Ekki missa af þessu

Ævintýraferð grænlenskra barna til Íslands

EFTIR HRAFN JÖKULSSON

MYNDIR: VERA PÁLSDÓTTIR

Miðvikudaginn 29. ágúst 2016 kl. 17:52 lenti vél Flugfélags Íslands á Reykjavíkurflugvelli, eftir tveggja stund frá Kulusuk á Grænlandi. Á sumrin má tala um loftbrú milli Reykjavíkur og Kulusuk, þangað þyrpast erlendir túristar í dagsferðir til að drepa niður fæti á stærstu eyju heimsins og rölta um litla þorpið þar sem íbúar eru innan við 300.

En ferðalangarnir sem voru að koma frá Kulusuk þennan miðvikudag voru ekki þrautreyndir túristar með gullkort: Þetta voru 22 börn og fimm kennarar frá örlitlu þorpunum á Ammassalik-svæðinu: Kulusuk, Sermiligaaq, Tiniteqilaq, Kuummiiut og Isortoq. Daginn áður höfðu þrjú börn og einn kennari komið með vél Norlandair frá Ittoqqortoormiit til Akureyrar og þaðan til Reykjavíkur.

Þetta voru sundbörnin okkar árið 2016. Ellefti árgangur 11 ára barna frá litlu þorpunum á austurströndinni, kominn í tveggja vikna heimsókn til að læra sund, kynnast íslensku samfélagi og gera ótalmargt skemmtilegt. Enda skein eftirvænting og spenna úr augunum þegar þau röðuðu sér upp til myndatöku á Reykjavíkurflugvelli, langflest að komu úr sinni fyrstu ferð með flugvél, næstum öll komin til útlanda í fyrsta sinn.

Svo nálægt og samt svo fjarlægt

Í hugum margra Íslendinga er Grænland fjarlægur og framandi heimur. Ég þekki ýmsa sen ferðast hafa um flestar heimsins koppagrundir, en aldrei til Grænlands komið. Og þó er þetta okkar næsti nágranni: Frá Straumnesi að Nansen-höfða eru 320 kílmetrar. Bein loftlína milli Reykjavíkur og Egilsstaða er 375 kílómetrar.

Lítum nú aðeins á Austur-Grænland, áður en lengra er haldið. Á hinna óralöngu strandleggju eru aðeins tveir byggðakjarnar. Annars vegar á Ammassalik-svæðinu, sem margir kannast við úr veðurfréttum. Þar er Tasiilaq stóri bærinn og réttnefndur höfuðstaður Austur-Grænlands með sína 2000 íbúa. Í grennd við Tasiilaq eru svo þorpin fimm sem gestir okkar koma frá. Þetta svæði er á hér um bil sömu breiddargráðu og til dæmis Ísafjörður. Þúsund kílómetrum norðar lúrir svo þorpið Ittoqqortoormiit við Scoresby-sund, afskekktasta þorp Grænlands, á 70. breiddargráðu.

Samtals eru íbúar Austur-Grænlands innan við fjögur þúsund, og þeir eru í raun veru sérstök þjóð. Þar er talað tungumál sem er gjörólíkt þeirri grænlensku sem við getum kallað ríkismálið. (Önnur örþjóð, um þúsund manns býr, svo óralangt í norðri á vesturströndinni, á svæði sem fyrrum var kennt við Thule.)

Þegar börnin á Austur-Grænlandi byrja í skóla fá þau námsbækur á ríkismálinu, sem mætti bera saman við að íslensk börn yrðu að sætta sig við námsefni á til dæmis hollensku. Talsvert margir af kennurunum eru ekki frá Grænlandi og skilja hvorugt tungumálið. Þrátt fyrir þessar absúrd aðstæður vinnur skólafólk á austurströndinni eins gott starf og hægt er að gera kröfu um.

Íbúar á Austur-Grænlandi búa við lífskjör sem eru flestum Íslendingum framandi. Þar er mikið atvinnuleysi og víða hart í búi, enda hverskyns bætur og félagsleg aðstoð naumt skömmtuð. Þó Grænland sé fullvalda ríki, með eigið þing og ríkisstjórn, eru Grænlendingar ennþá háðir Dönum um árleg fjárframlög. Draumurinn um sjálfstætt Grænland mun alveg áreiðanlega rætast, en tæpast fyrren eftir nokkra áratugi.

Það er ekki margt í boði fyrir börnin á austurströnd Grænlands, samanborið við allt það úrval af afþreyingu, tómstundastarfi og námskeiðum sem við Íslendingar eigum að venjast. Þau geta til dæmis ekki farið í sund — og þeim býðst ekki einu sinni sundkennsla enda engar sundlaugar.

