Ekki missa af þessu
678541

Hljóðfærin komin til Kulusuk! Stórkostlegar móttökur Grænlendinga

678541Það var í senn hátíðleg og gleðileg stund í Kulusuk þegar sendinefnd frá Íslandi kom með hljóðfæri og tækjabúnað, í stað þess sem glataðist í bruna litla tónlistarhússins í bænum í fárviðri 9. mars síðastliðinn. Flugfélag Íslands lagði sérstaka vél til ferðarinnar, og auk gjafanna frá Íslandi voru margir gestir á ferð sem lagt höfðu söfnuninni lið eða tengdust Grænlandi með einhverjum hætti. Heiðursgestur í ferðinni var Kristjana Guðmundsdóttir Motzfeldt, ekkja Jonathans Motzfeldts, fyrsta forsætisráðherra Grænlands og mikils Íslandsvinar.

Við hátíðlega móttöku á Hótel Kulusuk sagði Hjörtur Smárason, sem hugmyndina átti að söfnun hljóðfæra og fjármuna eftir brunann í Kulusuk, að Íslendingar vildu sýna í verki hve heppnir við værum með nágranna:

,,Það er einlæg von mín að þetta verkefni muni ekki bara snúast um byggingu á einu litlu húsi, heldur komi það til með að dýpka skilninginn og styrkja tengslin á milli nágrannanna á Íslandi og Grænlandi; að það muni auka áhuga og forvitni á Íslandi um okkar frábæru granna og hina einstöku menningu þeirra; að það ali af sér enn fleiri verkefni, meiri tónlist og fleiri gesti til Kulusuk og Grænlands.”
 
Justus Hansen bæjarstjórnarmaður flutti ávarp fyrir hönd Asii Chemnitz Narup, borgarstjóra í Nuuk og flutti dýpstu þakkir fyrir framtak Íslendinga. Orðrétt sagði í ávarpi borgarstjórans:
 
,,Það hefur verið ótrúlegt að upplifa hversu mikil áhrif bruninn í Kulusuk hafði á íslensku þjóðina. Ég vil koma á framfæri hjartans þökkum til þeirra þúsunda barna og fullorðinna, sem hafa lagt til bæði tíma og krafta, eða lagt til hljóðfæri handa börnum og íbúum Kulusuk.”
 
Borgarstjórinn bað fyrir sérstakar þakkir til forseta Íslands, sem er verndari söfnunarinnar fyrir uppbyggingu tónlistarhúss í Kulusuk, sem og ríkisstjórnar Íslands sem studdi söfnunina með fjárframlagi. Um Kalak, vinafélag Íslands og Grænlands, sem stóð að baki söfnuninni, sagði borgarstjórinn:
 
,,Þið hafið virkilega sýnt vinskap í verki og því munum við aldrei gleyma.”
 
Borgarstjórinn bað jafnframt fyrir þakkir til Flugfélags Íslands, en bæði fyrirtæki og starfsfólk hafa stutt söfnunina í þágu Kulusuk með ráðum og dáð. Þá væri sérstök ástæða til að þakka Hörpu, sem opnaði dyr sínar upp á gátt með glæsilegum styrktartónleikum í þágu söfnunarinnar fyrir Kulusuk.
 
Við athöfnina í Kulusuk kom fram blandaður kór, auk þess sem trommudansarinn Anda, sem nýtur hvað mestrar virðingar í sinni stétt á Grænlandi, flutti magnaðan gjörning. Hápunktur dagskrárinnar var svo þegar tónskáldið, einleikarinn og hljómsveitarstjórinn Arnannguaq Gerström flutti tónverk, sem hún hafði sérstaklega samið í tilefni dagsins og ber einfaldlega heitið ,,Kulusuk”.
 
Við hátíðardagskrána voru Íslendingum færðar gjafir og þakklætisvottur Grænlendinga. Lars-Peter Sterling fráfarandi skólastjóri í Kulusuk stjórnaði athöfninni, en hann er mörgum Íslendingum að góðu kunnur.
 
Meðan dagskráin fór fram var efnt til barnahátíðar í skólanum í Kulusuk. Þar tefldi Róbert Lagerman við tugi ungmenna, sem öll fengu sérmerkta boli að gjöf frá Henson og Kalak. Síðast en ekki síst fengu börnin nýtt skákkver á grænlensku sem Siguringi Sigurjónsson stendur fyrir, og er fyrsta skákbókin sem nokkru sinni hefur komið út á grænlensku.
 
Alls hafa um 10 milljónir króna safnast í þágu tónlistaruppbyggingar í Kulusuk. Söfnunarfé rennur óskert í þágu málstaðarins, og nefna má að auk þess sem Flugfélag Íslands lagði flugvél undir leiðangurinn, gaf áhöfnin vinnu sína og Skeljungur bensín.
 
Búið er að finna tónlistinni bráðabirgðahúsnæði í Kulusuk, uns nýtt hús rís. Tónlistin mun því aftur óma um Kulusuk, en tónlistarhúsið var miðpunktur mannlífs í bænum og sannkallað hjarta Kulusuk. Fyrir liggur að nýtt hús mun rísa, og í síðustu viku áttu fulltrúar Kalak, þeir Hrafn Jökulsson og Róbert Lagerman, fundi með forsætisráðherra Grænlands, forseta þingsins og borgarstjóranum í Nuuk, þar sem þessi mál voru m.a. til umræðu.
 
Formaður Kalak, Halldór Björnsson, hefur heitið fullum stuðningi félagsins uns nýtt hús er risið. Þá hefur komið fram áhugi margra fyrirtækja og einstaklinga til að taka þátt í endurreisninni og verður söfnunarreikningurinn áfram opinn fyrir framlög. 

 

Umræður

ummæli

Um KALAK

KALAK -- Vinafélag Íslands og Grænlands   Pósthólf 8164 128 Reykjavík Netfang: kalak@kalak.is   Upplýsingar um starf KALAK: Stefán Herbertsson formaður, sími 898 6311, og Hrafn Jökulsson stjórnarmaður í KALAK, sími 763 1797   Viltu styðja starf KALAK? Bankareikningur: 0322-26-2082 Kennitala: 430394-2239
x

Við mælum með

Páskarnir við Scoresbysund

Um páskana verður haldin mikil skákhátíð í Ittoqqortoormiit, sem er eitt afskektasta þorp Grænlands. Að ...