Ekki missa af þessu

Svo kom vorið….

Ingibjörg Björnsdóttir skrifar frá Sisimiut

Svo kom vorið. Því var skotið í gang föstudaginn 31.mars klukkan tíu. Stærstur hluti bæjarbúa stóð á hliðarlínunni og hvatti ríflega tvöhundruð gönguskíðahlaupara með klöppum og húrrahrópum, Arctic circle race var hafið í 21.skipti. Framundan var 160 kílómetra skíðahlaup í fjalllendi austan við Sisimiut, upp fjöll og niður á íslagðan fjörð, upp aftur og niður og upp, gengið og hlaupið ríflega fimmtíu kílómetra á dag í stórkostlegu snævi þöktu landslagi.

Föstudagurinn var erfiður og margir þurftu að leggja ára í bát, eða spenna af sér skíðinn, kuldi, skafrenningur og dumbungur urðu til þess að sporið hvarf og færið varð þungt og þreytandi. Laugardag og sunnudag brosti sólin og hvatti hlauparana og sjálfboðaliðana alla, húsbóndinn í Læknahúsinu þeyttist um fjöllin og tók myndir af þreyttum en glöðum hlaupurum, við hin fengum far með snjósleðastrætó inn að Solbakken og renndum okkur á skíðum og hvöttum hlaupara á hraðferð.

Fyrsta mánudag í apríl varð yngsti sonur okkar sex ára, það kallaði á veisluhöld, Bláa stofan kom eins og hún lagði sig þrettán börn og þrír sulisuttar eins og leikskólastarfsmenn heita hér mættu stundvíslega klukkan ellefu. Þau röltu í rólegheitum tæpa tvo kílómetra úr leikskólanum, fengu hádegismat og köku, léku sér hægt og hljótt framan af og heldur hærra eftir að búið var að innbyrða köku og saft. Þá var kominn tími á að rölta til baka. Svo týndust gestir til, vinir og vinnufélagar komu við í súpu og kökur, sumir stoppuðu stutt, og aðrir sátu lengi tóku upp prjóna og heklunál spjölluðu og glöddust yfir vorinu og sex ára gömlu lífinu.

Aðra helgi í apríl var Arctic sound tónlistarhátíð í fimm daga þar sem komu fram tónlistarmenn frá Grænlandi, Norðulöndum og Eystrasaltslöndunum. Mér var boðin trúnaðarstaða Barstjóra á hátíðinni, ég bauð vinkonu minni að vera með mér, fannst það vissara. Hún var í nokkur ár allt í senn, barþjónn, uppvaskari og útkastari á Skarfinum í Kaupmannahöfn, ég var meira í því að drekka á Skarfinum og öðrum knæpum. Við vorum prýðilegt teymi, hún tæmdi tvær flöskur í einu í plastglös, og ég ásamt hinum sjálfboðaliðunum rétti þau þyrstum gestum yfir borðið. Eftir tónleika föstudag og laugardag var efterfest í salnum í Kussangasoq, þá fór ég heim að sofa ríflega fertug konan, en vinkona mín sem á enn hálft ár í fertugt hélt ótrauð áfram í efterfest og fjör.

Þriðju helgi í apríl voru páskar, fimm daga frí í apríl með skíðabrekkuna innan seilingar og sól í þrjá daga af fimm. Skíði og pulsur grillaðar á fjalli, páskaegg frá elskulegri frænku á Íslandi, páskalamb og páskadögurð, páska skeytt framan við og allt verður dásamlega gult og glatt.

Við höfum sannarlega notið grænlenska vorsins sem er óstöðugt eins og íslenskur vetur, það hafa skipst á hríðarbylir og sólskinsdagar dumbungur og hrímþoka og fyrsti rigningardagur ársins í vikunni sem leið. Enn bólar ekkert á gróðri, vorboðinn eru ísjakar sem þeysast í suðurátt ættaðir norðan úr Diskóflóa eða þaðan af norðar, á einum þeirra bjó ísbjörn, hann varð ekki langlífur. Smáfuglarnir eru byrjaðir að tísta og krummarnir krúnka eins og vanalega, hundarnir góla og yfir höfninni garga mávarnir og voma yfir nýskotnum sel sem bíður verkunnar.

Þetta verður síðasta vorið okkar í bili á Grænlandi. Það er margt í mörgu sagði einhver einhvern tíma, og eftir andvökunætur og kvíðablandna tilhlökkun ákváðum við enn einu sinni að taka stökkið og halda af stað.

Að þessu sinni aftur heim til Íslands. Synir okkar urðu ægiglaðir og um leið eilítið hnuggnir yfir því að kveðja allt hér öðru sinni. Getum við einhvern tíma komið aftur til Grænlands spurðu þeir þegar við bárum þeim tíðindin. Já sögðum við foreldrarnir, við komum aftur til Grænlands. Ókei, sögðu þeir þá.

Umræður

ummæli

Um Ingibjörg Björnsdóttir

x

Við mælum með

alt

Barnalíf á Grænlandi

Ingibjörg Björnsdóttir skrifar frá Sisimiut Barnalíf á Grænlandi er um margt frábrugðið barnalífi á Íslandi. ...