Í dag fóru liðsmenn Hróksins og Kalak til Kulusuk og færðu öllum börnunum í þorpinu jólagjafir frá konunum í prjónahópi Gerðubergs. Í Kulusuk eru nú 40 börn í grunnskóla og liðlega 10 í leikskólanum, en íbúar eru alls um 250.
Hrafn Jökulsson forseti Hróksins og Stefán Herbertsson formaður Kalak, vinafélags Íslands og Grænlands fóru þessa skemmtilegu ferð. Með í för var sjálfur Gáttaþefur, sem gaf sér tíma frá miklum önnum á Íslandi til að heilsa upp á börnin í Kulusuk, sem er næsti nágrannabær við Ísland. Tugir barna biðu í ofvæni í litlu flugstöðinni þar sem slegið var upp jólagjafaveislu.
Gáttaþefur og aðrir leiðangursmenn flugu með áætlunarvél Flugfélags Íslands til Kulusuk og er FÍ aðalbakhjarl verkefnisins. Slegið var upp jólapakkahátíð í flugstöðinni, en þangað voru langflest börnin í þorpinu mætt til að heilsa upp á Gáttaþef.
Öll fengu börnin sérmerkta gjöf frá konunum í prjónahópi Gerðubergs, jólasveinahúfu frá Flugfélagi Íslands og gotterí frá Nóa Síríus. Sem fyrr tóku starfsmenn Flugfélags Íslands virkan þátt í veislunni og Sigrún Heiða
Hilmarsdóttir flugfreyja hjálpaði Gáttaþefi að sjá til þess að allir fengju nú réttan pakka. Tryggvi Jónsson flugstjóri og Magnús Ingi Magnússon flugmaður tóku líka þátt í hátíðarhöldunum. Tryggvi byrjaði að fljúga til Grænlands árið 2003, sama ár og Hrókurinn kom fyrst í heimsókn.
Einstaklega bjart og fagurt var í Kulusuk þegar Gáttaþef bar að garði. Grænlensku börnin voru í sólskinsskapi, sum höfðu komið með fjölskyldum sínum, ýmist á hundasleða eða vélsleða, en langflest höfðu keifað snjóinn í sól og stillu til að hitta Gáttaþef og veita viðtöku jólagjöf frá dýrðarkonunum í Gerðubergi og jólakveðjum frá vinum á Íslandi.