Ekki missa af þessu

Nýjustu tölur frá Grænlandi

Hrafn Jökulsson gluggaði í bæklinginn Greenland in Figures 2019 sem grænlenska hagstofan gefur út. Hér eru nokkrir molar, sumir pínulítið kryddaðir af HJ.

Grænland varð dönsk nýlenda 1721 þegar klerkurinn Hans Egede kom til landsins á vegum Danakonungs að leita norrænna manna, sem ekkert hafði spurst til í þrjár aldir. Ætlun Egedes var að hressa uppá kristindóminn hjá norrænum Grænlendingum, sem höfðu verið skildir eftir í sinni papísku villu á öndverðri 15. öld. Norski eldklerkurinn fann ekki tangur eða tetur af norrænum mönnum, og tók því til við að kristna inúíta í staðinn. Hann gekk af hörku fram í því að uppræta menningu, trú og hefðir innfæddra.

Grænland var gert að amti innan Danmerkur árið 1953 en öðlaðist heimastjórn 1979 og sjálfstjórn 2007. Jonathan Motzfeldt var fyrsti forsætisráðherra Grænlands og réttnefndur landsfaðir.

Grænland varð hluti af Efnahagsbandalagi Evrópu ásamt Danmörku árið 1973, en sagði sig úr sambandinu 1983 í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu.

Grænland er stærsta eyja í heimi, 2.166.086 ferkílómetrar, og tólfta stærsta land jarðarinnar. 81 prósent landsins er þakið ís. Grænland er meira en tuttugu sinnum stærra en Ísland.

Íbúar eru nú innan við 56 þúsund og fer fækkandi. Því er spáð að árið 2040 verði íbúar 53.000.

Höfuðborg Grænlands er Nuuk. Þar eru íbúar nú um 18.000. Stefnt er að því að íbúatalan nái 30.000 árið 2030.

Um 60 prósent landsmanna búa í fimm stærstu bæjunum: Nuuk, Sisimiut, Ilulissat, Aasiaat og Qaqortoq. Alls eru nú þrettán bæir á Grænlandi með fleiri en þúsund íbúa.

Sautján þorp á Grænlandi hafa íbúatölu frá 200 til 1000.

Fimmtán þorp á Grænlandi hafa íbúatölu frá 100 til 200.

Tuttugu og átta þorp á Grænlandi hafa færri en 100 íbúa.

Á grænlenska þinginu, Inatsisartut, er 31 þingmaður. Kosningar fara fram á fjögurra ára fresti. Sjö flokkar eiga nú fulltrúa á þinginu. Í kosningum 24. apríl 2018 hlaut Siumut 27,2 prósent og 9 þingmenn. Kim Kielsen leiðtogi Siumut hefur verið forsætisráðherra síðan 2014.

Um það bil 850 börn fæðast árlega á Grænlandi.

Meðaldur er miklu lægri en á öðrum Norðurlöndum. Meðalaldur karla er 68,8 ár og kvenna 73 ár.

Krabbamein er algengasta dánarorsökin. Árið 2014 dóu 442, þar af 109 úr krabbameini.

Sjálfsvíg voru þriðja algengasta dánarorsökin þetta ár. 45 sviptu sig lífi. Sjálfsmorðstíðni á Grænlandi hefur verið allt að tíu sinnum hærri en á öðrum Norðurlöndum síðan á sjöunda áratug síðustu aldar. Áður var hún svipuð eða lægri en í Danmörku.

Reykingar hafa minnkað um 50 prósent á síðustu 25 árum.

Neysla áfengis hefur minnkað um 50 prósent á síðustu 30 árum og telst nú svipuð og á öðrum Norðurlöndum.

Tíu ára skólaskylda er á Grænlandi og börn byrja menntagönguna 6 ára. Börn úr litlu þorpunum þurfa að flytja til stærri bæjar þegar kemur að 8.-10. bekk.

Eftir að skólaskyldu lýkur hætta langflest börnin námi. Aðeins eitt af hverjum sjö heldur rakleitt áfram á menntaskólastig.

Kalaallit Nunaata Radioa, KNR, er hið grænlenska RÚV, heldur úti sjónvarpi, útvarpi og vefsíðu. Tvö fréttablöð eru gefin út vikulega, Atuagagdiliutit og Sermitsiaq.

Atvinnuleysi árið 2018 taldist tæplega 7 prósent.

Sjávarútvegur er mikilvægasta atvinnugrein Grænlendinga. Árið 2018 veiddust rúmlega 10 þúsund tonn af grálúðu, 44 þúsund tonn af rækju, 18 þúsund tonn af þorski, 23 þúsund tonn af kolmunna og 62 þúsund tonn af makríl. Aðeins veiddust rúmlega 11 þúsund tonn af loðnu, samanborið við 42 þúsund árið 2015.

Rúmlega tvö þúsund atvinnuveiðimenn eru á Grænlandi. Flestir drýgja tekjurnar með fiskveiðum.

Landbúnaður stendum með ágætum blóma á Suður-Grænlandi. Flest eru húsdýrin af íslenskum uppruna. Sauðfjárrækt hófst að ráði um og upp úr aldamótunum 1900, og var þá flutt inn fé frá Íslandi. Fjöldi húsdýra 2017 var svohljóðandi: sauðfé 17.785, hreindýr 3.000 (fjöldi villtra hreindýra er margfalt hærri), kýr 193 og hestar 152.

Um tvö þúsund atvinnuveiðimenn eru á Grænlandi.

Tugir lítilla þorpa eru á Grænlandi. Myndin er frá Kullorsuaq.

Sjávarútvegur er mikilvægasta atvinnugreinin á Grænlandi.

Morgunn í Ilulissat.

Jonathan Motzfeldt, fyrsti forsætisráðherra Grænlands.

Hans Egede leitaði að afkomendum Eiríks rauða.

Grænland er meira en tuttugu sinnum stærra en Ísland.

Grænklæddur Kim Kielsen fylgist með skák Jóhanns Hjartarsonar og Nigel Short í Nuuk Center.

Kulusuk er næsti bær við Ísland og samt eins og allt annar heimur þótt hjörtum mannanna svipi saman á Grænlandi og Grímsnesinu.

Umræður

ummæli

Um KALAK

KALAK -- Vinafélag Íslands og Grænlands   Pósthólf 8164 128 Reykjavík Netfang: kalak@kalak.is   Upplýsingar um starf KALAK: Stefán Herbertsson formaður, sími 898 6311, og Hrafn Jökulsson stjórnarmaður í KALAK, sími 763 1797   Viltu styðja starf KALAK? Bankareikningur: 0322-26-2082 Kennitala: 430394-2239
x

Við mælum með

Vel heppnuð hátíð Hróksins og Kalaks laugardaginn 6. júní

Það var vel heppnaður dagur í pakkhúsinu í dag, laugardaginn 6. júní, þar sem mætti ...