Ekki missa af þessu

Tafl og tónaveisla á jólagleði Hróksins og Kalak

Guðni leikur fyrsta leikinn fyrir Guðlaugu U. Þorsteinsdóttur gegn Róbert Lagerman. Árni Gunnarsson og Jóhanna Engilráð fylgjast með.

Fjölmenni var á jólagleði Hróksins og Kalak, vinafélags Íslands og Grænlands, á laugardaginn. Guðni Th. Jóhannesson forseti var heiðursgestur hátíðarinnar og lék fyrsta leikinn á Air Iceland Connect jólamóti Hróksins.

Hrafn Jökulsson bauð gesti velkomna, fyrir hönd félaganna og fór stuttlega yfir starfið 2018. Hrókurinn, sem fagnaði 20 ára afmæli, skipulagði alls sjö leiðangra til Grænlands og hélt fjölda hátíða, í samvinnu við Kalak. Þá stóð Hrókurinn áfram fyrir fatasendingum til Grænlands og í desember sendu Hrókurinn og Kalak Stekkjarstaur til Kulusuk með gjafir handa öllum börnunum í þorpinu. Í vor efndi Hrókurinn til árlegs skákmaraþons, þar sem 5 milljónir söfnuðust án nokkurs tilkostnaðar, og rann afraksturinn í söfnun Fatimusjóðs og UNICEF fyrir stríðshrjáð börn í Jemen. Þá héldu Hróksmenn áfram að heimasækja Barnaspítala Hringsins vikulega, og studdu sem fyrr við skáklíf fyrir fólk með geðraskanir. Í september var haldið glæsilegt afmælismót í Ráðhúsinu, en að auki efndi Hrókurinn til fjölda viðburða og heimsótti skóla víða um land.

Helsta verkefni Kalak, eins og mörg undanfarin ár, var að bjóða 11 ára börnum frá litlu þorpunum á Austur-Grænlandi til tveggja vikna dvalar á Íslandi, til að læra sund og kynnast íslensku samfélagi. Þetta er mikið ævintýri fyrir börnin, sem sjá og upplifa margt í fyrsta skipti á ævinni: Bíóferð og leikhús, heimsókn í Húsdýragarðinn og Alþingi, fara á hestbak og Gullna hringinn, og voru að vanda boðin ásamt fylgdarliði til Bessastaða.

Guðni forseti flutti setningarávarp, og þakkaði Hróknum og Kalak fyrir áralangt starf í þágu barna á Íslandi og Grænlandi. Hann hvatti liðsmenn félaganna til að halda áfram góðu og mikilvægu starfi.

Forseti lék svo fyrsta leikinn á Air Iceland Connect jólaskákmóti Hróksins fyrir Guðlaugu Unni Þorsteinsdóttur skákdrottningu, sem hafði hvítt í 1. umferð gegn Róbert Lagerman, varaforseta Hróksins. Árni Gunnarsson forstjóri Air Iceland Connect svaraði að bragði fyrir Róbert, sem hafði betur í skákinni. Við þetta tækifæri færði Jóhanna Engilráð Hrafnsdóttir forsetanum að gjöf ljósmynd Jóns Grétars Magnússonar af Hvalseyjarkirkju á Grænlandi, en þar fór fram brúðkaup árið 1408, sem er síðasti skráði viðburðurinn í sögu norrænna manna á Grænlandi. Viðstödd var Kristjana Guðmundsdóttir Motzfeldt, en hún gekk í hjónaband í Hvalseyjarkirkju með Jonathan Motzfeldt, fyrsta forsætisráðherra og landsföður Grænlands, og var það fyrsta athöfnin í 500 ár í hinu forna guðshúsi.

Róbert sigraði á jólamótinu, Arnljótur Sigurðarson varð í 2. sæti og Kristján Stefánsson hreppti bronsið. Aðrir keppendur voru Þórir Benediktsson, Gunnar Skarphéðinsson, Guðlaug Þorsteinsdóttir, Héðinn Briem, Guðfinnur R. Kjartansson, Hörður Jónasson, Sigurjón Björnsson, Aðalsteinn Thorarensen, Jóhann Valdimarsson, Hjálmar Hrafn Sigurvaldason, Bjarni Árnason, Einar S. Einarsson, Tómas Ponzi, Pétur Jóhannesson og Axel Diego.

