Þegar Vestnorrænir dagar voru í Reykjavík fyrir mánuði síðan var fjöldi uppákoma. Færeyskir og grænlenskir gestir tróðu upp með mynd- og tónlist, þjóðlegur matur kynntur fyrir landanum og margt fleira.
Paulus Napatoq er tvítugur piltur frá Ittoqqortoormiit við Scoresbysund. Honum var boðið til landsins, ásamt föður sínum honum Jaerusi Arqe, en Paulus tók þátt í skákhátíð í Ráðhúsinu. Þar tefldu færeyski meistarinn Flóvin Thor Næss og íslenski alþjóðameistarinn Jón Viktor Gunnarsson fjöltefli við gesti og gangandi. Paulus, sem er blindur, sat í ríflega þrjá tíma og tefldi þrjár skákir.
Um páskana 2007 var fyrsta ferð Kalaks og Hróksins til Ittoqqortoormiit og brautryðjendastarf unnið þar. Áhugi barnanna var ótrúlegur og langflest kunnu nákvæmlega ekkert fyrir sér. Paulus var tregur til að kynna sér skákina, hann hafði nóg annað að gera, enda aðeins 15 ára og hafði nóg með lærdóminn og sleðahundana sína. Svo fór hann annað slagið á skíði, svona á veturna. Hjólar hins vegar um bæinn sinn á sumrin.
Það tók korter að útskýra fyrir piltinum hvernig mennirnir gengu á borðinu, hvað reitirnir væri margir, uppstilling og annað slíkt og þá var hann farinn að tefla. Síðar eignaðist hann blindratafl og gat þá notað tímann til að finna með höndunum hvar kallarnir voru staðsettir og svo framvegis.
Ári síðar sigraði hann í móti þar sem 60 börn og ungmenni tóku þátt. Paulus sigraði einnig á fyrstu tveimur mótunum um sl páska, en hann var í blindraskóla í Danmörku í 3 ár og kom heim um sl jól. Í Danmörku smíðaði hann sér til dæmis Kajak sem þykir nú ekkert létt verk.
Ef Paulus hefur möguleika á því að fá kennslu í skákfræðum verður hann örugglega verulegar góður, hann er klárlega efnilegur og sennilega efnilegasti Grænlendingurinn um þessar mundir.
Þeir feðgar gerðu sér margt til gamans þá viku sem þeir voru staddir hér, kíktu í bæinn sem og verslunarmiðstöðvar og fóru hinn gullna hring eins og allir almennilegir túristar. Fegurðar Þingvalla naut Paulus skiljanlega ekki mjög en honum fannst magnað að koma að Geysi og heyra kraftinn og finna lyktina.
Í Ráðhúsinu tefldi Paulus fyrst við alþingismanninn Helga Hjörvar sem mætti með blindrahundinn sinn með sér. Helgi er snjall skákmaður og var gríðarlega harður áður fyrr en hefur gefið sér minni tíma undanfarin misseri til að sinna skákinni. Viðureignin endaði í jafntefli.
Þá tefldi Paulus við Fide meistarann Róbert Lagerman sem er margreyndur keppnismaður og hefur teflt í landsliðsflokki. Róbert hefur kennt mörgu grænlenska ungmenninu að tefla í gegnum árin. Róbert var með bundið fyrir augu en það kom ekki í veg fyrir sigur hans. Þó Paulus sé mikið efni er hann ekki alveg kominn á þetta stig ennþá.
Að síðustu tefldu þeir Paulus og Heimir Páll Ragnarsson, einn af okkar ungu og ótrúlega efnilegu skákmönnum. Heimir er margreyndur á mótum þrátt fyrir ungan aldur og æfir grimmt. Heimir tefldi þarna blindskák og stóð sig frábærlega þó ekki dygði það til sigurs en piltarnir sömdu svokallað stórmeistarajafntefli. Það var þreyttur en glaður og sáttur Paulus Napatoq sem hélt í bæinn og fékk sér að borða áður en haldið var á Vestnorræna tónleika í flugskýli við Reykjavíkurflugvöll síðar um kvöldið.
Ísland er draumaland Paulusar, hann langar að komast hingað í skóla og læra íslensku. Kannski stjórnmálafræði líka. Já, og tefla við alla íslensku meistarana!