Ekki missa af þessu
Uummannaq. Þaðan fer enginn án þess að skilja eftir hluta af hjarta sínu.

Kveðjupistill frá Grænlandi

Ingibjörg Björnsdóttir skrifar frá Sisimiut

 

Þann 21. júní á sumarsólstöðum, þegar sólin skín viðstöðulaust norðan heimsskautsbaugs mun sorgmædd en um leið þakklát og stolt grænlensk þjóð fagna þjóðhátiðardegi.

Síðasta kvöldinu mínu í Sisimiut að þessu sinni varði ég á Hotel Sisimiut með uppáhaldskonum. Við töluðum og flissuðum, grétum svolítið og tókum bakföll af hlátri. Sögðum sögur, rifjuðum upp fjallaferðir, veiðiferðir, ferðir eftir steinum, dansiböl og barnaafmæli, rifjuðum upp það sem við eigum saman eftir áralanga vináttu. Á meðan á vinafundi stóð leitaði Inaluk vinkona mín frétta á netinu. Upp úr miðnætti heyrðum við fyrst af flóðbylgjuaðvörun í Uummannaq, sem er stærsti bærinn í Uummannaq firði. Fjörðurinn er geysistór djúpur og breiður, á eyjunni Uummannaq er stærsta byggðarlagið í firðinum, 1500 manna bær, sunnan, austan og norðan við bæinn eru þorp sem hýsa frá tæplega hundrað manns til ríflega tvö hundruð.

Uummannaq. Þaðan fer enginn án þess að skilja eftir hluta af hjarta sínu.

Uummannaq fjörðurinn og bærinn bera nafnið sitt eftir hjartalagafjalli sem trónir yfir bænum- það segist að þeir sem koma til Uummannaq skilji hluta hjarta síns þar eftir, það veit ég að á við um fleiri staði á Grænlandi.

Við leituðum ekki fleiri frétta þetta kvöld, þurftum svo mikið að spjalla og hlægja. Snemma morguns vöknuðum við fjölskyldan hjá Nivi vinkonu okkar, fjölskyldufaðrinn fór við annan mann út á flugvöll og tékkaði okkur inn í flug, við Nivi komum drengjum á fætur og svo hittumst við öll í morgunverð hjá kærum vini. Þá fóru að berast nánari fregnir af atburðum næturinnar, flóðbylgjuaðvörun, í öllum firðinum og sannanleg flóðbylgja sem hafði hrifið nyrsta byggðarlagið í firðinum með sér á haf út.

Margir vina okkar komu á flugvöllinn og vinkaðu okkur af stað á sunnudaginn, það gerir maður á Grænlandi. Í hópinn vantaði Nuka, hann hafði verið vakinn í býtið og gert að sigla með norðureftir. Hann vinnur fyrir KNI sem heldur úti verslunum í öllum þorpum Grænlands, og þar á bæ vildu menn komast á staðinn til að huga að starfsfólki, bygginugum og vörulager.

Aðstæður til björgunar á Grænlandi eru ekki alltaf eins og best verður á kosið. Vegir engir og því aðeins fært með skipi eða flugi. Uummannaq er um það bil 900 kílómetra fyrir norðan Nuuk, og Nuugaatisaq um það bil 100 kílómetra fyrir norðan Uummannaq. Í firðinum er einn flugvöllur og þaðan er flogið á litlum þyrlum í bæinn og þorpin átta sem dreifa sér um víðan fjörðinn.

Í þorpum eins og Nuugaatsiaq er alla jafna ein hjúkrunarstöð, og einn starfsmaður á vakt. Oftast er um að ræða konu úr þorpinu sem hefur komið í starfsnám á næsta stærsta sjúkrahús, aðallega eru kennd viðbrögð við óhöppum eins og beinbrotum og liðsköðum og bráðahjálp við alvarleg sjúkdómseinkenni. Konan stendur ein í hamförum eins og þeim sem geysuðu að kvöldi 17.júní og þarf að halda utan um bráðahjúkrun og hugsanlega endurlífgun og mannsbjörg.

