstu tbl Mannlífs og Nýs lífs.

Umræður

ummæli

Um KALAK

KALAK -- Vinafélag Íslands og Grænlands   Pósthólf 8164 128 Reykjavík Netfang: kalak@kalak.is   Upplýsingar um starf KALAK: Stefán Herbertsson formaður, sími 898 6311, og Hrafn Jökulsson stjórnarmaður í KALAK, sími 763 1797   Viltu styðja starf KALAK? Bankareikningur: 0322-26-2082 Kennitala: 430394-2239
x

Við mælum með

Upplýsingafundur

UPPLÝSINGAFUNDUR UM FLUTNING TIL NOREGS Vegna mikillar aðsóknar á upplýsingafund um flutning til Noregs í ...