Á hverjur ári býður KALAK, í samvinnu við Hrókinn, Flugfélag Íslands, Kópavogsbæ, Menntamálaráðuneyti og fjölmörg fyrirtæki og einstaklinga 11 ára börnum frá litlu þorpunum á Austur-Grænlandi til tveggja vikna dvalar á Íslandi.
Með börnunum kemur fylgdarlið kennara og hópurinn dvelur hér í rúmar 2 vikur. Aðaltilgangur ferðarinnar er að kenna börnunum sund, kynna þau fyrir jafnöldrum og íslensku samfélagi. Engar sundlaugar eru á Austur-Grænlandi og því um mjög mikilvægt verkefni að ræða, sem skilað hefur góðum árangri.
Fyrsti hópurinn kom til Íslands 2006 frá Kulusuk, Kuummiut, Sermiligaaq, Tinieqilaq og Isertoq, sem öll eru á hinu svokallaða Ammassalik-svæði. Nokkrum árum síðar bættust börnin í Ittoqqortoormiit í Scoresby-sundi.
Haustið 2015 kom ellefti hópurinn til Íslands, en alls hafa um 300 grænlensk börn komið hingað í boði KALAK og félaga.
Árangurinn af sundkennslunni er frábær. Langflest fara börnin héðan flugsynd og belgfull af góðum minningum, því heimsókn þeirra snýst alls ekki bara um sundið.
Við eru í frábærri samvinnu við grunnskóla Kópavogs, þar sem grænlensk og íslensk börn kynnast og leggja jafnvel drög að lífstíðarvináttu.
Margir leggja sitt af mörkum til að gera dvöl barnanna sem ánægjulegasta. Þannig eru þau langflest að fara í bíó og leikhús í fyrsta sinn, þau heimsækja Húsdýragarðinn og Skautahöllina, Alþingi og Bessastaði, fara í útivistarferð í Heiðmörk og skoða Gullna hringinn, fara á hestbak og eru boðin í veislu hjá Hróknum, sé nokkuð sé nefnt af því sem gestir okkar haustið 2016 tóku sér fyrir hendur.
Haustið 2017 kemur tólfti hópur grænlenskra barna til Íslands á vegum KALAK og félaga.
Við erum afar þakklát öllum sem styðja þetta verkefni.
Viltu styðja KALAK vegna heimsóknar grænlensku barnanna haustið 2017 eða ganga í félagið? Smelltu hér.