Laugardaginn 17. mars milli 14 og 16 er opið hús hjá Skákfélaginu Hróknum, Geirsgötu 11 við Reykjavíkurhöfn. Sýndar verða ljósmyndir, teikningar og listaverk frá síðustu ferð Hróksins til Kulusuk, fyrr í mánuðinum.
Hátíðin í Kulusuk var hluti af Polar Pelagic-hátíð Hróksins 2018. Sýndar verða myndir eftir Max Furstenberg, teikningar Ingu Maríu Brynjarsdóttur og afrakstur listsmiðju barnanna í Kulusuk. Hrafn Jökulsson forseti Hróksins, sem kenndi skák í ferðinni, segir frá þessum ævintýralega og skemmtilega leiðangri.
Þá mun Kristjana Guðmundsdóttir Motzfeldt sýna valda muni frá Grænlandi. Kristjana var eiginkona Jonathans Motzfeldt, fyrsta forsætisráðherra Grænlands, og sá Íslendingur sem best þekkir til meðal vorra næstu nágranna.
Bakarameistarinn og hin harðsnúna veitingadeild Hróksins munu bjóða upp á kræsingar. Allir eru hjartanlega velkomnir.
Næsti leiðangur Hróksins til Grænlands verður nú um páskana. Þá liggur leiðin til afskekktasta þorps Grænlands, Ittoqqortmitt í Scoresby-sundi, en þar hafa Hróksliðar haldið árlega hátíð í 12 ár. Skáklandnám Hróksins á Grænlandi hófst 2003 og því er nú fagnað fimmtán ára starfsafmæli meðal okkar góðu granna.
Teikning: Inga María.
Myndir: Max Furstenberg / Hrókurinn
—
Frekari upplýsingar glaðlega veittar.
Hrafn J. 763 1797