Ekki missa af þessu

Grænland og Ísland — vinir og samherjar í norðrinu

KALAK, vinafélag Íslands og Grænlands, boðar til opins fundar í Pakkhúsi Hróksins við Reykjavíkurhöfn, laugardaginn 1. apríl klukkan 14. Yfirskrift fundarins er „Grænland og Ísland — vinir og samherjar í norðrinu“ og mun Bogi Ágústsson, formaður Norræna félagsins, stýra umræðum. Setningarávarp flytur Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.

Frummælendur á fundinum eru:

  • Árni Gunnarsson framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands og formaður Grænlensk-íslenska viðskiptaráðsins. Árni fer yfir þær miklu breytingar sem eru að verða á samgöngum á milli landanna. Flugsamgöngur eru sífellt að eflast milli Íslands og Grænlands, og flugvallarframkvæmdir þar skapa marga möguleika. Miklar breytingar eru líka að verða í sjóflutningum með nýrri höfn í Nuuk og samstarfi Royal Arctic Line og Eimskips. Erindi Árna nefnist einfaldlega ,,Stökkbreyting í samgöngum”.
  • Heiðar Guðjónsson hagfræðingur og höfundur bókarinnar Norðurslóðasókn ræðir um efnahagslega framtíð Grænlands. Grænlendingar eru enn mjög háðir fjárframlögum frá Dönum, en land þeirra býr yfir ótal auðlindum. Getur Grænland öðlast efnahagslegt sjálfstæði á næstu árum?
  • Kristín Hjálmtýsdóttir framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi segir frá samvinnu við Kalaallit Røde Korsiat, þ.e. Rauða krossinn á Grænlandi. Stjórn Rauða krossins á Íslandi hefur skýra stefnu um að auka samvinnu við RK á Grænlandi. Hvað geta þjóðirnar lært hvor af annarri
  • Inga Dora Markussen framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins ræðir stöðuna í grænlenskum stjórnmálum og misjafna afstöðu í sjálfstæðismálinu. Er raunhæft að Grænland verði sjálfstætt ríki á næstu árum? Hvað þarf til og hvað vilja Grænlendingar?

Pakkhús Hróksins er í vöruskemmu Brims, Geirsgötu 11, við Miðbakka í Reykjavíkurhöfn. Húsið verður opnað klukkan 13.00 og kjötsúpa, kaffi og ýmsar veitingar hafðar á boðstólum.

Við þetta tækifæri verður opnuð sýning á ljósmyndum Jóns Grétars Magnússonar og Hrafns Jökulssonar frá Grænlandi. Myndirnar, sem sýna töfraheim grænlenskrar náttúru og heimamenn í starfi og leik, eru til sölu og rennur ágóði til Grænlandsstarfs Hróksins.

KALAK, vinafélag Íslands og Grænlands, var stofnað 4. mars 1992 og fögnuðu félagsmenn því aldarfjórðungsafmæli fyrir nokkrum vikum. Helsta verkefni félagsins felst í að bjóða árlega til Íslands 11 ára börnum frá litlu þorpunum á austurströnd Grænlands. Hingað koma þau til að læra sund og kynnast íslensku samfélagi. Þetta er sannkölluð ævintýraferð fyrir börnin. Nú hafa meira en 300 grænlensk börn komið til Íslands á vegum KALAK og samstarfsaðila.

KALAK stendur líka reglulega fyrir myndakvöldum og umræðufundum. Nýlega opnaði félagið nýja heimasíðu þar sem eru fréttir úr starfinu, myndaalbúm og margvíslegur fróðleikur.

Allir eru velkomnir á fundinn á laugardag. Gestir eru hvattir til að nota tækifærið og gerast styrktarfélagi í KALAK, en söfnun nýrra félaga stendur nú yfir. Árgjald í KALAK er 5.000 krónur og er hægt að skipta greiðslunni.

— — —
Nánari upplýsingar veita Stefán Herbertsson formaður KALAK í síma 8986311 og Hrafn Jökulsson stjórnarmaður í KALAK í síma 763 1797.

Umræður

ummæli

Um KALAK

KALAK -- Vinafélag Íslands og Grænlands   Pósthólf 8164 128 Reykjavík Netfang: kalak@kalak.is   Upplýsingar um starf KALAK: Stefán Herbertsson formaður, sími 898 6311, og Hrafn Jökulsson stjórnarmaður í KALAK, sími 763 1797   Viltu styðja starf KALAK? Bankareikningur: 0322-26-2082 Kennitala: 430394-2239
x

Við mælum með

Vel heppnuð hátíð Hróksins og Kalaks laugardaginn 6. júní

Það var vel heppnaður dagur í pakkhúsinu í dag, laugardaginn 6. júní, þar sem mætti ...