Ekki missa af þessu

,,Hryllilegt hvernig fólkið er rifið upp með rótum”

Hinn 13. október var 1977 var Grænlandsvinafélagið stofnað með pompi og prakt í Norræna húsinu og var fyrsti formaður kjörinn Guðmundur Þorsteinsson, eða Gujo einsog hann er kallaður jafnt á Íslandi sem Grænlandi. Grænlandsvinafélagið var fyrirrennari KALAK og gegndi mikilvægu hlutverki við að byggja upp samskipti Íslands og Grænlands. Þar eiga Guðmundur og kona hans, Benedikte — sem jafnan er kölluð Bendo — afar stóran þátt og varð hún síðar formaður KALAK um árabil og var árið 2011 kjörin heiðursfélagi í KALAK.

Viðtalið við Guðmund og Bendó, sem hér fer á eftir, birtist í Dagblaðinu 18. október 1977. Viðtalið tók Katrín Pálsdóttir og ljósmyndari var Hörður Vilhjálmsson.

,,Þegar ég kom fyrst til Íslands, fannst mér fólk horfa mikið a mig, það sneri sér jafnvel við á götu, ef ég var í anóraknum mínum. Sumir spurðu hvaðan ég væri og þegar ég nefndi Grænland, þá virtist fólk hissa og það var eins og það myndi allt í einu eftir því að Grænland væri til.”

Það er Bendo Þorsteinsson sem segir okkur fra því hvernig það var að koma til Íslands. Hún er eini Grænlendingurinn sem er búsettur hér, og hefur verið það sl. fimm ár. En hvers vegna kom hún til Íslands?

„Ég kynntist manninum mínum Guðmundi Þorsteinssyni í Kaupmannahöfn árið 1970. Þá var ég i menntaskóla þar og hann var þar í atvinnuleit,” sagði Bendo. „Svo þróuðust málin þannig að ég settist að hér og kann mjög vel við mig.”

Bendo, eða Benedikta eins og hún heitir fullu nafni, og maður hennar Guðmundur búa í Strandaseli 6 og þangað heimsóttum við þau eitt kvöldið og röbbuðum um Grænland, land og þjóð.

Eskimóar, snjóhús og ísjakar

„Mér finnst það daiftið skrítið, hvað Íslendingar vita lítið um Grænland, eins og það er í dag. Ef minnzt er á landið, þá hugsa allir, já þar búa Eskimóar í snjóhúsum og þar eru miklir fsjakar úti fyrir ströndinni,” sagði Bendo. Þetta er liðin tíð og nú sjást ekki snjóhús og Eskimóar hafa látið af hirðingjabúskap sínum og tekið sér fasta bústaði fyrir löngu.

„Það eru ekki nema um fjórir til fimm mannsaldrar síðan Evrópubúar komu til Grænlands, ef við segjum að einn mannsaldur sé um 60 ár. Það eru heldur ekki nema tveir til þrír mannsaldrar síðan allir Grænlendingar bjuggu í veiðimannaþjóðfélagi og þá ríkti fullt jafnvægi í sambúð manns og nattúrunnar.

En síðan Evrópubúar, einkum Danir, komu til landsins, hófst mikil sorgarsaga. Stefnan hjá þeim, eins og öllum löndum gagnvart nýlendum sínum, er að hirða sem mestan gróða á sem stytztum tima. Það er mokað upp úr hráefnalindum t.d. fiskimiðum okkar, samfélagið er brotið upp og verzlunareinokun komið á.

Íbúarnir verða svo smátt og smátt háðir drottnurum sínum, þeir hafa gleymt að bjarga sér, eins og aður fyrr. Þeir eru svo ofurseldir fatækt og sjúkdómum.”

Eilífur og óaðskiljanlegur hluti Danmerkur

Bendo hefur mjög ákveðnar skoðanir um það hvað sé farsælasta lausnin fyrir Grænlendinga. „Auðvitað eigum við að fá heimastjórn, en þá eigum við líka að fá fullan yfirráðarétt yfir auðlindum okkar, t.d. yfir olíunni úti fyrir ströndum landsins.

