Ekki missa af þessu

Sundkennsla 11 ára grænlenskra barna

Undanfarna viku hefur hópur 11 ára barna frá litlu þorpunum á Austur-Grænlandi dvalið á Íslandi ásamt kennurum og fylgdarliði. Þetta er fjórtánda árið í röð sem Kalak, vinafélag Grænlands og Íslands býður fimmtu bekkingum hingað til að læra sund og kynnast íslensku samfélagi. Engar sundlaugar eru á Austur-Grænlandi en langflest fara börnin flugsynd frá Íslandi eftir tveggja vikna dvöl. Fæst hafa börnin áður komið til annarra landa og upplifa marga spennandi hluti í fyrsta sinn á ævinni.

Heimsókn grænlensku barnanna er stærsta verkefni Kalak árlega og hefur gengið framúrskarandi vel frá upphafi. Alls hafa yfir 300 grænlensk börn komið hingað í sundkennslu sl. fjórtán ár. Þau njóta handleiðslu hinna þrautreyndu sundkennara Haraldar Erlendssonar og Guðrúnar Eiríksdóttur og fer kennslan fram í Salalaug, að morgni og eftir hádegið. Þess á milli eru grænlensku börnin með jafnöldrum sínum í Vatnsendaskóla en Kópavogsbær hefur verið meðal helstu bakhjarla verkefnisins frá upphafi, auk menntamálaráðuneytis og Air Iceland Connect.

Á gjörvöllu Austur-Grænlandi eru aðeins sex þorp, auk höfuðstaðarins Tasiilaq þar sem um tvö þúsund manns búa. Flest eiga litlu þorpin undir högg að sækja og fólki fer þar ört fækkandi. Framboð á afþreyingu er annað en íslensk börn eiga að venjast: það var stór stund í lífi barnanna þegar þau fóru á bíó í fyrsta sinn á ævinni og sáu Angry Bird í boði Smárabíós og voru síðan boðin í Skemmtigarðinn í Smáralind. Það var ekki síður mikil upplifun að fara í leikhús í fyrsta sinn en Þjóðleikhúsið bauð börnum og fylgdarliði á Ronju ræningjadóttur.

Margt fleira skemmtilegt er á dagskrá grænlensku barnanna. Þannig stóð Haraldur sundkennari að vanda fyrir því að hópnum var boðið í Gullna hringinn og þáðu þau veitingar á Geysi og hjá KFC á Selfossi. Á leiðinni í bæinn var svo komið við hjá Íslenska hestinum sem mörg undanfarin ár hafa boðið grænlensku börnunum á hestbak. Engin hræðslumerki var að sjá á krökkunum, þótt ekkert þeirra hefði svo mikið sem séð hest áður.

Á sunnudaginn hélt Hrókurinn hátíð til heiðurs hópnum en félagið hefur frá upphafi stutt verkefni Kalak með ráðum og dáð, enda vinna félögin náið saman að því að efla samskipti Grænlands og Íslands. Hátíðin var haldin í Pakkhúsi Hróksins við Reykjavíkurhöfn og var boðið upp á steiktar pylsur og ljúffengar vöfflur. Hrafn Jökulsson tefldi við börnin og pólska listakonan Marta Straworowska teiknaði sannkölluð listaverk á börnin. Síðast en ekki síst voru þau öll leyst út með gæðalegum böngsum sem Heiðbjört Ingvarsdóttir hafði prjónað skólatöskur og föt fyrir. Þessir velklæddu bangsar eru nú á leiðinni til Grænlands.

Alls dvelja börnin og fylgdarlið á Íslandi í tvær vikur og seinni hálfleikur verður ekki síður skemmtilegur. Í vikunni munu þau meðal annars heimsækja Alþingi og KSÍ, auk þess sem forseti Íslands býður þeim að vanda til móttöku á Bessastöðum. 

Fjölmargir einstaklingar og fyrirtæki leggja sundkrakkaverkefninu lið. Auk þeirra sem að ofan er getið má nefna MS, Íslenskt grænmeti, Kjarnafæði, Bakarameistarann, Brim hf. og Dominos sem leggja til matvæli, auk þess sem sjálfboðaliðar Kalak annast eldamennsku fyrir hópinn.

Helsti umsjónarmaður verkefnisins er Stefán Herbertsson fv. formaður Kalak sem einmitt átti hugmyndina að þessu gefandi og árangursríka verkefni fyrir fimmtán árum en aðrir stjórnarmenn og Hróksliðar leggja líka sitt af mörkum.

Fölskvalaus gleði meðal barna og fullorðinna við sundkennsluna.

Eftir vikudvöl heimsóttu börnin Pakkhús Hróksins í Reykjavík þar sem þau fengu fallega bangsa að gjöf. 

Það skín gleði úr hverju andliti í allri ferðinni.

Skyndihjálparnámskeið hjá Rauða krossi Íslands.

Skákgleði í Pakkhúsi Hróksins.

Pólska listakonan Marta Straworowska að teikna listaverk á börnin.

Sátt með bangsann sinn.

Listaverk eftir Mörtu Straworowsku.

Að aflokinni vel heppnaðri hestaferð hjá Íslenska hestinum.

Það er upplifun fyrir sum börnin að fara með rútu og strætó.

Börnin stunda nám með íslenskum jafnöldrum sínum í Vatnsendaskóla.

Umræður

ummæli

Um KALAK

KALAK -- Vinafélag Íslands og Grænlands   Pósthólf 8164 128 Reykjavík Netfang: kalak@kalak.is   Upplýsingar um starf KALAK: Stefán Herbertsson formaður, sími 898 6311, og Hrafn Jökulsson stjórnarmaður í KALAK, sími 763 1797   Viltu styðja starf KALAK? Bankareikningur: 0322-26-2082 Kennitala: 430394-2239
x

Við mælum með

Vel heppnuð hátíð Hróksins og Kalaks laugardaginn 6. júní

Það var vel heppnaður dagur í pakkhúsinu í dag, laugardaginn 6. júní, þar sem mætti ...