Ekki missa af þessu

Mikilvægi Grænlands

Greinarhöfundur ásamt Jonathan Motzfeldt fyrsta forsætisráðherra Grænlands og Kolbrúnu Bergþórsdóttur á skákhátíð í Qaqortoq 2003.

Eftir Össur Skarphéðinsson

Greinin birtist í DV 28. mars 1998 í tilefni af útgáfu hinnar merku bókar Helga Guðmundssonar, Um haf innan.

Á Grænlandi urðu til tvær íslenskar nýlendur í kjölfar þess að róstuseggurinn Eiríkur rauði Þorvaldsson og ættbogi hans gerði Brattahlíð að höfuðbóli sínu fyrir árið 1000. Báðar voru staðsettar á austurströnd Grænlands. Hin syðri hét Vestribyggð en um 500 kílómetrum norðar lá Eystribyggð. Hófsamir fræðimenn telja að þegar flest var Íslendinga á Grænlandi hafi þeir talið verið 4-6000 manns.

Glatkista sögunnar

Byggð norrænna manna virðist hafa blómstrað fyrstu aldirnar á Grænlandi, enda landkostir góðir og einstakar auðlindir.

Hundruð híbýlarústa norrænna manna eru þekktar á Grænlandi, fæstar rannsakaðar til hlítar. Þær sýna að snemma á ferli nýlendnanna var furðulega stórbýlt hjá Íslendingunum. Rústir fjósa sem rúmuðu allt að 50 kýr hafa fundist.

Leifar veglegustu bygginga landnemanna í Grænlandi sýna að þær standast að stærð fyllilega samjöfnuð við híbýli konunga í nyrðri hluta Evrópu á þeim tíma.

Fatnaður á líkum norrænna manna í kirkjugörðum nýlendnanna birtir evrópska fatatísku er sýnir að þeir voru lífs fram undir lok fimmtándu aldarinnar. Það ásamt öðru sannar að nýlendurnar hjörðu því ótvírætt að minnsta kosti framundir 1500. Afdrif þeirra eru ókunn.

Hvarf norrænu mannanna á Grænlandi er liklega mesti harmleikurinn í samanlagðri sögu Norðurlandanna. Með vissum hætti er það líka harmsefni hversu íslandssagan hefur algerlega gleymt grænlenskum frændum okkar sem á frera Grænlands hurfu óbættir inn í móðuna.

Um haf innan

Grænland og Ísland hafa lengi tengst sterkum böndum.

Nú hefur loks stigið fram fræðimaður sem með einni bók hefur rifið Grænland á verðskuldaðan stað inn í miðju Íslandssögunnar. Það er Helgi Guðmundsson, málfræðingur, sem á síðasta ári sendi frá sér ritið Um haf innan. Það er eitthvert merkilegasta rit sem lengi hefur komið út hér á landi.

Bókin fjallar um ýmis áhrif sem hingað komu vestan um haf. Hún á efalítið eftir að verða meðal sígildra höfuðrita um rannsóknir á landnámi Íslands og kringumstæðunum sem leiddu til samningu burðarrita Íslendingasagnanna. Í ritinu er nefnilega að finna byltingarkennda sýn á mikilvægi Grænlands fyrir ritmenningu Íslands.

Kenning Helga

Svona gæti farmur frá Grænlandi hafa litið út á miðöldum.

Helgi Guðmundsson færir rök að því að íslendingar hafl stundað verslun við nýlendurnar í Grænlandi allt fram á miðja þrettándu öld. Þeir hafi haldið úti kaupskipum til að kaupa af þeim margskonar torgætan og dýrmætan varning, sem þeir hafi flutt til Evrópu og selt á margföldu verði.

Ísland hafi þannig verið einskonar umskipunarhöfn fyrir grænlenskan varning, og verslunin með hann úti í löndum

Evrópu hafi leitt til mikils hagnaðar Íslendinga.

Þetta ríkidæmi, segir Helgi, gerði Íslendingum mögulegt að standa straum af þeim mikla kostnaði sem stafaði af gerð handritanna.

Á skipi einsog þessu sigldu hugdjarfir kaupmenn til Grænlands enda mikils hagnaðar að vænta. En margt farskipið hvarf í djúpið.

Þannig voru nýlendur Íslendinga á Grænlandi í bókstaflegum skilningi forsenda þess að ritmenning á Íslandi þróaðist með þeim hætti sem varð.

Höfundurinn bendir ennfremur á að miðstöð Grænlandsverslunarinnar stóð á Vesturlandi, aðallega við Breiðafjörð þaðan sem Eiríkur rauði fór upphaflega til Grænlands. Fram á miðja þrettándu öld, meðan verslunin var við lýði, voru íslensk rit einkum samin á vestanverðu landinu, á svæðinu frá Odda í suðri að Þingeyrum í norðri. Milli verslunararðsins á Vesturlandi og ritunar handritanna voru því bein tengsl.

Erlendir straumar

Eiríks saga rauða. Sagnaritun Íslendinga blómstraði vegna arðs af Grænlandsverslun.

Kenning Helga er þó enn margbrotnari og fegurri. Hann getur þess að smám saman sé að koma í ljós að mjög mikið hafi verið til af erlendum bókum í landinu á þessum tíma. Skrá yfir eignir klaustursins i Helgafelli sýnir til dæmis að fjórtán árum eftir stofnun þess, eða árið 1186, hafi verið í eigu þess yfir hundrað bækur.

