Skákfélagið Hrókurinn stendur fyrir III. Polar Pelagic-hátíðinni á Austur-Grænlandi 15.-22. febrúar. Leiðin liggur til Kulusuk, Tasiilaq og Tineteqilaq, þar sem Hróksmenn munu slá upp skákveislum í skólum, en jafnframt heimsækja heimili og athvörf með gjafir frá Íslandi. Kjörorð leiðangursmanna er: ,,Með vináttuna að leiðarljósi.”
Í tilefni af þessum fyrsta leiðangri ársins til Grænlands bjóða Hrókurinn og KALAK vinum og velunnurum í vöffluveislu í Pakkhúsi Hróksins, Geirsgötu 11 við Reykjavíkurhöfn, laugardaginn 11. febrúar milli 14 og 16. Starf Hróksins á Grænlandi verður kynnt og Jón Grétar Magnússon sýnir myndir frá Austur-Grænlandi.
Aðalbakhjarl hátíðarinnar er grænlenska útgerðarfélagið Polar Pelagic A/S sem er að þriðjungshluta í eigu Síldarvinnslunnar hf. í Neskaupstað. Af öðrum bakhjörlum má nefna Flugfélag Íslands, Íslenska fjallaleiðsögumenn, auk fyrirtækja og einstaklinga sem leggja til verðlaun, vinninga og gjafir.

Kristjana G. Motzfeldt og Gerda Vilholm í bókabúðinni í Tasiilaq sem var griðastaður barnanna í bænum, sem komu daglega að tefla í Háskóla heimsins, eins og Gerda kallaði litlu búðina.
Hrafn Jökulsson formaður Hróksins segir mikið gleðiefni að nú sé efnt til Polar Pelagic-hátíðar í þriðja sinn. ,,Fyrri hátíðir hafa heppnast frábærlega og haft mikið samfélagslegt gildi. Við erum afar þakklát fyrir stuðning og þátttöku Polar Pelagic í hátíðinni. Við viljum auka tengsl og vináttu nágrannaþjóðanna á sem flestum sviðum.”
Hrókurinn hélt fyrsta alþjóðlega skákmótið í sögu Grænlands í Qaqortoq árið 2003 og síðan hafa liðsmenn félagsins farið um 60 sinnum að útbreiða skák og gleði á Grænlandi.
Hápunktur Polar Pelagic-hátíðarinnar verður Minningarmót Gerdu Vilholm í Tasiilaq. Gerda var ötulasti liðsmaður skákarinnar í bænum, og börnin í Tasiilaq komu á hverjum degi í litlu bókabúðina hennar til að tefla.