Ekki missa af þessu

Styrktartónleikar í Grænlandssetri, Bolungarvík

Þessi grein barst frá Jónasi Guðmundssyni, sýslumammi í Bolungarvík. Heldur hann utan um Grænlandssetur þar á bæ og hélt utan um eftirfarandi tónleika:

Húsfyllir á styrktartónleikum í Grænlandssetri

Húsfyllir eða á bilinu 80 til 90 manns voru á tónleikum sem Grænlandssetrið við Vitastíg í Bolungarvík stóð fyrir laugardaginn fyrir páska til styrktar byggingu nýs tónlistar- og samkomuhúss í Kulusuk á Grænlandi. Húsinu er ætlað að koma í stað eldra húss sem brann til kaldra kola fyrr í mánuðinum og var eina samkomu- og tónlistarhús staðarins.

Ekki var endanlega ljóst fyrr en kvöldið áður en tónleikarnar áttu að verða að af þeim gæti orðið og því tókst ekki að koma tilkynningu um þá á framfæri og auglýsa eins vel og best hefði verið á kosið. Má þó segja að það hafi verið lán í óláni því vart hefðu fleiri rúmast á tónleikunum en þeir sem þá sóttu.

Fram komu listamennirnir Mugison, Lára Rúnars, Jónas Sig. og liðsmenn hljómsveitarinnar Ylju. Léku þau á als oddi og góð stemning skapaðist. Áður en söngurinn hófst færði Guðmundur Kristjánsson söfnuninni nýjan lúður og bað um að séð yrði til að hann kæmist í góðar hendur á Grænlandi en öll hljóðfæri sem í húsinu voru eyðilögðust í brunanum. Á meðan á tónleikunum stóð birtust á tjaldi myndir m.a. frá Kulusuk, húsbrunanum, ægifagurri náttúru Grænlands auk ýmissa upplýsinga um land og þjóð líkt og á tónleikum sem haldnir voru af sama tilefni í Hörpu fyrir viku. Að því er best varð séð var talsvert hringt í styrktarnúmer sem gefin voru upp og einnig safnaðist nokkurt fé meðal tónleikagesta.

Tæpast hefði náðst í alla þá góðu listamenn sem komu fram nema þar sem svo vel vildi til að hátíðin „Aldrei fór ég suður“ stóð yfir á Ísafirði og fjölmargir listamennirnir voru staddir vestra vegna hennar. Var það einkum fyrir tilverknað Guðmundar Kristjánssonar og Elíasar Arnar, sonar hans (Mugison),að af þessum viðburði gat orðið. Eru þeim og öllum öðrum sem aðstoðuðu við að gera þennan viðburð að veruleika færðar bestu þakkir fyrir og vonandi að það fé sem safnaðist nýtist íbúum Kulusuk á Grænlandi sem best og að þeir njóti einnig í einhverri mynd þeirra góðu strauma sem bárust frá Grænlandssetrinu í Bolungarvík þessa eftirmiðdagsstund.

Við vekjum athygli á fébókarsíðu Grænlandsseturs með myndum m.a.a frá neðangreindum tónleikum. Sjá hér http://www.facebook.com/pages/Gr%C3%A6nlandssetur/104430716254755

Að sjálfsögðu verður þessi umfjöllun birt á facebooksíðu kalak:

http://www.facebook.com/kaktusnovember

 

Umræður

ummæli

Um KALAK

KALAK -- Vinafélag Íslands og Grænlands   Pósthólf 8164 128 Reykjavík Netfang: kalak@kalak.is   Upplýsingar um starf KALAK: Stefán Herbertsson formaður, sími 898 6311, og Hrafn Jökulsson stjórnarmaður í KALAK, sími 763 1797   Viltu styðja starf KALAK? Bankareikningur: 0322-26-2082 Kennitala: 430394-2239
x

Við mælum með

Páskarnir við Scoresbysund

Um páskana verður haldin mikil skákhátíð í Ittoqqortoormiit, sem er eitt afskektasta þorp Grænlands. Að ...