Fyrir tilviljun voru tvær þyrlur staddar í Uummannaq þann 17.júní, og því var fyrr en annars hægt að fljúgja norður til Nuugaatsiaq með björgunarfólk, lögreglumenn og einn hjúkrunarfræðing. Alla nóttina var flogið með íbúa þorpsins í öruggt skjól, og flogið með björgunarfólk til þorpsins. Aðfararnótt sunnudags voru skip danska flotans kominn inn í fjörðinn og gátu tekið við íbúum Illorsuit sem er næsta þorp sunnan Nuugaatsiaq. Neyðarkallið barst vitanlega um Grænland allt og hjúkrunarfólk og læknar brugðust við kallinu um leið, þeim var flogið frá Nuuk, Sisimiut, Illulisat og Aasiaat til Qaarsut 200 manna þorp syðist í firðinum þar sem flugvöllurinn fyrir Uummannaq fjörðinn er staðsettur. Þar var komið á fót hjálparstöð og hlúð að slösuðum áður en þeim var flogið áfram 900 kílómetra til sjúkrahús Ingiríðar drottningar í Nuuk.

Íbúar Nuugaatsiaq hafa flestir lifibrauð sitt af lúðuveiði. Afkoman er háð því að eiga bát til að sigla á yfir sumartímann og vélsleða og eða hundahóp til að komast út fjörðinn til veiða yfir vetrartímann. Hundar, sleðar og bátar hurfu í hafið, ellefu hús af hundrað eru farin, rafmagnsveitan er ónýt og símamastrið, og það sem allra verst svíður í hundrað manna byggð eru nágrannarnir og vinirnir fjórir sem hurfu í flóðbylgjuna og eiga ekki afturkvæmt.
Enn er alltof snemmt að segja til um framtíð byggðarinnar, en það þarf mikið til þess að ungt fjölskyldufólk setjist aftur að í þorpi sem hefur orðið fyrir viðlíka hamförum.

Þrátt fyrir hrikalegt og nánast óbyggilegt land þá verða sem betur fer ekki oft náttúruhamfarir á Grænlandi. En þegar landið sagði til sín og skeytti hvorki um hunda né börn þá svaraði þjóðin fyrir sig með undraverðum hætti. Öll björgun gekk ævintýri líkast og varla var liðin hálfur sólarhringur þegar búið var að pakka í gáma fötum og öðrum nauðsynjum fyrir þau sem misstu heimili sín. Grænlendingar eru einnig snortnir yfir þeirri hlýju sem streymir frá Færeyjum og Íslandi.

Enn er þó mikið starf óunnið og mörg sár ógróinn, og tíminn mun leiða í ljós framtíð byggðar í Uummannaq firði, Hjartafirðinum.

Hluti hjarta míns varð eftir á Grænlandi, sárinu blæðir enn, en ég veit af fenginni reynslu úr lífi og starfi að blæðingin mun stöðvast. Svo skrepp ég þangað einn daginn þegar viðrar til ferðalaga og útlegðar og fylli á ný upp í hjartasárið. Þangað til óskas ég þess að sem flestir láti það eftir sér að heimsækja Kalaallit nunaat, Mannsins land og finni fyrir eilífðinni og óendanleikanum í náttúrunni og mannfólkinu sem byggir landið. 21.júní á sumarsólstöðum er þjóðhátíðardagur Grænlands, þá verður flaggað í hálfa stöng um landið allt til þess að minnast horfinna landsmanna, en lífið heldur áfram og þjóðin sem hefur byggt þetta mikla land síðastliðin fimmþúsund ár mun nú eins og áður aðlaga sig aðstæðum, flytja sig um set eða vera um kyrrt- og njóta alls þess sem landið gefur og syrgja þá sem það tekur.

Góðar stundir.

——–
Tökum öll höndum saman og sýnum Grænlendingum vináttu í verki! Hjálparstarf kirkjunnar, í samvinnu við Kalak, Hrókinn og Grænlandsvini, stendur að landssöfnun vegna hamfaranna á Grænlandi. Sendum okkar góðu nágrönnum sterk skilaboð um að þeir hafi ævarandi stuðning og vináttu Íslendinga.

  • Reikningsnúmer Hjálparstarfs kirkjunnar: 0334-26-056200, kennitala 450670-0499
  • Þá er hægt að hringja í 907-2003 og leggja þannig til 2.500 krónur.

Umræður

ummæli

Um Ingibjörg Björnsdóttir

x

Við mælum með

alt

Barnalíf á Grænlandi

Ingibjörg Björnsdóttir skrifar frá Sisimiut Barnalíf á Grænlandi er um margt frábrugðið barnalífi á Íslandi. ...