Guðmundur Magnússon skrifar mjög athyglisverða fréttaskýringu í Morgunblaðið 20. mars, sem byggð er á nýlegri grein í Smithsonian Magazine um afdrif norrænna manna á Grænlandi. Við fengum góðfúslegt leyfi Guðmundar til að birta greinina hér.
Örlög norrænna manna á Grænlandi til forna eru til umfjöllunar í grein eftir Tim Folger í nýjasta hefti Smithsonian Magazine. Þar kemur fram að viðhorf fræðimanna í þessu efni hafi tekið róttækum breytingum á undanförnum árum. Hin viðtekna skoðun er að þegar norrænir menn komu til Grænlands, um 1000 að talið er, hafi loftslag verið mun hlýrra en síðar varð og hafi það ráðið því að auðvelt var að setjast þar að og stunda hefðbundinn sauðfjárbúskap eins og í Noregi og Íslandi. Síðar hafi kólnað í veðri og hinir fornu Grænlendingar hafi ekki getað aðlagast breytingunum. Það hafi smám saman leitt til endaloka byggðarinnar. Þetta er t.d. stefið í frægri metsölubók Jared Diamond, Collapse, sem út kom fyrir rúmum áratug. En bandaríski fornleifafræðingurinn Thomas McGovern, sem fengist hefur við rannsóknir á miðaldabyggðinni í Grænlandi í fjóra áratugi, segir að fornleifarannsóknir síðustu ára sýni að þetta standist ekki. Við rannsóknir á mannvistarleifum á þeim stöðum á vesturströnd Grænlands sem norrænir menn bjuggu, Eystribyggð og Vestribyggð, hafi uppgötvast að íbúarnir hafi snemma lagað fæði sitt að breyttum háttum. Þeir hafi veitt fisk sér til matar og borðað kjöt af sjávarspendýrum.
Verðmætur varningur
Þá segir McGovern, sem er prófessor við Hunter College í New York, að skoðanir séu einnig að breytast á ástæðum þess að norrænir menn námu land á Grænlandi og bjuggu þar. Í stað hinnar hefðbundnu skoðunar að þeir hafi verið að leita að nýjum svæðum til kvikfjárræktar telja fræðimenn nú að þeir hafi verið á höttunum eftir rostungstönnum, sem þá voru afar dýr og eftirsótt verslunarvara í Evrópu. Sala á slíkum vörum er nú talin hafa skapað mörgum hinna fornu Grænlendinga mikinn auð og gæti það skýrt að þar voru reistar veglegar steinkirkjur, svo sem dómkirkjan að Görðum og Hvalseyjarkirkja. Engar steinkirkjur voru reistar á Íslandi á miðöldum. Þá er kunnugt að kristnir menn á Grænlandi greiddu skatta til Páfagarðs í rostungstönnum, selskinnum og húðum. Þessi verslun hrundi þegar ódýrara fílabein frá Afríku kom á markaðinn. Á sama tíma urðu loftslagsbreytingar á norðurslóðum sem gerðu byggðinni í Grænlandi og öllum samgöngum Grænlendinga við umheiminn erfiðara fyrir. Einnig kann mannskæð drepsótt um miðja 14. öld, Svarti dauði, að hafa tekið sinn toll á Grænlandi og veikt byggðina þar, en hún var alla tíð fámenn og mátti ekki við mikilli röskun.
Mörgum spurningum ósvarað
Hin nýju viðhorf fræðimanna svara ekki öllum spurningum um örlög norrænna manna á Grænlandi. Þau skýra hvers vegna þeim tókst að halda samfélaginu við lýði jafn lengi og raun ber vitni. Og þau skýra hvert aðdráttarafl landsins var. En hitt er enn ráðgáta hvernig síðustu Grænlendingarnir af evrópskum uppruna lifðu og hurfu. Ímynda má sér að stór hópur veiðimanna hafi farist í veðurham eins og tók að tíðkast og það hafi lamað byggðirnar. En svo gætu síðustu Grænlendingarnir hafa flutt á brott í áföngum, einn af öðrum, til Íslands og Noregs, án þess að þess sé sérstaklega getið í rituðum frásögnum. Ekki er víst að nokkru sinni fáist svör við þessari ráðgátu
Grein Tim Folger í Smithsonian Magazine: http://www.smithsonianmag.com/history/why-greenland-vikings-vanished-180962119/