Ef við fáum það ekki, þá er tómt mál að tala um eitthvert sjálfstæði landsins. Þá heldur það bara afram að verða háð Dönum, það er ekkert land sjálfstætt sem ekki ræður yfir auðlindum sínum.

Grænland er mjög auðugt land, þar er olfa, og við skulum ekki gleyma því að þar eru mjög gjöful fiskimið. Úraníum hefur einnig fundizt þar, en ekki er farið að vinna það að ráði. Einnig eru þar ýmsir málmar í jörðu. Ég ætla að segja þér hvernig yfirráðum yfir Grænlandi er háttað núna,” segir Bendo og er greinilega ekki ánægð með málin eins og þau eru.

„Yfirráð Dana eru alger, jafnt pólitísk sem efnahagsleg. Grænlendingar eiga fulltrúa f bæjarstjórnum og Grænlandsráðinu, en í þessum stjórnum og ráðum eru ekki teknar neinar mikil vægar ákvarðanir. Þegar atkvæðagreiðslan var um inngöngu í Efnahagsbandalagið, sýndu Grænlendingar það svart á hvítu að þeir vilja ekki láta náttúruauðlindir sínar undir ókunna herra. Um 80% Grænlendinga greiddu atkvæði á móti inngöngu, en eins og kunnugt er samþykktu Danir aðild að bandalaginu.

Það sem mér finnst leiðinlegast,” sagði Bendo og varð hálf hnuggin a svip, „er að allir halda að Grænlendingar gangi bara um fullir daginn út og daginn inn. Þeir hafi engar skoðanir á málunum. Þetta er rangt, en auðvitað eigum við í vandræðum vegna áfengisneyzlu, alveg eins og þið hér á Íslandi.”

Bendo sagðist ekki skilja það sjónarmið, sem sífellt væri hamrað á í blöðum í Danmörku, en þar eru langar greinar um það hversu mikið Danir töpuðu á því að hafa Grænland undir sinni stjórn. „Þeir virðast nú ekki vera á því að losa sig við landið, vegna þess að þegar ljóst var hve miklum náttúruauðlindum landið bjó yfir, þá samþykktu þeir á þingi, að Grænland skyldi vera eilífur og óaðskiljanlegur hluti af Danmörku. En við eigum eftir að sjá hve lengi það stendur,” sagði Bendo.

„Fólkið rifið upp með rótum”

Guðmundur hefur lagt sig mjög eftir að kynnast öllum háttum og siðum Grænlendinga sem bezt. Hann hefur auðvitað margoft farið og heimsótt tengdaforeldra sína til Grænlands. Þau hjónin bjuggu þar um tima og þá vann Guðmundur t.d, verkamannavinnu og ók leigubil. Það eru ekki fagrar lýsingarnar sem hann gefur okkur af því lífi sem Danir, herraþjóðin, lifa í Grænlandi.

„Þeir ganga þarna um og eiga bókstaflega allt, sem þeir koma nálægt. Þegar ég vann þarna, þá fékk ég sömu meðferð og Grænlendingar, t.d. var mér borgað helmingi lægra kaup en þeim Dönum sem ég vann við hliðina á. Það var farið með mig á sama hátt og Grænlendingana, þeir fá einnig helmingi lægra kaup en Danir, þó þeir vinni sömu störf.

Það var ömurlegt að sætta sig við þetta hlutskipti og þarna var ég í sömu sporum og Grænlendingar standa í daglega frammi fyrir Dönum. Þótt sífellt sé verið að benda á það í blöðum, sem auðvitað eru gefin út í Danmörku, að Grænlendingar drekki eins og svín, þá vil ég minna fólk á, að í landinu eru 12 þúsund Danir, en Grænlendingar eru um 40 þúsund.

Það eru Danirnir, sem hafa peningana, þeir hafa ráð á því að vera útúrdrukknir alla daga. Þegar verið er að tala um að Grænlendingar innbyrði svo og svo mikið áfengismagn, þá má alls ekki gleyma þessum tólf þúsund sem tilheyra herraþjóðinni. Mér finnst það hryllilegt,” segir Guðmundur, „hvernig heilu byggðirnar eru lagðar í eyði, eða réttara sagt hvernig fólkið er rifið upp með rótum.

