Ekki missa af þessu

Gujo og Bendó heiðruð: Hafa gegnt lykilhlutverki í samskiptum Íslands og Grænlands í hálfa öld

Það urðu söguleg tímamót í næstum aldar gamalli sögu íslensku fálkaorðunnar nú í september. Þá sæmdi Guðni Th. Jóhannesson forseti þau Guðmund Thorsteinsson og Benedikte Abelsdóttur fálkaorðunni við hátíðlega athöfn í Nuuk, og eru þau fyrstu hjónin sem samtímis fá þetta æðsta heiðursmerki sem íslenska ríkið veitir. Þau voru heiðruð fyrir áratuga óeigingjarnt starf í þágu aukinna samskipta og vináttu Íslands og Grænlands. Og sjálf eru þau holdgervingar þessa vináttusambands þjóðanna í norðri, segir Hrafn Jökulsson í umfjöllun um Gujo og Bendó – hann íslenskur og hún grænlensk.

Benedikte Abelsen fæddist í smáþorpinu Eqliu, eða Urriðastöðum, á Suðurlandi, árið 1950, en Guðmundur Kristinn Þorsteinsson í Hafnarfirði árið 1949. Leiðir þeirra lágu saman í Kaupmannahöfn, við nám og störf, upp úr 1970, og hjörtu þeirra smullu svo sannarlega saman líka: Á þessu ári var fagnað gullbrúðkaupsafmæli!

Þeim hafa fæðst fjögur börn, sem öll eru hin mannvænlegustu, og tala jafnt íslensku sem grænlensku reiprennandi.

Óhætt er að segja að barátta þeirra hafi hafist af fullum krafti þegar þau fluttu til Íslands og stofnuðu fjölskyldu. Heimili þeirra í Breiðholti var miðstöð Grænlendinga sem hér voru á ferð, Benedikte var margoft og umbunarlaust kölluð að sjúkrabeði Grænlendinga, og Guðmundur var vakinn og sofinn yfir þeim Grænlendingum sem voru hjálpar þurfi.

Árið 1977 varð Guðmundur fyrsti formaður Grænlendingafélagsins, sem var undanfari Kalak, vinafélags Íslands og Grænlands, en yfirlýst markmið var að efla og styrkja tengsl landanna. Kalak var svo formlega stofnað nokkrum árum síðar, og varð Benedikte Abelsen þá formaður og það á mjög kraftmiklu skeiði í sögu félagsins. Meðal annars var haldin metnaðarfull listahátíð á Flateyri, haldnar myndasýningar, og unnið með samtökum á borð við Rauða Krossinn og skákfélagið Hrókinn að einstökum samfélagsverkefnum á Grænlandi.

Benedikte var verkefnastjóri fyrsta alþjóðlega skákmótsins í sögu Grænlands sem var haldið árið 2003 og lukkaðist frábærlega – enda ekki slæmt að hafa fv. félagsmálaráðherra til að halda utan um alla þræði!

Reynsla Benedikte kom að góðum notum þegar Ísland opnaði ræðismannsskrifstofu í Nuuk, hún var þar fyrsti starfsmaður Péturs Ásgeirssonar sendiherra, sem hafði ómetanlegan aðgang að gjörþekkingu hennar á grænlensku samfélagi. Hún hefur jafnframt unnið mörg þrekvirki við þýðingar, jafnt af grænlensku sem íslensku.

Guðmundur hefur tengst fleiri samfélagsverkefnum en tölu verður á komið. Hann er nú forstöðumaður KOFOED-SKOLE, sem er fyrir húsnæðislausa einstaklinga og félagslega einangraða í Nuuk. Áður byggði hann upp svipað athvarf fyrir unglinga, einnig í Nuuk. Í öllum þessum störfum hefur Guðmundur nýtt sér, þekkingu og vinskap frá Íslandi.

Þau Benedikte og Guðmundur hafa skipulagt ótal hópferðir grænlenskra barna til Íslands, og öfugt, og eru algjörlega vakin og sofin í þágu verkefna og vináttu Íslands og Grænlands.

Lengi lifi Gujo og Bendó!

Umræður

ummæli

Um KALAK

KALAK -- Vinafélag Íslands og Grænlands   Pósthólf 8164 128 Reykjavík Netfang: kalak@kalak.is   Upplýsingar um starf KALAK: Stefán Herbertsson formaður, sími 898 6311, og Hrafn Jökulsson stjórnarmaður í KALAK, sími 763 1797   Viltu styðja starf KALAK? Bankareikningur: 0322-26-2082 Kennitala: 430394-2239
x

Við mælum með

Vel heppnuð hátíð Hróksins og Kalaks laugardaginn 6. júní

Það var vel heppnaður dagur í pakkhúsinu í dag, laugardaginn 6. júní, þar sem mætti ...