Páskaheimsókn Hróksins og Kalak til Grænlands markar upphaf tíunda ársins sem farið hefur verið vestur um haf í skáktrúboð. Farnar hafa verið yfir tuttugu ferðir, öll þorp austurstrandarinnar verið heimsótt og börnum gefin yfir 1000 skáksett á þessum árum. Nokkur skákfélög hafa verið stofnuð og það virkasta er Löberen eða Biskupinn í Tasiilaq, en þar eru haldin mót reglulega.
Ittoqqortoormiit við Scoresbysund verður heimsótt sjöttu páskana í röð. Þar kunna öll börnin orðið mannganginn og sum orðin býsna öflug. Íbúar eru tæplega 500 og í grunnskólanum eru um 85 krakkar. Langflest eru algjörlega tilbúin til að nota páskafríið sitt til að dvelja í skólanum og tefla.
Margir leggjast á eitt svo hátíðin heppnist sem best. Menningar- og tómstundaráð sveitarfélagsins Sermersooq og NunaFonden veittu fjárhagslegan stuðning.
Bónus gefur 100 páskaegg í vinninga á barnaskákmótum, og fjölmargir leggja til vinninga og verðlaun, m.a. Ísspor, Penninn/Eymundsson, Atlantsolía, Sögur útgáfa, Íslenskt grænmeti, Actavis og Fjallið hvíta. Þá gefur Cintamani veglega vinninga handa börnunum og leggur leiðangursmönnum til skjólfatnað, enda allra veðra von svo norðarlega á Grænlandi.
Leiðangursmenn að þessu sinni eru þeir: Stefán Bergsson, Hrafn Jökulsson, Jón Birgir Einarsson og Arnar Valgeirsson.
Miðvikudagskvöldið 28. mars efna Grænlandsfararnir og aðrir velunnarar til Grænlandsmóts á Kaffi Haítí við Geirsgötu 7b. Gleðin hefst klukkan 20.30 og eru allir velkomnir. Tefldar verða 6 umferðir með tímaforgjöf. Þátttökugjöld eru engin, en leiðangursstjóri mun taka við framlögum í verðlaunakaupasjóð!
Skáktrúboðarnir reyna af fremsta megni að setja inn fréttir og myndir sem þéttast á Grænlandssíðu Hróksins:
http://godurgranni.blog.is/blog/godurgranni/