Það er stefna Dana að ef einhverjir bæir eða byggðakjarnar eru óhagkvæmir, að þeirra mati, þá eru þeir einfaldlega lagðir niður. Fyrst er verzlunin flutt á brott og svo skólinn og læknisþjónustan. Þá atvinnutækin, ef þau eru einhver. Það gefur auga leið að fólkinu er ekki gefinn neinn kostur annar en að flytjast á brott einnig.

Það er búið að leggja niður um 80 bæi og byggðakjarna frá stríðslokum. Fólkið var neytt til að flytja í stærri byggðakjarna, smalað þar saman í einhverjar blokkir. Við skulum bara staðfæra þetta á t.d. einhvern bæ hér a landi. Það þætti ekki mönnum bjóðandi, ef yfirvöld hættu að halda uppi samgöngum við staðinn og allri þjónustu. Hvað ætli Vestmannaeyingar segðu, ef farið færi svona með þá? Þeir hefðu verið neyddir til að búa hér áfram uppi á landi eftir gosið. Stjórnvöld hefðu bara lýst því yfir að þar væri ekki búandi og allir þyrftu að flytja upp í Breiðholt, þar sem búið væri að byggja yfir þá fimm stórar blokkir.

Svona afgreiða Danir byggðakjarna víðs vegar um ströndina á Grænlandi. Það getur verið sárt fyrir fólk sem hefur alið allan aldur sinn þar, að flytja í algjörlega ókunnugt umhverfi.”

Guðmundur sagði að sér hefði liðið illa að sjá þessar dökku hliðar á mannlífinu á Grænlandi. Afleiðingar þess að fjölskyldur væri þvingaðar svona burtu væru þær að los kæmist á þær, börnin hættu ef til vill í skólanum, þar sem lítið aðhald er fyrir hendi hjá foreldrum sem eru í framandi umhverfi. Afleiðingar flutninganna væru oft atvinnuleysi, fólkið lifir á einhverjum styrkjum, og því miður fara þeir að miklu leyti í áfengiskaup hjá þeim sem verst eru staddir, það er eina leiðin til að flýja burt frá þessu öllu saman.

Fylliraftar og skækjur voru vinsælt söguefni hjá Dönum um Íslendinga

„Við skulum bara segja að nú hafa Danir skipt á Grænlendingum og Íslendingum í sögur sínar um fyllirafta og skækjur. Áður fyrr voru sagðar sögur af því í Danmörku, að á Íslandi væru stúlkur jómfrúr, þar til þær áttu sjöunda barnið í lausaleik. Þar í landi var líka hlegið heil ósköp að kotbændum íslenzkum sem færu í kaupstaðaferðir, lúsugir og ógeðslegir og kaupstaðarferðin endaði með þvf að þeir lágu í drullunni á götum Reykjavíkur, „dauðir” af áfengisneyzlu.

Það er því ekkert nýtt að Danir segi ógeðslegar sögur af nýlendum sínum. Nú er það grænlenzka stúlkan sem er skækjan og grænlenzki bóndinn sem fer í kaupstaðarferðina. Þetta vitum við að er bull, grænlenzka þjóðin stendur á heilbrigðum merg og þó ýmis vandamál séu þar til staðar, þá er það eins og alltaf lítill hluti þjóðarinnar sem á við þau að stríða.”

„Svo talar kennarinn dönsku og við skiljum ekki neitt”

Bendo var í menntaskóla í Danmörku þegar hún kynntist Guðmundi. Við vildum því fræðast nánar um menntun, svona almennt, á Grænlandi. Við báðum hana því að segja okkur frá því, þegar hún fór fyrst í skólann heima hjá sér á Grænlandi.

„Ég átti heima rétt fyrir utan Julianehaab [Qaqortoq]. Pabbi minn er bóndi þar. Við erum 14 systkinin. Þegar við hófum skólagöngu, kunnum við auðvitað enga dönsku. En kennarinn tók a móti okkur með því að hefja upp raust sína á danskri tungu.

