Skákveislan sem stóð í heila viku nú fyrir páskana tókst afbragðsvel. Þetta er í sjötta sinn sem leiðangur fer til hins magnaða Ittoqqortoormiit við Scoresbysund og ekki ofmælt að bæjarbúar hafi tekið skáktrúboðunum með kostum og kynjum. Fritids og kulturráð Sermersooq bæjarfélagsins og Nuna fonden veittu félögunum styrk til fararinnar og Jens Ravnskjær, skólastjóri, sá til þess að ferðalangar fengju hreinlega eitt flottasta hús þorpsins svo ekki væsti um þá.
Fjöldi fyrirtækja styrkti leiðangurinn með gjöfum og vinningum svo allir þátttakendur í heilum sjö mótum fengu vinninga. Actavismótið var aldursskipt þar sem fjögur lítil mót voru í gangi, og eftir kennslu í skólanum og fjöltefli þeirra Hrafns Jökulssonar og Stefáns Bergssonar, þar sem þeir tóku samtals 99 skákir, voru haldin sex alvörumót.
Eymundsson, Cintamani og Bónus gáfu vinninga á barna og unglingamótin, Ísspor og Atlantsolía á fullorðinsmótin auk þess sem Flugfélagsbikarnum var lyft af honum Lars Simonsen. Sögur útgáfa, Fjallið hvíta, Henson og Sölufélag grænmetisframleiðanda létu sitt heldur aldeilis ekki eftir liggja.
Meira verður skrifað um leiðangurinn síðar, en Hrókurinn – og nú í samstarfi við Kalak – hefur farið yfir 20 ferðir á austurströndina frá 2003. Börnin taka leiðangursmönnum galopnum örmum og það gera einnig foreldrar þeirra sem t.a.m. buðu ferðalöngum í mat til að sýna þakklæti sitt.
Ittoqqortoormiit – staður hinna stóru húsa – er einhver flottasti bær á norðurslóðum, með snillinga í hverju húsi. Eins einangraður og hann er. Já, næstum þúsund km til Kulusuk. Það er næsta þorp!
Um leiðangurinn má lesa, og skoða myndir, á http://godurgranni.blog.is/blog/godurgranni/