VÍSIR, 6. SEPTEMBER 2016:
Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og kona hans Eliza Reid tóku á móti grænlenskum skólabörnum á Bessastöðum í gær. Börnin eru hér í heimsókn en þau búa í afskekktum þorpum á austurströnd Grænlands [og eru á Íslandi til að læra sund og kynnast íslensku samfélagi. Þetta er ellefti hópur 5. bekkinga frá þessum litlu þorpum sem hingað kemur á vegum KALAK og Hróksins, með stuðningi Kópavogsbæjar, Menntmálaráðuneytis, FÍ og fjölmargra einstaklinga, félaga og fyrirtækja.]
Forsetinn greinir frá heimsókn barnanna á Bessastaði á Facebook-síðu forsetaembættisins en undanfarin ár hafa grænlensk börn komið hingað til lands að hausti og verið hér við leik og nám.
Guðni segir að þeir sem standa að þessu framtaki eigi mikinn heiður skilinn, og segir síðan frá því að hann hafi tekið víkingaklappið með krökkunum og kennurum þeirra á Bessastöðum.
„Ég held ég geti fullyrt að það hefur aldrei áður verið gert á Bessastöðum…“ segir forsetinn á Facebook en færsluna má sjá hér að neðan.