Ekki missa af þessu

Strjálbýlasta land heimsins

Ingibjörg Björnsdóttir skrifar frá Sisimiut

Grænland er strjálbýlasta land heimsins. Hér búa o,o3 manneskjur á hverjum ferkílómetra, á Íslandi búa 2.28 manneskjur á hverjum ferkílómetra.

Hér á óendanleikinn uppruna sinn.

Langsamlega stærstur hluti landsins er óbyggilegur ís, klappir og fjöll á aldur við sólina.

Ég hef aldrei litið himin svo háan og bláan eins og hér, og aldrei séð silfrað haf skvetta á sker með sömu mýkt og hafið fyrir utan Sisimiut, hvað þá að ég hafi séð fjöll spegla sig í vog eins og þau gera í Ulkebugten sem sjúkrahúsið og gula húsið okkar stendur við.

Á veturna þekur snjórinn landið frá fjalli í fjöru, norðurljósin spegla sig í ísnum sem leggst að í höfninni og tunglsljósið varpar birtu á fjöll sem virðast ná upp til stjarnanna. Stundum geysa stormar og hríð, en oftar snjóar í logni og að því loknu herðir á frostinu svo marrar í nýjum snjó og hrímið þekur rjótt andlit.

Í litlu skíðabrekkunni inni í bænum eru krakkar á snjóbrettum, skíðum og sleðum, inní landið liggur gönguskíðabraut og teygir sig eins langt og augað eygir, móti fjöllum og sól. Snjósleðaslóðin og hundasleðaslóðin liggja samhliða yfir tjörnina út úr bænum, áður en leiðir skilja, snjósleðarnir fara suður fyrir vatnsbólið og hundasleðarnir norður fyrir.

Í vorleysingum streymir vatnið niður brekkurnar og mynda lítil stöðuvötn á láglendi sem dökkeyg börn hoppa í með gleðilátum. Eins og hendi sé veifað tekur gróðurinn við sér. Víðirinn breiðir úr sér, en nær aldrei nema upp í hné á okkur sem erum háfættari en flestir landsmenn. Fífan blómstrar í júlíbyrjun og þekur skurði og mýrar með hvítum mjúkum blómum sínum. Í dalsbotni breiðir eyrarrósin úr sér og skreytir landið með fínlegum bleikum blómum sem týnd eru í vasa eða notuð í salat og sem kökuskraut. Á fjalli tekur lyngið við sér og keppist við að þroska krækiber og bláber sem eru sætari, stærri og safaríkari en frændber þeirra á Íslandi. Hvönnin með sína grænu stilka vex við fjallsrót og er safnað í sumarlok notuð til að bragðbæta vatn og stundum soðin í mauk. Grænlandspósturinn sem heitir Rhododendrum groenlandicum á latínu vex á láglendi og í fjalli og er þurrkaður í te sem er að sögn allra meina bót.

Óendanleikinn er í náttúrunni og erfist frá kynslóð til kynslóðar. Konur í fæðingu humma og segja “haaja, haaja” í erfiðustu hríðunum, lágstemmd mjúk hljóð og ég ímynda mér að formæður þeirra hafi farið með sömu stemmur í þúsundir ára.

“Suu” er “já”, orðið er sogað inn og augabrúnum lyft um leið, notað í dag eins og örugglega fyrir þúsundum ára við ísvök meðan beðið var eftir að selurinn leitaði upp í súrefni.

Lítil börn sem nærast á móðurmjólk verða feit eins og litlir kópar, mjólk mæðra þeirra gerð til að næra börn sem fæðast smá á hjara veraldar. Lítil kópabörn vaxa en verða aldrei eins há og við nágrannar þeirra austur á Íslandi, sumir segja að það sé af því að þau sofi svo lítið á sumrin. Í eilífu sólskini sumarsins er ekki tími til að sofa og vaxa, þá þarf að vera úti og leika, þvælast um, kíkja á hvolpa, athuga hvað sé að frétta niðri á höfn, sparka bolta á sandvelli og klifra í klettum. Endalaus vetur og eilíf sumur eru árstíðir lands óendaleikans sem ég hitti fyrst sólbjartan dag árið 2009.

Umræður

ummæli

Um Ingibjörg Björnsdóttir

x

Við mælum með

alt

Barnalíf á Grænlandi

Ingibjörg Björnsdóttir skrifar frá Sisimiut Barnalíf á Grænlandi er um margt frábrugðið barnalífi á Íslandi. ...