Hinn 4. mars 2017 verða 25 ár frá stofnun KALAK — Vinafélags Íslands og Grænlands og á afmælisárinu verður fjölbreytt dagskrá á vegum félagsins. Stærsta verkefni KALAK árlega verður áfram að bjóða 11 ára börnum frá Austur-Grænlandi til Íslands að læra sund og kynnast íslensku samfélagi.
Í tilefni af afmælinu hefur heimasíða KALAK nú verið endurnýjuð. Hér á síðunni er að finna margvíslegan fróðleik um okkar góðu granna á Grænlandi, og síðan verður uppfærð reglulega.
Markmið KALAK er að vinna að auknum samskiptum Íslands og Grænlands, einkum á sviði félags- og menningarmála. Félagið hefur gegnum tíðina haldið fjölmörg mynda- og fræðslukvöld, staðið fyrir Grænlenskum dögum og stutt við samfélagsleg verkefni á Grænlandi, sérstaklega í þágu ungs fólks.
Stærsta verkefni KALAK árlega er heimsókn 11 ára barna frá litlu þorpunum á austurströnd Grænlands. Hingað koma þau ásamt fylgdarliði kennara og dvelja á Íslandi í rúmlega 2 vikur. Börnin sækja skóla í Kópavogi, þar sem þau kynnast jafnöldrum, fara í sundtíma tvisvar á dag og gera ótal margt skemmtilegt meðan á dvölinni stendur. Meira um Sundkrakkaverkefnið hér.
KALAK hefur líka frá upphafi, árið 2003, tekið virkan þátt í skáklandnámi og verkefnum Hróksins á Grænlandi, og eiga félögin góða og nána samvinnu.
Allir geta orðið félagar í KALAK, tekið þátt í starfi félagsins og stutt einstök verkefni. Árgjöld í KALAK eru 5000 krónur, sem hægt er að skipta í tvær greiðslur.
Þá er einnig hægt að gerast LIÐSMAÐUR KALAK með því að greiða 1000 krónur, eða aðra upphæð að eigin vali, mánaðarlega.
KALAK heitir því að vinna af þrótti í þágu aukinna samskipta Íslands og Grænlands, með hagsmuni ungu kynslóðarinnar í fyrirrúmi, og gleði og vináttu að leiðarljósi.
Smellið hér til að taka þátt og styðja við starf KALAK, vinafélags Íslands og Grænlands.