Ekki missa af þessu

Vinátta í verki: 12 milljónir á þremur dögum

12 milljónir króna hafa safnast á fyrstu þremur dögunum í landssöfnuninni ,,Vinátta í verki” sem Hjálparstofnun kirkjunnar, í samvinnu við Kalak og Hrókinn, efndu til eftir hamfarirnar á Grænlandi um síðustu helgi. Fjórir létust, eitt þorp er í rústum, og tvö önnur voru rýmd vegna hættuástands sem enn stendur. 200 eru nú án heimilis, og eru flestir flóttamenn í Uummannaq, stóra bænum á þessu svæði.

Viðtökur við söfnuninni hafa verið frábærar frá fyrstu stundu, þótt engu sé kostað í auglýsingar, kynningarmál eða nokkuð. Hrafn Jökulsson, talsmaður ,,Vináttu í verki”, sagði að hver einasta króna sem inn kemur, ætti að skila sér óskert til Grænlands, og í þágu þeirra sem verst urðu úti.

Stærsta framlagið til þessa kom frá Reykjavíkurborg. Borgarráð samþykkti á fundi sínum í dag að veita 4 milljónum til landssöfnunarinnar, og var algjör samstaða um þetta rausnarlega framlag. Skipuleggjendur ,,Vináttu í verki” vonast til að öll önnur sveitarfélög á Íslandi, 73 talsins, taki þátt í að senda Grænlendingum sterk skilaboð um samstöðu og stuðning.

ASÍ sendi frá sér yfirlýsingu í dag um 500.000 króna framlag í söfnunina. Jafnframt voru verkalýðsfélög hvött til að taka þátt í söfnuninni.

Skipuleggjendur ,,Vináttu í verki” biðla til íslenskra fyrirtækja að taka hressilegan þátt í að senda vinarkveðju til Grænlendinga, allt eftir efnum og ástæðum. Lítil fyrirtæki og einyrkjar eru meðal þeirra fjölmörgu sem þegar hafa lagt inn á söfnunarreikninginn, rétt einsog Air Iceland Connect gerði með milljón króna framlagi — sem vonandi verður öðrum fyrirtækjum hvatning til að sýna rausnarskap.

Landssöfnunin hefur vakið gríðarlega athygli á Grænlandi, og ljóst að nágrannar okkar eru djúpt snortnir yfir þeim stuðningi og kærleika sem streymir frá nágrönnum þeirra og vinum á Íslandi og Færeyjum.

Grænlenskir fjölmiðlar fylgjast með af áhuga og á grænlenskum Facebook-síðum rignir fallegum kveðjum og þakkarorðum til Íslendinga.

Reikningsnúmer landssöfnunarinnar: 0334-26-056200 – Kennitala 450670-0499

Þá er hægt að hringja í 907-2003 og leggja þannig til 2.500 krónur.

Höldum áfram að dreifa og boða fagnaðarerindi vináttu í verki!

Umræður

ummæli

Um KALAK

KALAK -- Vinafélag Íslands og Grænlands   Pósthólf 8164 128 Reykjavík Netfang: kalak@kalak.is   Upplýsingar um starf KALAK: Stefán Herbertsson formaður, sími 898 6311, og Hrafn Jökulsson stjórnarmaður í KALAK, sími 763 1797   Viltu styðja starf KALAK? Bankareikningur: 0322-26-2082 Kennitala: 430394-2239
x

Við mælum með

Vel heppnuð hátíð Hróksins og Kalaks laugardaginn 6. júní

Það var vel heppnaður dagur í pakkhúsinu í dag, laugardaginn 6. júní, þar sem mætti ...