Í dag, miðvikudaginn 18. desember, fór sjálfur Stekkjarstaur til Kulusuk, á vegum Kalak, Hróksins og Air Iceland Connect. Jólasveinn okkar fór að vanda klyfjaður gjöfum frá íslenskum velunnurum, jólanammi frá Góu og með spjaldtölvur frá Heiðbjörtu Ingvarsdóttur, Grænlandsfara Hróksins og stjórnarkonu í Kalak, til allra elstu nemendanna.
Stekkjarstaur var vel fagnað á flugvellinum í Kulusuk og flest börnin í bænum töldu ekki eftir sér að keifa gegnum snjóinn, þennan rúmlega hálftíma sem spássitúr úr þorpinu tekur að labba á völlinn.
Flugfólkið frá Air Iceland Connect, þau Frímann Svavarsson og Ingibjörg Matthíasdóttir, hjálpuðu Stekkjarstaur við bráðskemmtilega athöfn á flugvellinum, þar sem gleðin og vináttan voru í fyrirrúmi.
Þetta var níunda og síðasta ferð liðsmanna Hróksins og Kalak til Grænlands á þessu ári, og hafa umsvifin aldrei verið meiri. Að auki hafa félögin sent mikið af vönduðum fatnaði, skóm og öðrum gjöfum til okkar vina og nágranna.
Árið 2020 er langt komið á teikniborðum íslenskra Grænlandsvina, og áfram verður haldið á fullri ferð að styrkja tengsl landanna og skapa ánægjustundir fyrir börn og fullorðna.