Hugmynd kviknar

Ég hitti Stefán Herbertsson fyrst á sólríkum degi í Tasiilaq, höfuðstað Grænlands, sumarið 2005, þegar skákhátíð Hróksins stóð sem hæst. Þessi rauðbirkni hæglætismaður hafði þá nýlega tekið við formennsku í Kalak, vinafélagi Íslands og Grænlands, af Benedikte Thorsteinsson. Benedikte, jafnan kölluð Bendó, hafði annast skipulagningu fyrsta alþjóðlega skákmótsins í sögu Grænlands, sem Hrókurinn hélt í Qaqortoq 2003, og þar fyrir utan unnið þrotlaust að því að auka samskipti grannþjóðanna á sem flestum sviðum.

Meðan skákmeistarar af öllum stærðum og gerðum léku listir sínar í félagsheimilinu í Tasiilaq sagði Stefán mér að hann hefði fengið hugmynd. Og þetta var mjög góð hugmynd.

Hann hafði komist að því að öllum börnum í 5. bekk í Tasiilaq væri árlega boðið til Danmerkur, m.a. til að læra sund, en börnin úr litlu þorpunum fimm í nágrenninu fengju ekkert slíkt boð, ekki frekar en börnin norður í Scoresby-sundi. Úr þessu vildi Stefán bæta, og hann er maður sem lætur verkin tala. Með aðstoð okkar Hróksmanna og skákþyrstra stúdenta úr HR, og með fulltingi Flugfélags Íslands, Kópavogsbæjar og margra fleiri var fyrsta heimsóknin skipulögð strax árið eftir. Þetta varð upphafið að stórkostlegu ævintýri. Eitt er að fá góða hugmynd. Annað er að hrinda henni í vel heppnaða framkvæmd. Hinn raunverulegi prófsteinn er þó að halda áfram — ár eftir ár.

Stefán hefur nú í ellefu ár borið þetta verkefni á herðum sér, auðvitað með dyggri aðstoð margra, og hann hefur líka orðið einn af helstu skáktrúboðum Hróksins á Grænlandi — ekki margir geta státað því að hafa ferðast á hundasleða um hávetur til að halda námskeið og hátíð í örlitlu grænlensku þorpi…

Börnin sem komu til Íslands miðvikudaginn 29. ágúst voru sem sagt ellefti árgangur 5. bekkinga úr litlu þorpunum á Austur-Grænlandi sem koma til Íslands að læra sund og kynnast samfélaginu okkar. Þau njóta handleiðslu hinna óviðjanlegu sundkennara, Haraldar Erlendssonar og Guðrúnar H. Eiríksdóttur. Árangurinn er undraverður. Eftir tvo sundtíma á dag í tvær vikur eru þau langflest orðin flugsynd og fær í flestan sjó.

Ísland með augum grænlenskra barna

En ekki bara það. Þau fara frá Íslandi með óteljandi góðar minningar. Þau kynnast jafnöldrum sínum í grunnskólum Kópavogs, og þar fyrir utan er dagskrá sem myndi sæma hvaða þjóðarleiðtoga á þessum aldri. Þau heimsækja Húsdýragarðinn, Skautahöllina, Laugardalsvöll, Kolaportið, Kringluna, Bláa lónið, Þjóðleikhúsið, Smárabíó, Alþingi, Bessastaði, eru boðin á hestbak hjá Beggu Rist og Haraldur sundkennari býður þeim með góðra manna aðstoð í rútuferð um Gullna hringinn. Alls staðar er þeim tekið með kostum og kynjum, og alls staðar vekur þessi prúði og fallegi hópur aðdáun og gleði.

Og það er gaman að upplifa heiminn í gegnum augu grænlenskra barna. Hér sjá þau svo ótal margt í fyrsta skipti — þau eru líklegri til að hafa séð ísbjörn en hest með eigin augum; rúllustigarnir í Kringlunni vekja alltaf ómælda lukku; fyrsta bíóferðin á ævinni mun greypast í hugi þeirra, að ekki sé talað um töfraheiminn í Þjóðleikhúsinu. Allt er nýtt og allt er spennandi. Og í skólunum í Kópavogi eignast þau vini, máske fyrir lífstíð.

Gleðin er lykilorð í verkefninu. Það er mikilvægt (og gaman, auðvitað) að læra að synda og það er óendanlega fróðlegt og skemmtilegt að sjá eitthvað nýtt og spennandi — og gleðin, sem þetta alltsaman vekur, auðgar ekki bara líf grænlensku barnanna heldur allra þeirra sem þessu ævintýralegi verkefni koma. Gleðin skapar góðar minningar og úr jarðvegi góðra minninga sprettur jákvæðni og bjartsýni og fullvissan um að flest er hægt í þessum heimi.

Við Íslendingar erum heppnasta þjóð í heimi með nágranna, og við eigum að rækta tengslin af einlægni og virðingu — og með gleðina að leiðarljósi.

(Birtist í STUNDINNI 18. september 2016.)

Myndaalbúm: Ævintýri á Íslandi

Umræður

ummæli

Um Hrafn Jökulsson

x

Við mælum með

Staðreyndir um Grænland

Íbúar Grænlands eru upprunalega frá Mið-Asíu. Landið tilheyrir heimsálfunni Norður-Ameríku, en frá hreinum landfræðipólitískum sjónarhóli ...