Ekki missa af þessu

Vetrarhátíð Hróksins og Kalak á Austur-Grænlandi

Hrókurinn og Kalak standa fyrir Air Iceland Connect-Vetrarhátíð í Tasiilaq og Kulusuk á Grænlandi dagana 13.-20. nóvember. Tasiilaq sem er höfuðstaður Austur-Grænlands hefur verið mjög í fréttum á árinu vegna hörmulegs ástands í málefnum barna á svæðinu og margvíslegra félagslegra vandamála. Markmiðið með vetrarhátíðinni er að skapa gleðistundir á Austur-Grænlandi, en jafnframt munu leiðangursmenn hitta bæjarbúa og ræða leiðir til að auðga mannlífið hjá þessum næstu nágrönnum Íslendinga.

Leiðangursmenn eru Hrafn Jökulsson og Stefán Herbertsson. Hrafn hefur leitt skáklandnám Hróksins á Grænlandi frá upphafi árið 2003 auk þess að vera virkur í starfi Kalak, vinafélags Íslands og Grænlands. Stefán er fv. formaður Kalak og upphafsmaður hins árlega sundkrakkaverkefnis, en þá er 11 ára börnum frá austurströndinni boðið til Íslands til að læra sund og kynnast íslensku samfélagi.

Hrafn og Stefán munu m.a. heimsækja grunnskólann, leikskólann, dvalarheimili aldraðra, sjúkrahúsið og fangelsið í Tasiilaq. Þá verða heimsótt heimili fyrir börn, sem ekki geta dvalið hjá fjölskyldum sínum, m.a. Prinsesse Margarethes Börnehjem og PITU-heimilið. Ennfremur munu leiðangursmenn funda með fulltrúum Rauða kross deildarinnar í Tasiilaq, en Hrafn ánafnaði hluta af móðurarfi sínum til starfsemi deildarinnar.

Austur-Grænlendingar hafa lengi glímt við stórfelld vandamál á mörgum sviðum. Á gjörvallri austurströndinni búa aðeins rúmlega þrjú þúsund manns, langflestir á Ammassalik-svæðinu. Miðpunktur er Tasiilaq með tvö þúsund íbúa, en í grenndinni eru fimm þorp, m.a. Kulusuk. Atvinnuleysi á þessu svæði er yfir 20%, eða um þrefalt meira en í höfuðborginni Nuuk, og lífskjör eru helmingi lakari en í Nuuk. Austur-Grænlendingar eru í raun sérstök þjóð, með eigið tungumál, sögu og menningu, enda komust þeir ekki í kynni við umheiminn fyrren árið 1885.

Ástandið í skólamálum er ekki gott, einkum vegna þess að börn á Austur-Grænlandi fá námsefni á vestur-grænlensku, sem er þeim framandi. Þetta má bera saman við að börn á Íslandi fengju námsefni frá fyrsta degi á öðru tungumáli. Þetta veldur því m.a. að einkunnir barna á Tasiilaq-svæðinu eru mun lægri en á landsvísu, og sárafá ungmenni halda áfram námi eftir að skólaskyldu lýkur. Þá líða mörg börn fyrir vanrækslu og misnotkun, og kannanir umboðsmanns barna á Grænlandi hafa leitt í ljós að mörg börn á svæðinu fara svöng í háttinn. Síðast en ekki síst vekja tíð sjálfsvíg ungmenna á þessum stað óhug. Hvergi í heiminum eru sjálfsvíg tíðari en á Grænlandi, og hvergi á Grænlandi algengari en á austurströndinni.

Hrókurinn og Kalak hafa fyrst og fremst að leiðarljósi að auka samvinnu Íslendinga og Grænlendinga á sem flestum sviðum, sérstaklega þeim sem lúta að hagsmunum barna. Grannþjóðirnar í norðri geta margt hvor af annarri lært, þegar vinátta og virðing eru í fyrirrúmi. Þetta er sjöunda ferð Hróksins og Kalak til Grænlands það sem af er ári. Hátíðir hafa verið haldnar í Tasiilaq, Kulusuk, Ittoqqortoormiit, Nuuk, Kullorsuaq og Upernavik. Í desember verða skák- og sirkushátíðir í Nuuk og Uummannaq, og að vanda lýkur starfsárinu með því að Stekkjarstaur skutlast til Kulusuk með gjafir handa öllum börnum í þorpinu.

Horft yfir Tasiilaq, höfuðstað Austur-Grænlands, að sumarlagi.

Skák er skemmtileg. Kátir krakkar á skákhátíð í Tasiilaq í ágúst.

Sleðahundur stendur vaktina í Tasiilaq.

Stefán Herbertsson, burðarás í starfi Hróksins og Kalak.

Hrafn Jökulsson ásamt grænlenskum skákmeistara í Kullorsuaq í ágúst 2019.

Umræður

ummæli

Um KALAK

KALAK -- Vinafélag Íslands og Grænlands   Pósthólf 8164 128 Reykjavík Netfang: kalak@kalak.is   Upplýsingar um starf KALAK: Stefán Herbertsson formaður, sími 898 6311, og Hrafn Jökulsson stjórnarmaður í KALAK, sími 763 1797   Viltu styðja starf KALAK? Bankareikningur: 0322-26-2082 Kennitala: 430394-2239
x

Við mælum með

Vel heppnuð hátíð Hróksins og Kalaks laugardaginn 6. júní

Það var vel heppnaður dagur í pakkhúsinu í dag, laugardaginn 6. júní, þar sem mætti ...