Ingibjörg Björnsdóttir skrifar frá Sisimiut
Fyrir meira en þrjátíu árum þegar ég var barn í blokk í Breiðholtinu bjó ofbeldismaður í íbúðinni á móti okkar. Hann hryllti fjölskyldumeðlimi sína, konu og börn. Beitti þau andlegu og líkamlegu ofbeldi svo stundum mátti heyra óp og grát frá íbúðinni. Aðspurð mundi mamma ekki til þess að nokkur nágrannanna hefði einhverju sinni hringt eftir lögreglunni til þess að hemja manninn og fjarlægja hann.
Þegar ég var barn í Breiðholtinu skröfuðum við vinkonunar ýmislegt, meðal annars um svokallaða tippakalla. Kalla sem höfðu misboðið okkur á einhvern hátt með framferði sínu, kynferðislegri áreitni og dólgshætti, við vorum á bilinu átta til tólf ára.
Þegar ég var barn í Breiðholtinu man ég eftir konum og mönnum segja í lágum hljóðum gjarnan á innsoginu “hann lemur hana”. Aha og kinkað kolli, “einmitt” það skýrði ýmislegt. Ég man ekki til þess að einhver hafi talað um að hafa tilkynnt yfirvöldum um menn sem lömdu konurnar sínar og hræddu börnin sín.
Þegar ég var barn í Breiðholtinu þekkti ég ekkert samkynhneigt fólk, það var nýbúið að aflétta banni við samkynhneigð.
Það var enn bannað að selja bjór og það var bannað að selja blóm á páskadag og það var bannað að kaupa gjaldeyri nema ef til stóð að fara erlendis, það var bannað öllum nema ríkinu að reka útvarp og sjónvarp, það var bannað að selja rjóma eftir klukkan tólf á aðfangadag. Þessum bönnum var fylgt eftir af hörku og lögreglan send í aðgerðir ef einhver vogaði sér að brjóta gegn banninu. Lögreglan var aldrei kölluð til í blokkina þar sem ég bjó til þess að fjarlægja ofbeldismann af heimilinu.
Ofbeldi gegn konum og börnum var ekki rætt nema í hálfum hljóðum og oftar en ekki mátti skilja sem svo að fórnarlömbin gætu sjálfum sér um kennt. Konum sem voru áreittar á götu út áttu ekkert að vera að þvælast þetta. Börn áttu að passa sig á þekktum kynferðisbrotamönnum, “passaðu þig á kallinum” var sagt og ábyrgðin sett á barnið. Rödd fórnarlamba heyrðist sjaldan, þau voru ómarktæk, höfðu látið berja sig og misnota.
Síðan er liðin meira en þrjátíu ár, næstum fjörutíu og margt er orðið miklu betra en var. Við erum orðin betri í að tala um hlutina, láta hátt og segja það sem okkur finnst, grípa inní og skipta okkur af. Það er enn þannig að konur og börn eru fórnarlömb misyndismanna bæði inni á heimilium og utan þeirra, en ég trúi því að samfélagið sé fljótar að grípa inn í dag, og segja hátt að ofbeldi sé ekki í boði.
Á Grænlandi minnir margt á það sem var þegar ég var barn í Breiðholtinu. Því miður er ekki talað hátt um fjölskyldu harmleiki, eins og ofbeldi innan veggja heimilisins er stundum kallað. Í starfi mínu sem hjúkrunarfræðingur hitti ég reglulega konur sem hafa verið lamdar og sem hefur verið nauðgað, af mönnum sínum, vinum, kunningjum eða ókunnugum. Það eru aldrei fluttar fréttir af ofbeldismálum.
Þögnin er áþreifanleg þegar kemur að ofbeldi gegn konum og börnum. Þegar ég var barn heyrði ég útundan mér hræðilegar örlagasögur forðfeðra minna og vina minna. Börn sem dóu í hrönnum, ungar konur sem voru hraktar af heimilum, búnar að láta barna sig og áttu ekki afturkvæmt fyrr en búið væri að koma krakkanum fyrir hjá vandalausum. Hamfarir, og ofbeldi, blóði drifin Íslandssaga sögð í hálfum hljóðum yfir kaffibolla í Breiðholti.
Hér á Grænlandi upplifi ég þessa sögu, ég hitti konur sem hafa gefið frá sér börn og börn sem hafa verið fjarlægð af heimilum og komið í fóstur, ég hugga samstarfskonu sem missti dóttur sína viku fyrir jól, hún var sextán ára og hengdi sig. Ég fylgist með leit að litlum mótorbát sem á sigldi ungur maður í ofsaveðri, hann var að rífast við kærustuna sína, hún gerði tilraun til þess að hengja sig þegar útséð var um að hann fyndist. Ég les um þrjár konur sem misstu lífið á Austurströnd Grænlands í fyrstu viku þessa árs, tvær fyrir eigin hendi, sú þriðja var myrt.
Ég eins og grænlenska þjóðin fylgdist með leitinni að Birnu og fann fyrir angistinni alla leið hingað vestan jökuls. Ég fann fyrir samhugnum hjá þjóðinni sem ég fæ að dvelja með og sorginni sem fyllti þau yfir því að landsmenn þeirra séu í varðhaldi grunaðir um voðaverk. Ég held að hörmulegur dauðdagi Birnu Brjánsdóttur muni breyta því hvernig grænlensk þjóð tekur á ofbeldi gegn konum og börnum.
Ég vona að öll sú umræða sem verið hefur um málið og sú samkennd sem fólk hér hefur fundið með aðstandendum Birnu á Íslandi festi rætur hér í landi og geri grænlensku þjóðinni kleyft að ræða ofbeldismál opinskátt, að segja af þeim fréttir og láta vita að ofbeldi er ekki í boði aldrei. Orð eru til margs vís, Grænlendingar hafa ekki verið orðmargir um þær hörmungar sem hafa dunið á þeim, en nú sjá þeir hjá nágrönnum sínum í austri að orð geta læknað og orð geta breytt. Ég vona að hörmulegur dauðdagi ungrar konu á Íslandi geti haft það í för með sér að grænlensk þjóð taki á þöggun um ofbeldi og misnotkun og leyfi sér að tala opinskátt um hlutina og vinna þannig á þjóðarmeinum.
Hjartans kveðjur heim.