Ekki missa af þessu

Vinátta í verki komin yfir 30 milljónir: Safnað á Flateyri, Grímsey, Árneshreppi og víðar

Landssöfnunin Vinátta í verki, vegna hamfaranna á Grænlandi gengur framar öllum vonum skipuleggjenda. Á aðeins tólf dögum hafa safnast vel yfir 30 milljónir króna, með framlögum frá þúsundum einstaklinga, fyrirtækja, klúbba og félaga. Þjóðarsamstaða hefur myndast um að Íslendingar sendi næstu nágrönnum og vinum kærleikskveðju á tímum sorgar og óvissu.

Fjórir fórust og gríðarlegt eignatjón varð, þegar flóðalda gekk yfir smáþorpið Nuugaatsiaq, aðfararnótt 18. júní. Kim Kielsen forsætisráðherra Grænlands hefur nú lýst því yfir að Nuugaatsiaq verði mannlaust, að minnsta kosti í eitt ár. Grunnskóli þorpsins, rafstöðin og verslunin voru meðal þeirra bygginga sem aldan ógurlega hrifsaði til sín, auk einbýlishúsanna. Íbúarnir, sem voru innan við hundrað, eru flestir í Uummannaq, 1400 manna bæ í grenndinni, og er vel um alla hugsað.

 

Mánudaginn 19. júní tóku Hjálparstarf kirkjunnar, Kalak og Hrókurinn höndum saman um landssöfnunina Vinátta í verki, til að senda strax skilaboð til vina okkar á Grænlandi, að Íslendingum ættu þeir vini í raun. Jafnframt var ákveðið að ekki krónu yrði varið í auglýsingar eða kostnað, heldur færi hver einasta króna óskipt til Grænlands.

Fénu verður farið í þágu íbúa Nuugaatsiaq, í samvinnu við fólkið sjálft, sveitarfélagið og þá aðila sem munu hjálpa fórnarlömbunum að byggja upp líf sitt að nýju.

Strax í upphafi sló Vinátta í verki öll fyrri met í söfnunum Hjálparstarfs kirkjunnar í framlögum einstaklinga.

Reykjavíkurborg og Borgarbyggð brugðust samstundis við, sem og Árneshreppur, Djúpivogur, Grýtubakkahreppur, Hafnarfjörður, Hornafjörður, Kópavogur, Mýrdalshreppur, Skagaströnd og Ölfus (sjá kort). Halldór Halldórsson formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur skorað á öll sveitarfélög að mynda kærleikskeðju um allt land, og minnt á landssöfnunina á Grænlandi, þegar snjóflóðið ógurlega féll á Flateyri.

Síðastliðinn fimmtudag hóf björgunarsveitin á Flateyri söfnun í þágu íbúa Nuugaatsiaq og skorar á Flateyringa um allan heim að sýna nú þakklæti og vináttu í verki. Söfnunarféð verður afhent fulltrúum Vináttu í verki á Flateyri á sunnudag kl. 15.

Grímseyingar finna til samkenndar með eyjarskeggjum í litlu þorpi, og í dag bárust fréttir um 50.000 kr. framlag frá kvenfélaginu og 150.000 frá Kiwanis-klúbbnum. Sannarlega höfðinglegt framlag frá fámennu samfélagi.

Söfnun er jafnframt hafin í Árneshreppi, fámennasta sveitarfélagi landsins, undir stjórn barnanna í sveitinni, og fólk og félög víða um land eru að skipuleggja sérstakar safnanir eða viðburði. Skipuleggjendur Vináttu í verki hvetja landsmenn til að sýna frumkvæði og hefja sérstakar safnanir í sem flestum sveitarfélögum, samtökum og fyrirtækjum. Upphæðir eru algjört aukaatriði: Markmiðið er að mynda þjóðarsamstöðu um kærleikskveðju til nágranna í sorg.

Tafarlaus og kærleiksrík skilaboð Íslendinga og Færeyinga, hafa verið eins og ljósgeisli gegnum það myrkur sem lagðist yfir Grænland eftir harmleikinn í Nuugaatsiaq.

Landssöfnunin Vinátta í verki mun halda áfram af fullum krafti næstu vikuna a.m.k. en markmiðið er að safna 50 milljón krónum. Hrafn Jökulsson mun sem fyrr helga þessu verkefni í sjálfboðavinnu, en hverfa úr hlutverki talsmanns og helga sig skipulagningu og fjáröflun, í samvinnu við Bjarna Gíslason framkvæmdastjóra Hjálparstarfs kirkjunnar.

Kaali og Íris — talsmenn Vináttu í verki.

Nýir talsmenn Vináttu í verki eru parið Íris Ösp Heiðrúnardóttir, 23 ára frá Ísafirði, starfsmaður Air Iceland Connect, og Karl Ottesen Faurschou, 27 ára frá Qaqortoq, starfsmaður Íslenskra fjallaleiðsögumanna. Þetta unga og myndarlega fólk er framtíð Íslands og Grænlands holdi klædd: ungt og kraftmikið hæfileikafólk með hjörtun á réttum stað og þau slá í takt! Þau munu hér eftir upplýsa fjölmiðla um nýjustu tölur og glaðlega veita allar upplýsingar um Grænland og grænlenskt samfélag.

Hæstu framlög til Vináttu í verki hafa komið frá Reykjavíkurborg, 4 milljónir kr., 2 millj. frá Brim, Eimskip og Kópavogsbæ, 1 millj. frá Air Iceland Connect, Landsvirkjun og Hafnarfjarðarbæ. Þá hafa styrktarklúbbur Kiwanis, Húsasmiðjan, Landsbankinn og Arion banki lagt fram 500 þús.

Opnuð hefur verið heimasíða Vináttu í verki, hönnuð í sjálfboðavinnu af Tómasi Veigari Sigurðarsyni, í samvinnu við Andrés Magnússon sem einnig leggur Vináttu í verki lið endurgjaldslaust, líkt og svo ótal margir.

Íris Ösp og Kaali munu á sunnudag veita framlagi Flateyringa viðtöku.

Þá verður jafnframt tilkynnt um safnanir sem eru að hefjast meðal íbúa í fleiri byggðarlögum.

Nánari upplýsingar glaðlega veittar

Talsmenn Vináttu í verki:

  • Íris Björk 845 1876
  • Karl Ottesen Faurschou: 783 1293

Hrafn Jökulsson, skipuleggjandi Vináttu í verki: 763 1797

Bjarni Gíslason framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar: 528 4402

 

Reikningsnúmer Vináttu í verki:

  • 0334-26-056200
  • Kennitala 450670-0499

Þá er hægt að hringja í 907-2003 og leggja þannig til 2.500 krónur.

Umræður

ummæli

Um KALAK

KALAK -- Vinafélag Íslands og Grænlands   Pósthólf 8164 128 Reykjavík Netfang: kalak@kalak.is   Upplýsingar um starf KALAK: Stefán Herbertsson formaður, sími 898 6311, og Hrafn Jökulsson stjórnarmaður í KALAK, sími 763 1797   Viltu styðja starf KALAK? Bankareikningur: 0322-26-2082 Kennitala: 430394-2239
x

Við mælum með

Vel heppnuð hátíð Hróksins og Kalaks laugardaginn 6. júní

Það var vel heppnaður dagur í pakkhúsinu í dag, laugardaginn 6. júní, þar sem mætti ...