Ekki missa af þessu
Ellefta páskaskákhátíð Hróksins í Ittoqqortoormiit. Myndin var tekin á síðasta ári.

Páskaskákhátíð í ,,Ísbjarnarbænum” 11. árið í röð

Hrafn Jökulsson kveður leiðangursmenn á Reykjavíkurflugvelli. Lukkudýrið Jóhannes fer með til Ittoqqortoormiit, sem stundum er kallað ísbjarnarbærinn.

Skákfélagið Hrókurinn og KALAK standa næstu vikuna fyrir hátíð í Ittoqqortoormiit, afskekktasta þorpi Grænlands. Þetta er ellefta árið í röð sem Hróksliðar slá upp hátíð skáklistar og vináttu í Scoresby-sundi, sem er á 70. breiddargráðu, næstum þúsund kílómetra frá næsta byggða bóli. Íbúar eru á fimmta hundrað og að jafnaði taka öll börn bæjarins þátt í skákhátíðinni sem hefst á miðvikudag og lýkur annan páskadag.

Á miðvikudag munu Hróksmenn heimsækja leikskóla og dvalarheimili eldri borgara í bænum. Liðsmenn Hróksins og KALAK verða klyfjaðir gjöfum frá velunnurum á Íslandi, m.a. prjóna- og ullarfatnaði frá prjónahópum Gerðubergs og Rauða krossins í Reykjavík.

Grunnskóli bæjarins, sem ber nafn landkönnuðarins Ejnar Mikkelsen, verður að vanda miðstöð skákhátíðarinnar. Á fimmtudag teflir Róbert Lagerman skákmeistari og varaforseti Hróksins fjöltefli við börn og fullorðna. Samhliða hefst myndlistarsamkeppni Hróksins og Pennans fyrir börn í Ittoqqortoormiit.

Leiðangursstjórinn Róbert Lagerman. Auk fjölmargra skákviðburða heimsækja Hróksmenn m.a. leikskólann og elliheimilið.

Á föstudag verður Páskaeggjaskákmót Hróksins og Bónus þar sem allir þátttakendur fá páskaegg og annan glaðning, og á laugardag verður Norlandair-mótið, sem jafnframt er meistaramót Ittoqqortoormiit.

Á mánudag, annan í páskum, verður ,,Dagur vináttu Íslands og Grænlands” haldinn í grunnskólanum, þar sem m.a. verða kynnt úrslit myndlistarsamkeppninnar og efnt til einvígis í blindskák milli Róberts og Paulus Napatoq, 23 ára heimamanns sem er einn besti skákmaður Grænlands. Paulus er blindur en lærði að tefla í fyrstu heimsókn Hróksins til Ittoqqortoormiit 2007, og náði strax undraverðum tökum á skáklistinni.

Paulus var gerður að heiðursfélaga Hróksins 2010 og í Ittoqqoormiit býr líka annar heiðursfélagi Hróksins: Hinn gamalkunni skólamaður Knud Eliassen sem hefur verið helsta hjálparhella Hróksins í bænum frá upphafi.

Börnin í Ittoqqortoormiit þyrpast jafnan á páskahátíð Hróksins.

Páskaskákhátíðin er helsta bæjarhátíð ársins í Ittoqqortoormitt og nánast hvert einasta barn mætir til leiks undir kjörorðum Hróksins: Með gleðina að leiðarljósi.

Fjölmargir leggja Hróknum og KALAK lið við hátíðina í Ittoqqortoormiit og má þar nefna Norlandair, Flugfélag Íslands, Air Greenland, sveitarfélagið Sermersooq, TELEPOST, Bónus, Brim, Úrsus, Mannvit, Ísspor, Steinegg og Grænan markað. Leiðangursstjóri er Róbert Lagerman og með honum eru Hróksliðarnir Máni Hrafnsson og Joey Chan. Auk þeirra eru í undirbúningshópi leiðangursins Hrafn Jökulsson, Kristjana Guðmundsdóttir Motzfeldt og Jón Grétar Magnússon.

Hægt verður að fylgjast með hátíðinni í Ittoqqortoormit á heimasíðum KALAK og Hróksins, sem og Facebook-síðum félaganna.

Umræður

ummæli

Um KALAK

KALAK -- Vinafélag Íslands og Grænlands   Pósthólf 8164 128 Reykjavík Netfang: kalak@kalak.is   Upplýsingar um starf KALAK: Stefán Herbertsson formaður, sími 898 6311, og Hrafn Jökulsson stjórnarmaður í KALAK, sími 763 1797   Viltu styðja starf KALAK? Bankareikningur: 0322-26-2082 Kennitala: 430394-2239
x

Við mælum með

Vel heppnuð hátíð Hróksins og Kalaks laugardaginn 6. júní

Það var vel heppnaður dagur í pakkhúsinu í dag, laugardaginn 6. júní, þar sem mætti ...