Við skildum auðvitað ekki orð af því sem hann sagði. Það þarf varla að taka það fram að allar bækur eru á dönsku og prófin líka. Ég tel að þetta dragi úr námsárangri nemenda, þeir detta út úr skóla, hætta þar við fyrsta tækifæri.”

Guðmundur kemur með smáinnskot: „Hvernig ætli okkur fyndist það, ef allt væri kennt hér á landi á ensku? Ég er hræddur um að foreldrar væru heldur óhressir með það, ef kennarinn í skólanum tæki á móti þeim
með heilmikilli ræðu á ensku, svo mundi hann útbýta enskum bókum, sem nemendur ættu að læra… Ætli okkur fyndist það ekki óþolandi.”

„Öll menntun er miðuð við að aðeins sé hægt að ljúka skólaskyldunni á Grænlandi, til þess að afla sér meiri menntunar, sem er talin sjálfsögð mannréttindi hér a Íslandi, verður að fara til Danmerkur,” sagði Bendo. Hún lagði leið sína til Kaupmannahafnar og var þar í menntaskóla. Þegar hún svo sótti um styrk til áframhaldandi nams, fékk hún synjun á þeirri forsendu, að pabbi hennar væri of ríkur, hann hefði of miklar tekjur.

„Mér fannst þetta ferlega skrýtið og fór með henni til að athuga hvort þetta væri nú ekki einhver misskilningur,” sagði Guðmundur. „Ég trúði þessu bara ekki. En þetta var staðreynd, hún fékk engan styrk til frekara náms, svo það var úti um það. Það er allt of dýrt fyrir foreldra, sem eiga 14 börn, að senda þau í skóla í Danmörku, svo þá tók Bendo þá ákvörðun að vinna í ár og safna sér fyrir skólavist, en hún fór aldrei í skólann, heldur til Íslands með mér,” sagði Guðmundur.

Danski forsætisráðherrann flúði

„Ég skal segja þér, að nú sem stendur eru aðeins 20 Grænlendingar í æðra nami, þ.e. í mennta- eða háskóla. Íbúar landsins eru um 40 þúsund og eins og þú sérð þá eru þetta afar fáir sem halda afram. Enda er ástandið þannig að það er alger skortur á menntuðum Grænlendingum.

Þú trúir því kannski ekki, en það er enginn grænlenzkur læknir til! Öll störf, sem krefjast menntunar, t.d. tæknistörf og stjórnunarstörf eru einokuð af Dönum. Það eru þeir sem hafa þekkinguna. Vegna þessa hafa Grænlendingar misst trúna a sjálfa sig. Þeir halda það að þeir geti ekki gert hlutina. Þeir halda að þeir geti ekki lært, en sem betur fer er þetta mikið að breytast og yngra fólkið hefur annan hugsanagang en t.d. fólk a aldur við foreldra mína.

Það fólk hefur sætt sig við að Danir ráði öllu og traðki á Grænlendingum. En unga fólkið hugsar ekki svona. Það getum við bezt séð á þeim móttökum sem Anker Jörgensen forsætisráðherra Dana fékk þegar hann kom til Grænlands í sumar. Hann er nú ekki vinsælli en það að hann var grýttur af stórum hópi fólks og þurfti að flýja í skip sitt. Það var ekki eldra fólkið sem gerði þetta, það var yngra fólkið.”

Það er svo margt hægt að segja frá Grænlandi, en einhvers staðar verðum við að slá botninn í. Litlu dætur þeirra Guðmundar og Bendo voru líka löngu sofnaðar, en þær heita Inga Dora, 5 ára, og Súsan Ýr, 4 ára. Blaðamaður þakkaði því fyrir góðar veitingar og lagði af stað út í myrkrið og rigninguna.

Umræður

ummæli

Um Hrafn Jökulsson

x

Við mælum með

Staðreyndir um Grænland

Íbúar Grænlands eru upprunalega frá Mið-Asíu. Landið tilheyrir heimsálfunni Norður-Ameríku, en frá hreinum landfræðipólitískum sjónarhóli ...