Ekki missa af þessu

Framtíð Hróksins og Kalak í óvissu: Halda fagnaðarfund og kveðjuhóf um helgina

Hrókurinn og Kalak efna til áramótafagnaðar og ,,kveðjuveislu” í Pakkhúsinu, Geirsgötu 11 við Reykjavíkurhöfn, laugardaginn 4. janúar klukkan 14 til 16. Efnt verður til skákmóts, sagt frá metári Hróksins og Kalak á Grænlandi 2019 í máli og myndum, og boðið upp á ljúffengar vöfflur og aðrar veitingar. Allir eru hjartanlega velkomnir.
 
Þrátt fyrir að 2019 hafi verið viðburðaríkasta árið í sögu Hróksins á Grænlandi, auk kraftmikils starfs á hinum íslenska heimavelli, eru nú blikur á lofti hjá liðsmönnum Hróksins og Kalak.
 
,,Það skýrist senn hvort Hrókurinn og Kalak þurfa að pakka saman nú í janúar. Mikil synd ef við neyðumst til að loka Pakkhúsinu okkar við Geirsgötu, sem verið hefur vettvangur fyrir ótal fagnaðarfundi og samkomur, fjáröflun og maraþon í þágu barna vítt um heiminn, myndasýningar og tónleika, skákmót og málþing — og þar höfum við líka pakkað ógrynni af fatnaði og öðrum gjöfum til okkar góðu grænlensku vina,” segir Hrafn Jökulsson forseti Hróksins.
 
Hrókurinn og Kalak hafa haft aðsetur að Geirsgötu 11 í hálft sjötta ár. ,,Þarna höfum við verið í góðu boði Guðmundar í Brim, en nú hefur einhver ágætur fjárfestir frá Malasíu keypt bygginguna og áformar að reisa þar mjög stórt hótel. Af því verður þó varla strax, og vonandi fáum við að vera þarna enn um sinn, en það skýrist ekki fyrren nú um helgina,” segir Hrafn.
 
 Margt er framundan hjá Hróknum og Kalak á nýbyrjuðu ári. ,,Við stefnum að því að skákvæða allar byggðir Grænlands á næstu misserum, og kynnum fljótlega mjög metnaðarfullar hugmyndir í þá voru. Sundbörnin frá litlu þorpunum á Austur-Grænlandi koma svo á vegum Kalak og félaga þegar skólar byrja í ágúst, og við munum halda áfram að safna góðum fatnaði, gjöfum og glaðningi fyrir okkar góðu granna,” segir Hrafn. ,,Þessvegna væri hreint afleitt ef við þyrftum að byrja 2020 á hrakhólum.”
 
Nánari upplýsingar: Hrafn  Jökulsson, sími 7631797

Umræður

ummæli

Um KALAK

KALAK -- Vinafélag Íslands og Grænlands   Pósthólf 8164 128 Reykjavík Netfang: kalak@kalak.is   Upplýsingar um starf KALAK: Stefán Herbertsson formaður, sími 898 6311, og Hrafn Jökulsson stjórnarmaður í KALAK, sími 763 1797   Viltu styðja starf KALAK? Bankareikningur: 0322-26-2082 Kennitala: 430394-2239
x

Við mælum með

Vel heppnuð hátíð Hróksins og Kalaks laugardaginn 6. júní

Það var vel heppnaður dagur í pakkhúsinu í dag, laugardaginn 6. júní, þar sem mætti ...