Ekki missa af þessu

Hringnum lokað: Öll sveitarfélög á Íslandi sýna vináttu í verki!

Öll sveitarfélög á Íslandi, 74 talsins, taka þátt í landssöfnuninni Vinátta í verki, sem Hjálparstarf kirkjunnar, Hrókurinn og Kalak efndu til vegna hamfaranna á Grænlandi í júní. Þúsundir einstaklinga og fjöldi félaga og fyrirtækja hafa líka lagt söfnuninni lið. Nú hafa safnast næstum 43 milljónir króna, án nokkurs tilkostnaðar. Söfnuninni lýkur nú í vikunni, og eru aðstandendur í skýjunum yfir viðbrögðum Íslendinga.

Fjórir fórust og gríðarlegt eignatjón varð þegar flóðbylgja gekk yfir þorpið Nuugaatsiaq í Uummannaq-firði á Vestur-Grænlandi, aðfararnótt 18. júní. Íbúar Illorsuit sluppu naumlega við flóðbylgjuna, en íbúar þorpanna tveggja fá ekki að snúa heim í a.mk. eitt ár, vegna hættu á frekari hamförum. Alls eru því um 200 manns, þar af um 70 börn, sem eru flóttafólk í Uummaannaq og Asiaat, sem eru stórir bæir á vesturströndinni.

Mikið starf hefur verið unnið á Grænlandi við að búa flóttafólkinu sem bestar aðstæður, en verkefnið er stórt og flókið fyrir litla þjóð í stóru landi.

Hrafn Jökulsson, aðalskipuleggjandi Vináttu í verki, segir viðbrögð Íslendinga sýna þá djúpu vináttu sem er milli þjóðanna: ,,Viðbrögð almennings slógu strax öll fyrri met í neyðarsöfnunum Hjálparstarfs kirkjunnar. Þúsundir og aftur þúsundir hafa hringt í styrktarsímann eða lagt inn á söfnunarreikninginn. Fyrirtækin okkar hafa líka, sum hver, sýnt rausn og myndarskap.”

Hæstu framlög fyrirtækja til söfnunarinnar komu frá útgerðarfyrirtækinu Brim og Eimskip, 2 milljónir. Þá lögðu Air Iceland Connect og Landsvirkjun 1 milljón til, og 500 þúsund hafa borist frá Húsasmiðjunni, Arion banka og Landsbankanum.

Ýmis félög og samtök hafa sömuleiðis komið með myndarleg framlög: Hallgrímssókn lagði fram 1 milljón, Björgunarsveitin Sæbjörg á Flateyri safnaði rúmlega 500 þúsund, og styrktarsjóður KIWANIS og Alþýðusamband Íslands lögðu fram sömu upphæð. Leikskólar á Akureyri og Reykjavík efndu til safnana og hinir 86 íbúar Grímseyjar reiddu fram 200.000 kr.

Síðustu vikur hefur svo verið leitað til allra sveitarfélaga á Íslandi um að mynda kærleikskeðju, hringinn um landið. ,,Þannig vildum við bæði sýna grönnum okkar stuðning og kærleika á erfiðum tímum, en líka endurgjalda Grænlendingum sem efndu til landssöfnunar þegar snjóflóðið mikla féll á Flateyri 1995.”

Hæstu einstöku framlögin frá sveitarfélögum eru frá Reykjavík, 4 millj., Kópavogi 2 millj. og Akureyri og Hafnarfirði 1 milljón. ,,Tölurnar eru vissulega ánægjulegar, en mér finnst ennþá gleðilegra að hvert einasta sveitarfélag hafi lagt í þetta vináttunnar púkk, allt eftir efnum og aðstæðum.”

Söfnunarreikningur og styrktarsími verða opin næstu vikuna, en Hrafn segir að endahnúturinn verði uppboð nú í vikunni þar sem tveir sannkallaðir dýrgripir verða á boðstólum.

Umræður

ummæli

Um KALAK

KALAK -- Vinafélag Íslands og Grænlands   Pósthólf 8164 128 Reykjavík Netfang: kalak@kalak.is   Upplýsingar um starf KALAK: Stefán Herbertsson formaður, sími 898 6311, og Hrafn Jökulsson stjórnarmaður í KALAK, sími 763 1797   Viltu styðja starf KALAK? Bankareikningur: 0322-26-2082 Kennitala: 430394-2239
x

Við mælum með

Vel heppnuð hátíð Hróksins og Kalaks laugardaginn 6. júní

Það var vel heppnaður dagur í pakkhúsinu í dag, laugardaginn 6. júní, þar sem mætti ...