Helgi Guðmundsson, leiðsögumaður, var á ferð í Kulusuk sl. sumar og snaraði sinni fínu myndavél á loft milli þess sem hann fór með ferðamenn um svæðið. Reyndar yfir til Tasiilaq einnig.
Það vantar ekki fegurðina þegar Kulusuk er í sínu fínasta skarti og hún Anna Kuitse Thastum sem kennt hefur börnum austurstrandarinnar trommudans í áratugavís lætur ekki deigan síga. Áður fyrr rak hún kjúklingabú í henni Ameríku en sneri heim og giftist flugvallarstjóranum, honum Arvid Thastum.
Anna hefur dansað fyrir farþega Flugfélags Íslands um árabil og hlaut grænlensku menningarverðlaunin árið 2009. Anna er víðfræg og svo er einnig bróðir hennar, Anda Kuitse, sem lagði trommudansinn líka fyrir sig og þykir frábær “performer”. Hann hefur leikið og dansað trommudans m.a. fyrir áhorfendur í Reykjavík sem og annarri stórborg -Tókýó!
Helgi rakst einnig á þessa pilta sem voru að verka nýveiddan sel. Þeir sem eru með hunda mega nú ekki slá slöku við í veiðinni enda þurfa þeir sitt, sem og mannfólkið sem yfirleitt er komið með heimþrá eftir viku í útlöndum. Einmitt, saknar þess að fá ekki selskjöt. En þeir mega alveg eiga það Grænlendingar að það fer ekki gramm til spillis þegar bráðin er annarsvegar.