Ekki missa af þessu

Vinátta í verki: 6,5 milljón á tveimur dögum

Sigurður R. Pétursson formaður styrktarsjóðs Kiwanis og Hrafn Jökulsson.

Sex og hálf milljón króna hafa safnast á fyrstu tveimur dögunum í landssöfnuninni ,,Vinátta í verki” og eru skipuleggjendur í skýjunum með frábæra byrjun. Það sem safnast hefur til þessa er að langmestu leyti frá einstaklingum sem hafa lagt inn á söfnunarreikninginn eða hringt í styrktarsímann. Stærsta framlagið til þessa er frá Air Iceland Connect, ein milljóna króna, og Styrktarsjóður Kiwanis lagði fram 500.000 kr.

Bjarni Gíslason framkvæmdastjóri Hjálparstofnunar kirkjunnar segir byrjunina fram úr allra björtustu vonum, og að aldrei hafi svo margir hringt í styrktarsímann á jafn skömmum tíma í fyrri söfnunum.

Forseti Íslands og biskup eru meðal þeirra fjölmörgu sem heita á landsmenn að sýna vináttu í verki. Guðni Th. Jóhannesson forseti sendi skipuleggjendum svohljóðandi orðsendingu:

Um leið og ég votta okkar góðu vinum og nágrönnum á Grænlandi innilega samúð á erfiðum tímum, fagna ég því að Íslendingar sýni samhug í verki. Ég hvet alla, sem geta, til að taka þátt í landssöfnun Hjálparstarfs kirkjunnar og Grænlandsvina.

Agnes Sigurðardóttir biskup hefur sent öllum prestum og söfnuðum landsins hvatningu um að taka þátt í landssöfnuninni, svo Grænlendingar megi finna að Íslendingar eru vinir í raun.

Hrafn Jökulsson talsmaður ,,Vináttu í verki” segir að landssöfnunin sé rétt að hefjast:

Viðbrögð almennings eru stórkostleg og til marks um að hamfarirnar á Grænlandi snerta Íslendinga djúpt. Það var svo á við heila vítamínsprautu að fá milljón í heilu lagi frá vinum okkar hjá Air Iceland Connect og ég er snortinn yfir rausnarskap styrktarsjóðs Kiwanis. En ég er beinlínis hrærður yfir öllum framlögunum frá einstaklingum, sem sannar hið fornkveðna, að margt smátt geri eitt stórt.

Hrafn segir að vilyrði hafi þegar borist frá fyrirtækjum og sveitarfélögum um myndarleg framlög í landssöfnunina, sem og frá klúbbum og félagasamtökum. Markmiðið sé að láta Grænlendinga finna að þeir eigi vináttu og stuðning Íslendinga vísan.

Þannig eru góðir nágrannar. Íslendingar hafa ekki gleymt því þegar Grænlendingar efndu til landssöfnunar eftir snjóflóðin ógurlegu á Flateyri. Nú skulum við senda kærleikskveðju yfir hafið.

—–

Reikningsnúmer Hjálparstarfs kirkjunnar: 0334-26-056200
Kennitala 450670-0499

Þá er hægt að hringja í 907-2003 og leggja þannig til 2.500 krónur.

Umræður

ummæli

Um KALAK

KALAK -- Vinafélag Íslands og Grænlands   Pósthólf 8164 128 Reykjavík Netfang: kalak@kalak.is   Upplýsingar um starf KALAK: Stefán Herbertsson formaður, sími 898 6311, og Hrafn Jökulsson stjórnarmaður í KALAK, sími 763 1797   Viltu styðja starf KALAK? Bankareikningur: 0322-26-2082 Kennitala: 430394-2239
x

Við mælum með

Vel heppnuð hátíð Hróksins og Kalaks laugardaginn 6. júní

Það var vel heppnaður dagur í pakkhúsinu í dag, laugardaginn 6. júní, þar sem mætti ...