Ekki missa af þessu
Mynd eftir Jón Grétar Magnússon

Það þarf þorp…

Ingibjörg Björnsdóttir skrifar frá Sisimiut

Takk til ykkar allra sem lásuð síðustu færslu, deilduð henni og hvöttuð á uppbyggilegan hátt til góðra verka í þágu þjóðar.

Það þarf þorp til að ala upp barn. varð vinkonu minni að orði þegar ég átti við hana langt samtal eftir að fregnir bárust af handtöku ungra manna frá Grænlandi. Orðtakið á rætur sínar að rekja til Afríku og finnst þar að sögn í mismunandi myndum í fleiri tungumálum.

Hér á Grænlandi hefur ,,þorpið” sem uppalandi enn sterka birtingarmynd. Síðasta virka dag hvers mánaðar er útborgunardagur launa. Í sumum minni bæjum landsins hafa félagsmálayfirvöld brugðið á það ráð að opna athvarf fyrir börn á útborgunardegi og fram á næsta dag. Börn eiga kost á því að koma í athvarfið, fá kvöldmat, leika sér, sofa í ró og hlýju, og vakna til morgunverðar.

Því enn er það því miður svo að ekki allir foreldrar hafa stjórn á sér þegar útborgunardagur rennur upp, sumir foreldrar eru svo sjúkir af fíkn að börnin þeirra, vinnan og allt annað verður að víkja þegar loks er til aur til þess að þjóna sjúkdómnum. Þegar svoleiðis er ástatt er tvennt að gera, loka augunum eða horfast í augu við vandann og veita börnunum skjól meðan á rúsi foreldranna stendur.

Sem betur fer eru félagsmálayfirvöld farin að horfast í augu við vandann. Börnunum er enginn greiði gerður ef þau eru látin afskiptalaus inni á heimilium þar sem eru drykkjulæti og fyrirgangur dag og nótt í kringum mánaðarmót.

Vonin er sú að börnum sem er bjargað í það minnsta tímabundið úr ómögulegum aðstæðum verði til þess að börnin finni til öryggis og samkenndar, fái ró til þess að hvíla sig og nærast í stað þess að ráfa um eða fela sig full ótta og óöryggis.

Það þarf þorp til að ala upp barn, margir af vinnufélögum mínum, konum og mönnum fædd á sjötta og sjöunda áratugnum eru svo fínn vitnisburður um það hvernig þorpið tók að sér að ala þau upp.

Fjölmennustu árgangar Grænlands eru fæddir á sjöunda áratugnum. Vinnufélgar mínir eiga þrjú, fjögur, fimm og sex systkini og sumir fleiri. Öll kunna þau sögur af því hvernig var siglt inn í fjörðinn með timbur að vori og hafist handa við byggja upp bústað fyrir fjölskylduna, kannski bara eitt herbergi upphitað með kamínu. Sumarið fór í að safna forða fyrir veturinn. Silungnum mokað upp úr vötnum, reyktur og saltaður, lagður í lög og steiktur á steini með ilmandi lyng sem uppkveikju.

Grænlenskt barn og móðir

Og öll kunna þau sögur af mæðrum sem hengdu Kamika upp í glampandi sól og ávíttu börn sem voru að slæpast og þvælast í sólskininu í stað þess að vera til gagns heima hjá mæðrum sínum. Þá skipti ekki máli hverjir foreldrarnir voru, þorpið sá um að halda því að verki og gæta þess að það færi sér ekki að voða. Flest fóru þau í fóstur eitt ár í Danmörku. Voru send af stað kannski tíu ára gömul með skipi eða flugvél, fjölskyldan kom til að kveðja, kyssti og faðmaði tárvott barn sem var á leið út í óvissuna. Foreldar þessara barna áttu von um bjarta framtíð handa börnunum sínum og sendu þau frá sér svo börnin gætu lært dönsku og komist til mennta.

Þau komust til mennta, samstarfélagar mínir, og eru í dag foreldar og afar og ömmur barna sem hafa haldið áfram að leitað sér menntunar og haldið svo fallega utan um vonina sem fyrstu kynslóðir síðustu aldar áttu sér um bjarta framtíð handa börnunum sínum og sjálfstæði landsins síns.

Kannski hefur vonin verið á undanhaldi. Grænlendingar fengu heimastjórn og síðan sjálfsstjórn en áfram komum við, sem gistum landið tímabundið, og fáum oft betri stöður og betri starfsskilyrði. Sumir hafa gefist upp og hugsa sem svo að það skipti engu máli hvað þau geri — ,,hinir” koma alltaf og ráðskast með þau.

Það er ekki auðvelt að eiga við þá hugsun, en með því að veita börnum í dag skjól og hlýju þegar hvorugt er að fá heima fyrir má vonast til þess að komandi kynslóð öðlist aftur trú á þorpið sitt og fólkið sitt, og sjái fyrir sér vonbjarta framtíð í þessu glæsilega og gjöfula landi sem þau eiga.

Bestu kveðjur til ykkar sem lesið.

Umræður

ummæli

Um Ingibjörg Björnsdóttir

x

Við mælum með

Leiðin til Grænlands

Ingibjörg Björnsdóttir skrifar frá Sisimiut Við komum fyrst til Grænlands í júlí 2009. Ég andaði ...