Helgi Áss Grétarsson stórmeistari sigraði með glæsibrag á nýársmóti Hróksins og Kalak á laugardag. Helgi fékk fullt hús, 9 vinninga, næstur kom Róbert Lagerman með 7,5 og þriðji varð Gauti Páll Jónsson með 6,5. Þá var því fagnað að Hrókurinn og Kalak munu enn um sinn hafa bækistöðvar að Geirsgötu 11 við Reykjavíkurhöfn, en útlit var fyrir að félögin yrðu heimilislaus eftir að húsnæðið skipti um eigendur á síðasta ári.
Í frétt frá Hróknum segir: ,,Það er mikill léttir að búið sé að tryggja að við þurfum ekki að yfirgefa Pakkhúsið nú í janúar eins og allt stefndi í. Hrókurinn og Kalak hafa haft aðsetur við Reykjavíkurhöfn í góðu Brims hf. í næstum sex ár. Þar hafa verið haldnir ótal viðburðir, maraþon í þágu góðra málefna, skákmót og málþing, og þar er miðstöð fatasöfnunar Hróksins í þágu vina okkar á Grænlandi.”
Fyrirtæki í eigu malasíska fjárfestisins Vincent Tan keypti eignina á síðasta ári og eru uppi áfrom um stórt lúxushótel þar sem vöruskemman stendur nú. Sömu aðilar keyptu í fyrra Icelandair Hotels og hyggja á hótelbyggingu í Nuuk á Grænlandi. Í fjölskrúðugu eignasafni Vincent Tan eru líka knattspyrnufélög víða um heim, m.a. breska liðið Cardiff, sem Aron Einar Gunnarsson spilaði lengi með.
,,Við erum vitaskuld afar þakklát fyrir að geta enn um stund haldið uppi lífi við Reykjavíkurhöfn og staðið að viðburðum í þágu góðra málefna. Það er margt framundan á þessu nýja ári, með megináherslu á Grænland, þótt við störfum vitaskuld af krafti áfram á okkar íslenska heimavelli,” segir í frétt Hróksins.
Skákmót verða haldin í Pakkhúsinu fyrsta laugardag hvers mánaðar og mega keppendur eiga von á margvíslegum og óvenjulegum glaðningi. Þannig hlaut Helgi Áss engan venjulegan bikar í verðlaun á laugardaginn, heldur útskorna skál úr rekaviði eftir handverks- og listamanninn Guðjón Kristinsson frá Dröngum. Aðrir keppendur voru þeir Róbert, Gauti Páll, Jon Olav Fivelstad, Arnar Ingi Njarðarson, Gunnar Nikulásson, Hjálmar Sigurvaldason, Sveinbjörn Jónsson, Hörður Jónasson, Soffía Arndís Berndsen, Tómas Ponzi, Jóhann Valdimarsson, Pétur Jóhannesson og Axel Diego.
Tómas Ponzi og Róbert Lagerman.
Stórmeistarinn Helgi Ólafsson leit í heimsókn og gæddi sér á vöfflum.
Kátt í Pakkhúsinu enda framtíðin tryggð, a.m.k. í bili. Margrét Jónasdóttir, Heiðbjört Ingvarsdóttir, Ingibjörg Björnsdóttir og Sunna Reynisdóttir.
Hrafn Jökulsson og Helgi Grétarsson glaðbeittir í upphafi móts.
Gauti Páll hreppti 3. sætið og fékk m.a. dagatal Barnaheilla á Grænlandi í verðlaun.