Ingibjörg Björnsdóttir skrifar frá Sisimiut
Hvað er í matinn? Spyrja synir mínir daglega. Þeir eru ekki alltaf ánægðir með svarið. Þeir verða verulega óánægðir þegar ég segist stolt ætla að gera gera grænmetispottrétt, eða fisk í ofni. Það finnst þeim ekki vera matur, grænmeti og ofnbakaður fiskur er ekki spennandi. Svo segja þeir mér að ég verði að drífa í að læra að gera mat eins og Grænlendingar gera. Þegar ég spyr þá hvað ég þurfi að læra stendur ekki á svörum. Þú þarft að læra að gera sela suaasat og hvala suaasat, bollur í karrý, pítsur með kjöti, og kjötbollur með brúnni sósu.
Sela suaasat og hvala suaasat er fyrir þá sem ekki vita, soðinn selur eða hvalkjöt, gjarnan hrefna, með dassi af lauk, hrísgrjónum og kartöflum.
Selkjöt og hvalkjöt fæst á Brettinu sem er búð veiðimannanna, rekin af sveitarfélaginu. Þar er nánast daglega hægt að fá spriklandi frískan sel, framreiddan í hnullungs bitum, og ef vill má fá sér hreifa eða heilt höfuð með augum og veiðihárum í kringum nefið. Ég hef aldrei látið verða af því að kaupa sel.
Í leikskólanum er oft boðið upp á selasúpu, og yngsti drengurinn tilkynnir stoltur að hann hafi fengið sér fimm sinnum á diskinn, það leynir sér ekki daginn eftir þegar hann þarf á klósettið.
Fyrir utan sel og hval er hægt að fá ýmsa fugla á Brettinu, æðarfugl, langvíu, rjúpu og rítu, og líka magra héra og fisk nýdreginn úr sjónum, stóra og væna þorska, karfa, steinbít, risa urriða á sumrin og risa risa laxa snemma hausts. Á haustin og seinnihluta vetrar má veiða hreindýr og sauðnaut, og skankarnir standa upp úr fiskikössunum langir og sperrtir fullir af merg sem þykir lostæti.
Í vetur var skotinn ísbjörn fyrir utan bæinn. Hann var kominn á Brettið þremur dögum seinna, undarlega ljóst kjöt á stórum hvítum beinum.
Við eigum alltaf rækjur í frystinum, stórar rækjur í skel sem einhverjum hefur áskotnast og gefið okkur áfram. Á spítalanum eru stundum matargilli. Þá er boðið uppá rækjur harðfisk, hvalspik og selsspik. Ofast er þetta borið fram með soja og wasabi, sem er dásemd, ég hef ekki enn vanið mig á hvalspik með Aromat kryddi sem er öruggur hittari hjá þjóðinni sem ég gisti, eða að vefja selspikinu inn í harðfiskinn eins og líka er gert, vinnufélögunum finnst ég jafn skrýtin þegar ég smyr harðfiskinn með smjöri. Á Suður Grænlandi borða þeir harðfisk með eplum segja Sisimiutbúar mér, og bjóða uppá smakk, þeir hafa lært það af þeim fyrir sunnan, það er fín blanda, sætan og sýran í eplinu blönduð við seltuna úr fiskinum.
Mataræðið er dönskuskotið, bollur í karrý er danskur þjóðarréttur, soðnar svínakjötsbollur í karrýsósu með hrísgrjónum, nema ég hef sósuna alltaf of þunna og býð uppá brún hrísgrjón, svoleiðis gera Grænlendingar ekki segja synir mínir með ásökunarhreim í röddinni. Á föstudögum fáum við pítsu, með skinku og kryddpylsu og kartöflum, skreytt með ólífum, lauk, papriku og því sem til er. Mamma segja þeir, afhverju gerirðu ekki pítsu með þykkum botni, kjöti og pulsum og maískornum eins og við fengum einu sinni. Ha,humm?, segi ég þá.
Stundum er okkur boðið í Sushi veislur, þá er gaman. Vel fylltar maki rúllur með avókadó, rækjum og krabbakjöti eða nigri bitar með snæhvítri lúðu og appelsínurauðum laxi, soja og wasabi með. Drengirnir vilja heldur mexíkóskar pönnukökur eða sænskar kjötbollur sem hægt er að fá frosnar!
Um helgina er okkur boðið í fertugsafmæli hjá vinkonu okkar ásamt áttatíuogfimm öðrum. Boðið verður uppá hreindýrasteik með rjómabökuðum kartöflum, mattaksalat, sem er hvalsspik salat í karrýmæjónseu með rækjum og papriku, fiskisúpu með rækjum, þorski og hörpuskel í rauðu karrý og kókosmjólk, rúsínubollur og allar heimsins rjómatertur. Allir fá sér smá af öllu, vatn, kaffi og te með og enginn fer svangur heim.