Systkinin Alex og Sjana Rut Jóhannsdóttir fluttu lög eftir Sjönu, en þessi kornunga listakona hefur vakið mikla athygli fyrir lög sín og söng. Þá tróðu Birkir Blær Ingólfsson og Margrét Arnardóttir upp með saxófón og harmónikku, og er óhætt að segja að allt hafi tónlistarfólkið töfrað gesti upp úr skónum með tónum.

Margt er framundan á nýju ári hjá Hróknum og Kalak. Liðsmenn Hróksins halda áfram skólaheimsóknum vítt og breitt um landið, og margar hátíðir eru á teikniborðinu, jafnt á Íslandi sem Grænlandi.

Árni Gunnarsson, Kristjana Guðmundsdóttir Motzfeldt, Guðni Th. Jóhannesson forseti og Jóhanna Engilráð með mynd Jóns Grétars Magnússonar af Hvalseyjarkirkju, sem forseti fékk að gjöf.

Birkir Blær Ingólfsson og Margrét Arnardóttir heilluðu gesti.

Elda Þórisson Faurelien, löngum kennd við kaffihúsið góða, Haiti, með Guðna forseta.

Framarinn Marcin Bylica var ánægður með sinn Stjörnuforseta!

Guðni forseti setti hátíðina og hvatti liðsmenn Hróksins og Kalak til dáða.

Guðni forseti, Lisa Solrun Christiansen og dóttir hennar Aviâja Isaksen. Lisa vinnur hjá grænlensku landstjórninni en býr á Íslandi.

Hrafn Jökulsson, Lilja Steingrímsdóttir sérlegur bakhjarl Grænlandsstarfs Hróksins, og Róbert Lagerman.

Jóhann Valdimarsson og Tómas Ponzi skemmta sér jafnan dátt við skákborðið.

Jökull Ingason Elísabetarson með dætrunum Lillý og Talíu.

Kempur og burðarásar í íslensku skáklífi um árabil. Guðfinnur Kjartansson, Kristján Stefánsson og Einar S. Einarsson.

Margrét Arnardóttir lék á nikkuna af mikilli list.

Róbert Lagerman, Árni Gunnarsson, Kristjana Guðmundsdóttir Motzfeldt, Guðni Th. Jóhanesson forseti, Jóhanna Engilráð og Guðlaug U. Þorsteinsdóttir með myndina góðu af Hvalseyjarkirkju á Grænlandi.

Sigurbjörg Guttormsdóttir og Haraldur Auðunsson. Sigurbjörg er leikskólakennari í Hringnum en þangað hafa Hróksmenn komið vikulega í 15 ár.

Sigurvegarar. Róbert Lagerman lenti í efsta sæti, Arnljótur Sigurðarson í 2. og Kristján Stefánsson hreppti bronsið.

Sirkuslistamennirnir Bjarni Árnason og Axel Diego sem báðir hafa farið á vegum Hróksins til að gleðja grænlensk börn.

Systkinin bráðefnilegu, Sjana Rut og Alex, töfruðu alla upp úr skónum.

Verðlaunahöfundurinn, Hróksliðinn og Grænlandsfarinn, Birkir Blær Ingólfsson, þandi saxann. Hann hefur glatt ófá grænlensk börn á Hróksins vegum.

Þessir erlendu ferðamenn brustu í dans undir tónaflóðinu.

 

Umræður

ummæli

Um KALAK

KALAK -- Vinafélag Íslands og Grænlands   Pósthólf 8164 128 Reykjavík Netfang: kalak@kalak.is   Upplýsingar um starf KALAK: Stefán Herbertsson formaður, sími 898 6311, og Hrafn Jökulsson stjórnarmaður í KALAK, sími 763 1797   Viltu styðja starf KALAK? Bankareikningur: 0322-26-2082 Kennitala: 430394-2239
x

Við mælum með

Vel heppnuð hátíð Hróksins og Kalaks laugardaginn 6. júní

Það var vel heppnaður dagur í pakkhúsinu í dag, laugardaginn 6. júní, þar sem mætti ...