Vestnorræn hátíð í Reykjavík frá 5.-9. september.
Grænlendingar og Færeyingar verða skemmtilega fyrirferðamiklir í borginni á næstu dögum enda margar uppákomur hér og þar þessa vikuna. Langmest er um að vera á laugardaginn en þá er veisla frá hádegi og fram á kvöld.
Fjöldi gáma verður staðsettur víðsvegar um miðborgina, frá höfninni og upp að Hljómskálagarði en einmitt í gámi þar verða meðal annars grænlensku listamennirnir Jens og Gorm með kynningu á trommudansi og grímugerð. Þeir munu troða upp klukkan 13 og 15 og vera með “workshop” eða létta vinnustofu í gáminum. Kalak mun vera með myndasýningu þar einnig sem rúllar milli atriða.
Annars verður boðið upp á grænlenskan, færeyskan og íslenskan mat við höfnina upp úr hádeginu, skákhátíð verður í Ráðhúsinu þar sem Flóvin Þór Næss, Færeyingurinn snjalli teflir fjöltefli og Paulus Napatoq, blindur strákur frá Ittoqqortoormiit teflir við gesti og gangandi.
Náttúruþema verður í Norræna húsinu og klukkan 18 eru stórtónleikar í flugskýli Flugfélags Íslands. Prins Póló, stórskemmtileg íslensk hljómsveit og Guðríð Hansdóttir hin færeyska troða upp ásamt hljómsveitinni ORKA. En hápunkturinn er grænlenska hljómsveitin Nanooq og ljóst er að þetta verður stuð.
Annars er hátíðin sniðin fyrir fjölskyldur og allir aldurshópar munu heldur betur fá eitthvað fyrir sinn snúð.
Á facebook er hægt að slá inn “nýjar slóðir” og koma þá fram upplýsingar um hina og þessa viðburði.
Kalak hvetur alla sem möguleika á að kíkja í miðborgina og taka þátt í gleðinni.