Áhrif erlendrabóka á innlenda sagnaritun voru jafnframt meiri en menn hafa skilið. Því til staðfestu nefnir Helgi m.a. hinn fræga kafla Íslendingabókar þar sem getið er um bagla, bækur og bjöllur sem papar skildu eftir og rekur til erlendra texta.

Hvaðan komu erlendar bækur til landsins á þessum tíma? Svarið teygir sig í raun til Grænlands köldu kletta. Þær komu nefnilega með skipunum, sem fluttu grænlenska varninginn til Björgvinjar og Staðar í Noregi, Dyflinnar á Írlandi auk hafna í Frakklandi og víðar.

Skipin tóku líka efnispilta sem rikismenn sendu utan til mennta. Þannig leiðir Helgi getum að því að Sæmundur fróði Sigfússon hafi farið með slíku skipi til náms, og fært heim franska hámenningu frá fræðasetrinu í Anjou.

Hvítabirnir og svörður

Tennur rostungsins voru mikils virði og húðin var notuð í sterkustu reipi sem völ var á.

Hin frábæra kenning Helga skýrir því hvernig verslun við Grænland skapaði auðinn sem stóð undir gerð handritanna og bjó jafnframt til farveg fyrir erlenda menningarstrauma. Hvorutveggja var forsenda þess að ritmenning náði hér að þróast með þeim hætti sem varð.

Mjög dýrmætur varningur fékkst í Grænlandi í formi tanna rostungsins, sem Íslendingarnir skáru úr töfl sem seld voru dýrum dómum. Reipi úr sverði, skinni rostungsins, voru einnig eftirsótt í skipsreiða. Ógetið er þá felda hvítabjarna sem seldust dýrum dómum. Hvítir veiðifálkar voru einnig meðal útflutningsins á þessum tíma.

Haus af bagli úr rostungstönn, frá 1050-1100.

Í Jarteinabók Þorláks helga er greint frá húnagildrum. Leifar þeirra er enn að finna í Grænlandi. Lifandi, tamdir hvítabirnir voru nefnilega virði þyngdar sinnar í silfri. Heimildir eru til um þá á miðöldum við hirðir konunga og keisara í Evrópu og allt suður til norðurafrískra soldána.

Þessar vörur voru mjög eftirsóttar og skiluðu geysilegum hagnaði til íslensku og orkneysku kaupmannannna sem stunduðu verslunina með þær.

Tönn náhvalsins

Náhvalstennur voru konungsgersemi.

Langdýrasti varningurinn voru þó líklega tennur náhvelanna. Ein tanna hvalsins stendur 2-3 metra fram úr efra skolti og var öldum saman álitin horn goðsagnaverunnar sem nefnd var einhyrningur. Um hana segir í Konungsskuggsjá:

„Hún er fögur og vel vaxin og svo rétt sem laukur. Hún er sjö álna löng, sú er lengst kann að verða, og snúin öll svo sem hún sé með tólum ger.”

Dýrleiki tannanna var ótrúlegur. Á fimmtándu öld var útskorin tönn

Einhyrningurinn var goðsagnavera. Náhvalstennur voru seldar fyrir himinháar upphæir sem einhyrningshorn — og stóðu þannig undir sagnaritun Íslendinga!

náhvelis í eigu auðkýfings í Flórens metin á meira en fimmtán kíló gulls!

Náhvelin veiddust hins vegar aðeins norðan heimsskautsbaugs. Helgi telur að þangað hafi norrænu Grænlendingarnir haldið til að veiða náhvelið eða kaupa tennur þess af inuítum.

Vaðmálsbúturinn

L’ance aux Meadows á norðurodda Nýfundnalands. Þar voru norrænir menn, líklega grænlenskir, á ferð fyrir þúsund árum.

Norsk-kanadískur leiðangur var um 1980 að kanna fornminjar inúíta á Bache skaga á Ellesmere eyju langt norðan heimsskautsbaugs. Á þessum slóðum voru helstu vöður náhvelanna að vorlagi. í rústunum fundust munir af evrópskum uppruna. Þar á meðal bútur af kápu úr grófu vaðmáli.

Danskir sérfræðingar röktu hann til sérkennilegs vaðmáls sem aðeins var ofið í Vestribyggð. Munirnir, ekki síst vaðmálið úr Vestribyggð, sýnir að úr byggðum norrænna manna á Grænlandi fóru menn þúsundir kílómetra í norður og jafnvel yfir til Kanada til að kaupa hinar dýru tennur náhvela.

Þetta skýtur stoð úr óvæntri átt undir kenningu Helga Guðmundssonar. Hann hefur sýnt fram á að nýlendur Íslendinga á Grænlandi voru ekki afgangsstærð í Íslandssögunni, heldur ein af þungamiðjum hennar. Án þeirra hefði ritmenning okkar ekki þróast með þeim hætti og gerðist. Sjálfsmynd okkar væri því önnur í dag hefði Grænlands ekki notið við.

Umræður

ummæli

Um Hrafn Jökulsson

x

Við mælum með

Staðreyndir um Grænland

Íbúar Grænlands eru upprunalega frá Mið-Asíu. Landið tilheyrir heimsálfunni Norður-Ameríku, en frá hreinum landfræðipólitískum sjónarhóli ...