Ekki missa af þessu

Guð á grænlensku

Ingibjörg Björnsdóttir skrifar frá Sisimiut

Rétt eins og á Íslandi spilar veðrið afgerandi þátt í lífi og starfi hér á Grænlandi. Ef veður leyfir segjum við, horfum til himins, kíkjum eftir skýjum og þefum af golunni.

Ég átti að fljúga með sjúkling sem þarf að komast í rannsóknir og meðferð á spítala Ingiríðar drottningar í Nuuk í síðustu viku. Við áttum að fljúga seinnipart fimmtudags, og ég heim til Sisimiut daginn eftir. Fluginu var frestað og það flutt fram og tilbaka, seinnipart föstudags var glufa, og flugfélagið hringdi, við fljúgum eftir klukkutíma var sagt og ég dreif í að gera sjúklinginn kláran.

En hann var alls ekkert klár og þvertók fyrir að fara í loftið í vályndu veðri… Hmm sagði ég og hringdi til Nuuk. Þar hitti ég fyrir umsjónarkonu sjúklinga á ferð og flugi sem var fegin því að sjúklingurinn minn neitaði að fljúga “hér er allt fullt, enginn hefur komist heim til sín, og læknirinn sem á að taka á móti er veðurtepptur annars staðar”.

Þið komið bara í næstu viku sagði hún, og sjúklingurinn róaðist allur.

Það slapp til í þetta sinn að fresta rannsóknum og meðferð, en því miður er það ekki alltaf þannig. Á minni sjúkrahúsum þar sem eru bráðveikir sjúklingar og alvarlega slasaðir er ekki alltaf auðvelt að bíða þess að veðrið lægi svo hægt sé að fljúga til og frá. Þar reynir á starfsfólk, aðstandendur og ekki síst þá sem þurfa á hjálp að halda, stundum verður biðin of löng, og ekki annað að gera en að lina þjáningar — það reynir á.

Eftir vindasama viku var laugardagur bjartur og kaldur. Drengirnir tveir á sjötta ári reyndu fyrir sér á gönguskíðum og voru að eigin sögn ,,utrolig seje”. Frá tjörninni sem liggur í miðjum bænum og langt inn í dal og fjöll liggja gönguskíðaspor sem eru mikið notuð af bæjarbúum.

Upp frá tjörninni er lág brekka með toglyftu þar sem hægt er að renna sér á sleða, brettum eða skíðum. Brekkan var spænd laugardag og sunnudag af brettastráknum í miðjunni og plægð af mömmu hans á skíðum. Það eru forréttindi að geta rölt með skíðin sín heiman frá sér að lyftunni.

Laugardagskvöld var efnt til afmælisveislu fyrir nágrannadrenginn sem verður sex ára í vikunni. Pylsur og hamborgarar með tilheyrandi sósum eins og hver gat í sig látið, síðan var haldið að sjá nýjasta afkvæmi Disney um Stjörnustríð, sunnudagsmorgun fór í það að endurleika kvikmyndina á gammósíum og röndóttum sokkum.

Elsti drengurinn er harðákveðinn í að fermast með bekkjarfélögunum í sumar. Hann fór í messu, það var allt í lagi sagði hann að messu lokinni, ,,ég skil samt ekkert svo mikið þegar verið er að tala um guð á grænlensku.”

Mánudagur er fiskidagur. Á Brettinu sem er sölustaður veiðimanna, lágu bústnir og stóreygir karfar í kerum og hnípnar langvíur í hundraðatali. Karfinn varð fyrir valinu á þessu heimili, ,,þurfum við alltaf að borða fisk og grænmeti?” spurði unglingurinn sem var mun hrifnari af matseðli laudagardagsins.

Matarklúbburinn hittist fyrripart vikunnar og hélt áfram að fabúlera um bókakaffið. Við ætlum öll að vera með hugmynd að nafni fyrir næsta klúbb sem er í þessari viku.

Umræður

ummæli

Um Ingibjörg Björnsdóttir

x

Við mælum með

Leiðin til Grænlands

Ingibjörg Björnsdóttir skrifar frá Sisimiut Við komum fyrst til Grænlands í júlí 2009. Ég andaði ...