Ekki missa af þessu

Gleði og vinátta á Polar Pelagic-hátíð Hróksins og KALAK á Grænlandi

Stefán Herbertsson formaður KALAK og margreyndur skáktrúboði lék fyrsta leikinn á Minningarmóti Gerdu Vilholm

Liðsmenn Hróksins og KALAK standa nú fyrir III. Polar Pelagic-skákhátíðinni á Austur-Grænlandi og hefur skákgleðin verið við völd síðan á miðvikudag. Leiðangursmenn dvöldu fyrstu dagana í Kulusuk, næsta nágrannabæ Íslands, og stóðu fyrir kennslu og fjölteflum í grunnskóla bæjarins. Börnin í Kulusuk eru sleip í taflmennskunni, enda hafa Hróksliðar heimsótt þorpið margoft á undanförnum árum.

Leiðangursmenn eru Hrafn Jökulsson forseti Hróksins, Stefán Herbertsson formaður KALAK – vinafélags Íslands og Grænlands, og Kristjana Guðmundsdóttir Motzfeldt, en hún er sá Íslendingur sem best þekkir til Grænlandi.

Eftir vel heppnaða hátíð í Kulusuk lá leiðin til Tasiilaq, sem er höfuðstaður Austur-Grænlands, með um 2000 íbúa. Á laugardag heimsóttu leiðangursmenn m.a. PITU-heimilið sem er rekið fyrir börn sem ekki geta verið hjá fjölskyldum sínum. Hróksmenn þekkja þar vel til, eftir margar heimsóknir á PITU-heimilin í Nuuk og Tasiilaq á síðustu árum. Öll fengu börnin gjafir frá Íslandi. Þá heimsóttu Hróksliðar dvalarheimili aldraðra í Tasiilaq með blóm og konfekt, og áttu síðan mjög gagnlegan fund með formanni nýrrar deildar Rauða krossins í Tasiilaq.

Hápunktur hátíðarinnar var Minningarmót Gerdu Vilholm í Tasiilaq nú á sunnudag. Gerda sem var einn helsti máttarstólpi samfélagsins í Tasiilaq lést í janúar, 73 ára að aldri. Hún opnaði og rak einu bókabúð Austur-Grænlands, sem jafnframt var griðastaður barnanna í bænum sem þangað komu daglega til að tefla og eiga góðar stundir.

Kristjana G. Motzfeldt og Gerda Vilholm. Gerda dó í janúar. Hún var útvörður Hróksins og skáklistarinnar á Austur-Grænlandi

Við setningu mótsins í Tasiilaq flutti Justus Hansen falleg minningarorð um Gerdu. Justus er þingmaður og varaborgarstjóri sveitarfélagsins Sermersooq, sem nær allt frá höfuðborginni Nuuk á vesturströndinni til allra byggða á austurströndinni. Hann lýsti mikilli ánægju með starf Hróksins og KALAK á Grænlandi, og mun beita sér fyrir því að skák verði meðal kennslugreina í skólum á Grænlandi.

Næstu daga munu leiðangursmenn kenna í grunnskólanum í Tasiilaq og heimsækja skóla fyrir ungmenni sem eru að snúa aftur á menntabrautina.

Polar Pelagic-hátíðin á Austur-Grænlandi markar upphaf að 14. árinu sem Hróksmenn og félagar útbreiða skák, vináttu og gleði á Grænlandi.

 

Umræður

ummæli

Um KALAK

KALAK -- Vinafélag Íslands og Grænlands   Pósthólf 8164 128 Reykjavík Netfang: kalak@kalak.is   Upplýsingar um starf KALAK: Stefán Herbertsson formaður, sími 898 6311, og Hrafn Jökulsson stjórnarmaður í KALAK, sími 763 1797   Viltu styðja starf KALAK? Bankareikningur: 0322-26-2082 Kennitala: 430394-2239
x

Við mælum með

Vel heppnuð hátíð Hróksins og Kalaks laugardaginn 6. júní

Það var vel heppnaður dagur í pakkhúsinu í dag, laugardaginn 6. júní, þar sem mætti ...