Það geta orðið smávægileg vandræði með samgöngur þegar maður býr í hinu einangraða Ittoqqortoormiit á austurströnd Grænlands. Það máttu þau reyna þau Hans Henrik Arqe, lögreglumaður og Pauline Christensen, fimmtán ára nemi sem ætluðu að fljúga frá Kulusuk og heim á laugardeginum fyrir níu dögum síðan.
Þau, ásamt nokkrum löndum sínum, máttu “millilenda” í Reykjavík en þegar þangað var komið var ófært til lendingar á Constable Pynt, hinum einmanalega alþjóðaflugvelli við Scoresbysund. Og þannig var það næstu dagana. Hópurinn er þó ýmsu vanur og lét ekkert slá sig útaf laginu heldur trítlaði daglega frá Hótel Cabin, þar sem þau höfðu það glimrandi fínt, í Kringluna eða þá í miðbæinn og skoðuðu í búðir. Úrvalið heldur betra en í kaupfélaginu í Ittoqqortoormiit þar sem ægir saman mjólk og sokkum, baunum og byssum, sykri og sjónvörpum!
Þau skelltu sér þó í bíó í gærkvöldi með íslenskum vini og völdu hrollvekjuna “The thing” enda um að gera að taka þetta alla leið ef farið er í bíó á annað borð. Hans hafði ekki farið í bíó síðan 2005!
Hann var orðinn spenntur að komast heim enda beið þar kona hans og barnaskari og þó Hans Henrik sé aðeins 25 ára þá eiga þau Thalia saman fjögur börn og það yngsta er mánaðargamall drengur.
Á myndunum má sjá þegar Hans Henrik skorar í Ingibjörgu Eddu Birgisdóttur í fjöltefli þegar Hróksfólk heimsótti þorpið hans í vor og nýlega mynd af Pauline, sem er einhver efnilegasta stúlkan við Scoresbysund í skák.