Tíu bestu knattspyrnulið Grænlands í karlaflokki áttust við í úrslitum grænlensku deildarinnar um sl helgi í Sisimiut. Gríðarlegur fótboltaáhugi er um allt land og grænlendingar eiga marga mjög leikna leikmenn auk þess að úthaldið er sér á báti hjá þessum gaurum.
Fjöldi áhorfenda fylgdist með öllum leikjunum og höfðu þeir hátt. Í úrslitum léku, nokkuð óvænt, lið G-44 frá strandbænum Qeqertarsuaq gegn B-67 frá höfuðstaðnum Nuuk. Eftir að leikurinn hafði endað með jafntefli, 1-1, var framlenging og síðan vítaspyrnukeppni þar sem markverðir liðanna fóru á kostum. Johan Frederik Zeeb í marki G-44 varði þó einni spyrnu meira en félagi sinn í marki Nuukliðsins og “litla” liðið sigraði með sjö mörkum gegn 6.
Þess má geta að þjálfari Grænlandsmeistaranna, Goorna Zeeb, átti þrjá syni á vellinum, hetjuna Johan Frederik, Nukannguaq Zeeb sem skoraði úrslitamarkið og í liði andstæðinganna var svo Zagorat Zeeb.
T-41 frá Aasiaat sigruðu K-33 frá Qaqortoq í úrlslitum um bronsið og í fimmta sæti varð SAK frá Sisimiut, sjöttu urðu Kugsaq frá Qasiggiannguit. í sætum sjö til tíu voru: Malamuk frá Uummannaq, Nagtoraliq frá Paamiut, Eqaluk frá Ikerasak og Kaagssagssuk frá Manitssoq.